Sunday, December 16, 2007

Jólafríið

Jæja, nú er jólafríið komið og farið. Fyrirfram hafði ég ætlað mér að horfa aftur á einhverjar gamlar myndir og vonandi sjá einhverjar nýjar. Það tókst bara nokkuð vel hjá mér.

Ég byrjaði á því að horfa á Dumb and Dumber frá '94. Unnur hafði aldrei séð hana og allt of langt síðan ég hafði séð hana. Og það er aldeilis nauðsynlegt að rifja þessa upp. Hún stóð rækilega fyrir sínu og enn meðal fyndnari mynda sem ég hef séð, ef ekki sú fyndnasta. Mig grunaði að hún hefði elst af mér og að húmorinn væri of barnalegur fyrir mig en raunin var önnur. Þvert á móti fannst mér hún drepfyndin og mig grunar að það sé vegna þess einfaldlega hve góðir grínleikarar Carrey og Daniels eru. Það gæti náttúrlega verið að ég hafi ekkert þroskast öll þessi ár en eigum við að ræða það eitthvað frekar?

Ég ákvað að stæla aðeins Brik og sýna ykkur eitt af mörgum frábærum atriðum úr myndinni:



Næst kíktum við á Shawshank Redemption sem er líka frá 1994. Önnur mynd sem Unnur hafði aldrei séð og ég aðeins séð einu sinni og því um að gera að rifja hana aðeins upp. Emil skrifaði ágætis færslu um þessa mynd þar sem hann var í sömu aðstöðu og ég, sem sagt að sýna einhverjum myndina sem hafði ekki séð hana áður. Ég hæpaði hana kannski aðeins um of en ég reyndi þó að segja sem minnst. Unnur var annars bara nokkuð hrifin af myndinni og ég auðvitað sömuleiðis. Robbins og Freeman ná ákaflega vel saman í þessari og ég stefni á að sjá fleiri myndir með Robbins, kannski maður byrji þá á Mystic River, hver veit. Einhverjir góðir pointerar hvar skal byrja þar?


En fríinu var ekki lokið þarna. Við héldum áfram, óafvitandi reyndar, með 1994 þemað og horfðum á Fjögur brúðkaup og jarðarför. Þar er á ferðinni ágætis bresk gamanmynd um krúttlegan klaufa sem hefur ekki mikillar gæfu að fagna í samböndum við hitt kynið. Auðvitað leikur Hugh Grant aðalhlutverkið þar. Handritið er ágætt og góður leikarahópurinn heldur myndinni uppi. Þegar ég tala um "góðan leikarahóp" mætti kannski mínusa frá Andie McDowell en ég er ekkert ótrúlega hrifinn af henni. Hvar skyldi hún annars vera þessa dagana, eitthvað hefur frægðarsól hennar dofnað. Mér er reyndar nokkurn veginn sama. Hvað um það, þetta er ágætis ræma.

Á milli Shawshank og Fjögurra brúðkaupa var horft á The Matrix. Ég verð nú að segja að hún var betri í minningunni en samt var hún alls ekki slæm. Ýmsar góðar pælingar í gangi en þó fannst mér aðeins of mikill Hollívúdd bragur yfir henni. Reeves er ekkert spes en mörg atriði frábær og tæknivinnsla afar flott. Að sjálfsögðu ber þar einna hæst atriðið þar sem þau sækja Morpheus.

Þó svo að þessi topplisti hérna á síðunni sé ekkert svakalega formlegur finnst mér rétt að taka Matrix út af honum. Mér finnst hún hafa dofnað svolítið síðan ég sá hana seinast og kannski eru það skelfilegu framhaldsmyndirnar sem skemma fyrir henni. Í staðinn kemur The Eternal Sunshine of The Spotless Mind með Jim Carrey í aðalhlutverki. Carrey er einn af mínum uppáhaldsleikurum og hann er í fantaformi í henni. Ég blogga ábyggilega betur um hana seinna.

En jæja, við lukum svo fríinu með blöndu af nýársdagskrá RÚV og opinnar Stöðvar 2.

Við byrjuðum á Syndum feðranna á RÚV en það er heimildamynd um Breiðavíkurmálið. Hún var mjög flott fannst mér, vel unnið úr viðkvæmu máli líkt og Veðramót gerði.

Eftir hana kíktum við á mest alla War of the Worlds eftir Spielberg. Þar er Tom Cruise í aðalhlutverki og er lélegur og leiðinlegur. Mjög súr mynd þarna á ferðinni, í raun algjörlega dæmigerð og klisjukennd Hollivúdd mynd þar sem afar lauslega er farið eftir söguþræði skáldsögu Wells.

Eftir skelfinguna tók hins vegar snilldin við en þar var kvikmyndin Ray á ferðinni. Þar fer Jamie Foxx með hlutverk Ray Charles í mynd sem er byggð á fyrri hluta ferils hans. Viðfangsefni myndarinnar er auðvitað einn af allra bestu tónlistarmönnum okkar tíma. Úr nógu er að moða en Charles var frumkvöðull á tónlistarsviðinu og lifði stormasömu og dramatísku einkalífi. Mjög vel gerð mynd og minnir óneitanlega á myndina um Johnny Cash þar sem Joaquin Phoenix fer á kostum. Unni fannst hún reyndar betri án þess að draga af þessari og fannst myndin um Cash persónulegri. Mér fannst myndirnar álíka góðar.

Annars hafði ég aðeins kynnst Jamie Foxx í gegnum þættina In Living Color sem voru sketsaþættir á fyrri hluta tíunda áratugarins. Hann kom mér mjög skemmtilega á óvart í Ray og mér fannst hann eiga Óskarinn fyllilega skilið, hvert svo sem gildi þeirra verðlauna er. Ray Charles hitti víst Foxx áður en hann fékk hlutverkið og samþykkti hann eftir að þeir höfðu spilað saman í nokkra klukkutíma. Ætli það sé nokkuð hægt að fá betri meðmæli en það, allavegana fyrir þetta hlutverk.

Sem sagt, ágætis uppskera í þessu fríi. Mér fannst mjög gott að rifja upp nokkrar kvikmyndir og þó ég hefði að vísu stefnt á að horfa á fleiri nýjar er þetta vel viðunandi. Gleðilegt ár!

Friday, December 7, 2007

Svona rétt í lokin - topp tíu!

Seinasta færslan af þrjátíu. Haldið ykkur fast.

The Untouchables

Þessi mynd er eftir leikstjórann Brian de Palma og gerð árið 1987. Hún fjallar um Elliot Ness og baráttu hans við mafíuforingjann Al Capone í Chicago þriðja áratugarins.

Það er erfitt að segja að það sé annað en úrvalslið leikara sem sjá um aðalhlutverkin. Kevin Costner tekur á hlutverki Elliot Ness og fer ágætlega með og Sean Connery er góður sem aðstoðarmaður hans. Þó finnst mér Robert de Niro bestur í hlutverki Al Capone en það má kannski segja að hann hafi fengið mest djúsí hlutverkið.


Ég sá þessa mynd í áttunda bekk og var þetta fyrsta "gangster" myndin sem ég sá. Ég hreifst strax af henni en þetta er í raun ekta Hollywood stórmynd. Þarna fer saman spenna, drama og smávegis af húmor en þetta er svo vel gert að maður getur ekki annað en hrifist af. Mörg atriðin eru mjög eftirminnileg, t.d. atriðið þar sem barnavagninn fer niður tröppurnar á lestarstöðinni. Þegar ég sá myndina seinna, hvort það hafi verið fyrir tveimur árum, fannst mér hún stundum verða ansi klisjukennd. Það var þó ekki nógu mikið til að lækka hana verulega í áliti hjá mér.

Myndin helst spennandi til loka og Ness og félagar eru á tímum afar flottir. Það er eitthvað svo töff við það að taka á Al Capone með fjögra manna lið og dæmið gengur algjörlega upp. Hvað sem öðru líður, þá er þetta stórskemmtileg mynd og það er líka ástæðan fyrir stöðu hennar á topp tíu listanum.

Brian de Palma hyggst gera framhald á næsta ári. Hún á víst að fjalla um komu Capone til Chicago og leið hans til valda. Spennandi að sjá hvort að de Palma takist að endurvekja töfrana úr þessari.

Þangað til næst, sjáumst!

Enn og aftur - topp tíu!

Jæja, nú er ég loksins að detta í þrjátíu færslur. Ég ætla að ljúka þessu með tveimur myndum af hinum fræga topp tíu lista, Pan's Labyrinth og The Untouchables. Ég ætla að geyma Shawshank Redemption og The Good, The Bad and The Ugly allavegana þangað til ég sé þær aftur en ég stefni á það í jólafríinu og á næsta ári.

Sem sagt, næstseinasta færslan! Spennan er magnþrungin.

Pan's Labyrinth

Þessi mynd er algjörlega brilljant. Hún er frá 2006 og er eftir leikstjórann Guillermo del Toro. Hún fjallar um unga stelpu sem fer inn í eins konar ævintýraheim til að sleppa frá hörmungum borgarastríðsins á Spáni. Fósturpabbi hennar er háttsettur og vægast sagt miskunnarlaus foringi fasista.

Mér fannst lýsingin á þessari mynd strax mjög spennandi. Að sjálfsögðu fylgdu með góðir dómar gagnrýnenda og þetta tvennt lét mig gera það að markmiði mínu að sjá þessa mynd.

Sagan sem er sögð og útfærslan á henni í myndinni er hvor tveggja frábær. Ævintýraheimurinn gefur leikstjóranum að mörgu leyti lausan tauminn og del Toro tekst mjög vel upp í að skapa hann. Sem dæmi er þessi vera sem er heldur betur skelfileg:


Stelpan sem leikur aðalhlutverkið stendur sig mjög vel en einnig aðrir leikarar, m.a. sá sem leikur Pan sjálfan. Leikstjórinn nær áhorfandanum algjörlega á sitt vald, við erum hrædd þegar við eigum að vera hrædd og glöð þegar við eigum að vera glöð. Á stundum er myndin helst til gróf en þannig kemst líka miskunnarleysið og ógnin til skila.

Þessi mynd er sannkallað meistaraverk. Sjáið hana.

Thursday, December 6, 2007

Rashomon

Ég missti af því þegar Siggi sýndi þessa í seinustu viku. Ég kíkti á hana í gær og hef því séð þrjár myndir hingað til með Kurosawa: þessa, Sjö samúræja og Drauma Kurosawa.

Eins og í Sjö Samúræjum, gengur þessi mynd að miklu leyti út á stórkostlega frásagnarhæfileika Kurosawa. Myndin fjallar um morð sem er sagt út frá mismunandi sjónarhornum og hæfileika manneskjunnar til að hagræða sannleiknum.

Kurosawa gerði þessa mynd árið 1950 en a.m.k. fjórir leikaranna í þessari voru einnig í Sjö samúræjum, sem Kurosawa gerði fjórum árum síðar. Sérstaklega kann ég vel við Takashi Shimura, sem leikur skógarhöggvarann í þessari mynd og er aðalmaðurinn í Sjö samúræjum. Hann hefur þetta útlit mannsins sem veit svörin við öllu og minnir mig aðallega á Morgan Freeman:



Toshiro Mifune er líka góður sem ræninginn Tajomaru, sem skellihlær beinlínis fram í opinn dauðann.

Mér fannst myndin ekki jafn góð og Sjö samúræjar en samt ansi góð. Hún krafðist ekki sama úthalds og var auðvitað mjög vel gerð og útfærð. Maður var mjög spenntur að heyra mismunandi sjónarhorn fólks og t.d. voru yfirheyrslurnar skemmtilega útfærðar. Ég bjóst þó kannski við öðruvísi endi en reyndar var hann góður. Svo vantaði kannski upp á stemminguna en ég var kominn í svolítið tímahrak við að horfa á hana.

Allt í allt ágætasta mynd sem er vel þess virði að sjá. Ég mun vafalaust horfa á hana aftur og aldrei að vita nema ég kunni enn betur að meta hana seinna við betra tækifæri.

Ég og bíóhúsin - slæm blanda?

Seinast fór ég í bíó á kvikmyndahátíðina, sem ég hafði reyndar mjög gaman af. Þar voru öðruvísi myndir en maður sér vanalega þó að margar hafi reyndar verið drasl, eftir því sem maður heyrði. Fyrir utan sýningar tengdar kvikmyndagerð held ég að ég hafi farið einu sinni eða í mesta lagi tvisvar í bíó seinasta hálfa árið. Ég er nánast hættur að fara í bíó. Hvað er eiginlega í gangi? Er þetta sæmandi nemanda í kvikmyndagerð?

Standardinn hefur hækkað hjá mér. Ég er orðinn langþreyttur á að fara í bíó með félögunum á einhverja hundleiðinlega mynd sem var algjörlega ekki tímans eða peninganna virði. En hins vegar er nóg af góðum myndum til sýninga í kvikmyndahúsum landsins. Þau skipti sem ég hef séð lélega mynd vega þó greinilega þungar, sem er ekki nógu gott. En það er fleira sem spilar inn í.

Þegar ég hitti félagana þá finnst mér það að fara á kvikmynd bjóða upp á takmörkuð samskipti. Auðvitað er maður ekkert að spjalla í miðri mynd og vissulega gefst smá tími í hléinu en svo er oft bara farið heim. Kvöldið hefur þá farið í það að horfa á, oftar en ekki, heiladauða Hollywood mynd án þess að fá tækifæri til að spjalla við kunningjana. Auðvitað snýst það að fara í bíó ekki um þetta en í gegnum tíðina hefur þessi ástæða oft orðið til þess að ég sleppi bíóferð.

Svo er það himinháa miðaverðið. Finnst engum skrítið að það er alltaf sama verðið í öllum bíóum og hækkanir á verði á sama tíma? Það er nákvæmlega engin samkeppni á þessum markaði og bíóin virðast hafa tekið olíufélögin á þetta. Og hafa líklega gert það mjög lengi.

Svo gæti þetta verið einhver retróstemming hjá mér. Ég er búinn að koma mér upp ákveðnum fordómum fyrir nýjum myndum þó oft sé það ekki að ástæðulausu. Í mörgum myndum eru samtölin gjörsamlega innihaldslaus og áherslan aðallega lögð á sprengingar og brellur. Mér leiðist það og oft finnst mér meira spennandi að sjá klassískar myndir sem hefur verið sýnt og sannað að klikka ekki.

Líklega spila allir þessir þættir inn í mitt bíósnauða-ástand. Ég get þó varla talist alvöru kvikmyndaáhugamaður ef ég gef mér ekki tíma og peninga til að fara í bíó. Ég vel mér einhverja góða í jólafríinu og stefni ótrauður í kvikmyndahús borgarinnar.

Topp tíu frh.

Jæja, Matrix er næst á listanum en ég nenni ekki að skrifa um hana núna og geymi hana í bili. Blues Brothers var ég búinn að skrifa um og þá er bara næsta í röðinni:

American History X

Mig minnir að ég hafi aðeins séð þessa einu sinni. Það hefur líklega verið í áttunda bekk en hún situr mér enn ofarlega í minni. Í raun er erfitt að horfa á þessa mynd til enda og muna ekkert eftir því.

American History X fjallar um fyrrverandi nýnasista sem reynir að hindra bróður sinn í að fara sama veg og hann sjálfur. Edward Norton leikur nýnasistann af sinni alkunnu snilld og Edward Furlong bróður hans. Leikstjórinn er Tony Kaye en hann hefur ekki verið afkastamikill og þetta vafalaust hans besta og langþekktasta mynd.


Myndin lýsir, stundum á mjög grófan hátt, hversu djúpt kynþáttahatrið getur legið í hugum manna. Myndin er svo sannarlega ekki við hæfi barna eða viðkvæma og eflaust mörgum sem finnst nóg um. Þó mér finnist hún óþarflega brútal á köflum, þá snerti myndin og sagan sem hún segir virkilega við mér. Handritið og söguþráðurinn, ásamt leik Nortons, gera þessa mynd virkilega góða. Kíkjið á þessa ef þið eruð ekki búin að því.

Wednesday, December 5, 2007

Topp tíu frh.

Donnie Darko

Donnie Darko er næst á listanum góða. Hún var gefin út árið 2001 en ég sá hana ekki fyrr en hún var sýnd á RÚV, þegar ég var í tíunda bekk. Það er í raun ótrúlegt að þeir skuli hafa sýnt þriggja ára gamla mynd en það ómögulega getur gerst.

Þessi mynd fjallar um ungling, Donnie Darko, sem er orðinn vel þreyttur á ameríska úthverfalífinu. Í myndinni fær hann sýnir með undarlegri kanínu, sem lætur hann fremja ýmis afbrot í svefni og bjargar honum líka úr hræðilegu slysi. Hann virðist ekki eiga samleið með fjölskyldu sinni, bekkjarfélögum eða kennurum en hrifst svo af nýju stelpunni í bekknum.


Jake Gyllenhaal leikur þennan einræna ungling og tekur hlutverkið með trompi. Hann nær þessu "mér er sama um allt" viðhorfi fullkomlega en tekst að halda í bæði kúlið og smá dassi af "góði gæjinn" fílingi líka. Leikstjórinn er Richard Kelly en hann virðist ekki hafa gert margt merkilegt fyrir utan þessa mynd. En auðvitað á hann hrós skilið fyrir þessa mynd.

Þetta er virkilega góð mynd. Handritið er frábært og oft leynist líka kaldhæðinn undirtónn sem fær mann til að brosa. Endirinn er afar flottur og vekur upp miklar pælingar um restina af myndinni. Mjög góð ræma.

Charlie and the Chocolate Factory

Unnur var nokkuð oft búin að nefna við mig að ég þyrfti að sjá þessa mynd. Nánast í hvert skipti sem farið var út á leigu talaði hún um hana. En aldrei var ég algjörlega sammála þessari hugmynd. Mér leist samt ágætlega á hana og vanalega er ég ekki svona vandlátur á myndir. Ég virðist bara ekki hafa verið stilltur inn á þessa mynd. Fyrr en núna um daginn. Ég lét loks til leiðast að sjá hana og get ekki sagt að ég sjái eftir því.

Myndin er leikstýrð af Tim Burton, sem er frábær leikstjóri. Hann hefur sinn eigin skemmtilega stíl og tekst alltaf að vera frumlegur. Það að þessi maður skuli vera leikstjórinn ætti að vera nóg til að fá hvern sem er til að sjá þessa mynd. Ég hef séð nokkrar myndir eftir hann og t.d. fannst mér Big Fish frábær og Sleepy Hollow líka góð.

Myndin er byggð á þekktri bók eftir Roald Dahl. Hún fjallar um mann sem að á stærstu og flottustu súkkulaðiverksmiðju heims. Hann gerist eitthvað súr út í heiminn og hittir ekki nokkurn mann í nokkur ár, þangað til hann leyfir nokkrum heppnum krökkum að heimsækja sig í verksmiðjuna.


Barnabók eða ekki, þá er þetta stórskemmtileg saga. Auðvitað er Johnny Depp mættur á svæðið en hann og Burton hafa oft unnið áður saman. Depp stendur sig auðvitað mjög vel eins og hann gerir oftast. Hann leikur mjög litríkan karakter og virðist fæddur í það. Strákurinn sem leikur hitt aðalhlutverkið er líka góður og flestir leikarar aðrir standa sig vel.

Stór hluti þessarar myndar er umhverfið og hvernig það er útfært. Auðvitað er Burton rétti maðurinn í að kvikmynda þessa bók, því oft er umhverfið fáránlega súrrealískt. Ég ímynda mér að mikil tölvuvinnsla hafi farið í þessa mynd og hún er líka vel gerð.

Almennt séð er þetta fínasta mynd. Ég lét hana fara fram hjá mér allt of lengi. Ekki gera sömu mistök og ég.

Topp tíu listi frh. + staðan eins og hún er núna

Jæja, þá er ég búinn að henda inn einni færslu af þessum níu síðustu. Það mætti halda að ég hafi hent henni inn í gær en í raun skrifaði ég bara rétt svo byrjunina í gær. Þannig að ég hef ekki staðið mig neitt sérstaklega vel hingað til en þó er nægur tími til að bæta það upp. Eins og til dæmis með annarri færslu:

Í fyrstu ætlaði ég aldrei að gera neina sérstaka færslu um topp tíu listann hérna á síðunni. Ég bloggaði þó um Blues Brothers um daginn og í gær ákvað ég svo að taka sérstaka færslu um þennan ágæta lista. Í fyrstu átti sú færsla einungis að vera ein en í ljósi þess að mig vantar átta færslur upp á kvótann hef ég tekið þá dramatísku ákvörðun að skipta færslunum upp og tek ég þá eina eða tvær myndir í hverri færslu. En nú ætla ég að hætta þessu kjaftæði og skrifa smávegis um næstu mynd á listanum, sem er Citizen Kane. Hérna kemur það:

Citizen Kane

Ég sá Citizen Kane fyrst ungur að árum, eða einungis átta-níu ára. Ég hafði heyrt bræður mína og pabba fara fögrum orðum um hana áður og skellti henni sjálfur í tækið einn góðan veðurdag. Ég var vissulega ekki búinn að þróa með mér mikinn kvikmyndaskilning og ég hafði í raun aldrei séð svona mynd áður. Bæði voru efnistökin allt önnur en ég átti að venjast og allur bragur á myndinni sjálfri líka. Það var samt eitthvað sem ég sá við myndina og auðvitað er söguþráðurinn og endirinn á myndinni góður, án þess þó að maður skilji hversu mikilvæg myndin sjálf er. Það er eitthvað einstakt við virkilega góðar myndir sem getur verið erfitt að grípa nákvæmlega hvað er. Líklega tengist það hvernig sagan er sögð og skemmtanagildis myndarinnar í heild. Citizen Kane hefur að geyma þetta eitthvað og hún snerti mig strax þrátt fyrir minn ungan aldur. Síðan þá hef ég séð myndina aftur nokkrum sinnum og alltaf haft gaman af.

Þessi mynd er ein af þungavigtarverkum kvikmyndasögunnar eins og allir vita. Þetta var fyrsta kvikmynd Orson Welles í fullri lengd og er af mörgum talin ein besta mynd sögunnar. Ég þarf nú ekki að fara mörgum orðum um efni myndarinnar. Hún fjallar um fjölmiðlamógul og auðjöfur að nafni Kane og blaðamann sem rannsakar dánarorð hans.


Sagan er afar skemmtilega sögð en hún er að mestu sögð í gegnum endurlit og fáum við að vita meira og meira um Kane eftir því sem rannsókn blaðamannsins heldur áfram. Í myndinni notar Welles ýmis stílbrögð, meðal annars djúpan fókus, skot frá lágu sjónarhorni og margt annað. Welles stendur sig svo frábærlega í hlutverki auðjöfursins.

Það er oft talað um mikilvægi þessarar myndar í bandarískri kvikmyndagerð þar sem hún sameinaði marga þætti kvikmyndagerðar í eina mynd og gerði það á afar frumlegan og vandaðan hátt. Ég hef samt aldrei pælt neitt sérstaklega í því þegar ég hef horft á Citizen Kane og mér finnst hún njóta sér prýðilega án þess að maður sé að pæla sérstaklega í mikilvægi hennar. Það er hins vegar gaman að sjá hversu mikilvæg hún var og það er vissulega stór hluti ástæðunnar að kvikmyndaunnendur hafa hrifist af þessari mynd. Það er fyrst núna sem ég er að átta mig á því og auðvitað er það kvikmyndagerðarkúrsinn sem hefur opnað augu manns fyrir ýmsu.

En til að slútta þessu:
Þetta er góð mynd. Punktur.

Tuesday, December 4, 2007

Topp tíu listinn

Topp tíu listinn hérna á síðunni er frekar óformlegur. Mér hefur alltaf fundist erfitt að skilgreina nákvæmlega bestu myndir sem ég hef séð. Stundum hef ég jafnvel spurt sjálfan mig að því, eftir að hafa horft á góða mynd, hvort að sú mynd ætti heima á þessum lista. En þetta er samt ágætis blanda af góðum myndum og margar sem eru á mörkunum á því að detta inn. Jæja, ég ætla allavegana að skella inn óformlegri færslu um þennan blessaða og mjög svo óformlega lista.

Memento

Myndirnar á listanum eru ekki í neinni sérstakri röð. Efst á hann skellti ég myndinni Memento. Þetta er mynd frá árinu 2000 sem ég sá í sjöunda bekk að því er mig minnir. Guy Pearce fer með aðalhlutverkið í þessari og stendur sig stórvel. Hann leikur mann sem þjáist af minnisleysi og gengur myndin út á það að miklu leyti. Plottið er vægast sagt rosalegt í þessari og maður er algjörlega eftir sig eftir að horfa á hana.


Snillingurinn Christopher Nolan sér um leikstjórnina og slær engin vindhögg þar. Hann hefur ekki leikstýrt mörgum myndum en hefur þó getið sér gott orðspor og virðast gæðin fara framar en magnið þegar kemur að honum. Þær myndir sem ég hef einnig séð eftir hann eru Batman Begins og The Prestige og fannst mér báðar mjög góðar. Það verður því gaman að sjá hvað þessi maður gerir í framtíðinni en það er einmitt næsta Batman mynd, The Dark Knight, sem er næsta mynd kappans og hún verður eflaust stórfín.

Þremur árum eftir að ég sá Memento kíkti ég aftur á hana. Myndin var mér líklega enn í of fersku minni, því hún gekk ekki alveg jafn vel í annað sinn. Það er þó ekkert til að draga úr gæðum myndarinnar, heldur var það heimska af mér að láta ekki líða aðeins lengur. Ég var bara of æstur í að sjá hana aftur. Sem aftur á móti bendir á hversu góð hún var. Þó svo að myndin virki líklega best í fyrsta sinn er það engin ástæða til að láta hana framhjá sér fara.

Jæja, ég hef ekkert verið að draga úr hrósinu á þessa mynd. Sem er líka ekkert skrítið. Hún er hörkugóð og ég mæli eindregið með henni.

Monday, December 3, 2007

Dagskrá vikunnar

Jæja, núna þarf maður að blogga eins og brjálæðingur þessa vikuna. Siggi tekur saman einkunnirnar um næstu helgi og maður getur ekki annað en haft þrjátíu færslur tilbúnar þá.

Ég missti af sýningu á Rashomon eftir Kurosawa. Það voru ekki allir í bekknum sammála um ágæti hennar en hins vegar hefur pabbi hrósað henni í hástert svo mér líst bara ágætlega á þetta. Hann er líka alltaf að tala um það að maður eigi að horfa á sem flestar myndir þegar maður er enn ungur að árum. Það er ábyggilega mikið til í því, allavegana ef ég er sonur hans þá á ég eftir að gerast sérvitur með aldrinum. Það er því ýmislegt til í þessu hjá kallinum. En ég þarf sem sagt að skella inn hörkufærslu um Rashomon til að fá mætingu í bíótímann.

Annars hef ég varla tíma til að horfa á fleiri myndir í vikunni. Það verða því fleiri færslur um myndir sem ég hef séð áður. Svo luma ég kannski á einhverjum vangaveltum sem ég skelli hérna inn. Búið að vera allt of lítið af því hérna. Meira bara sama formúlan aftur og aftur hjá mér. Ætli ég reyni ekki að sýna örlitla fjölbreytni þessa seinustu viku.

Það er mánudagur í dag og ég þarf að vera kominn með þrjátíu færslur að morgni laugardags. Eða ég set stefnuna á það. Hmm, það eru þá fjórir dagar eftir og níu færslur. Það gera 2,25 færslur á dag. Og auðvitað þarf ég að horfa á Rashomon, sem er reyndar bara tæpar 90 mínútur. Núna duga sko engin vettlingatök, það er nokkuð ljóst!

Thursday, November 29, 2007

Hot Fuzz

Myndin Hot Fuzz er bresk gamanmynd sem kom út fyrr í ár. Þegar ég fór á hana í bíó vissi ég ekki við hverju ég ætti að búast en hún kom mér mjög skemmtilega á óvart.

Myndin fjallar í stuttu máli um skuggalega færan lögreglumann í London sem er fluttur gegn vilja sínum yfir í lítið og rólegt þorp út á landi. Svo fara leyndardómsfull "slys" að gerast út um allt þorp og lögreglumaðurinn er staðráðinn í að komast til botns í málinu.


Löggan er leikin af Simon Pegg en hann lék einnig aðalhlutverkið í Shaun of the Dead sem var fín mynd. Hann er snilldarleikari og stendur sig prýðilega í þessu hlutverki. Nick Frost leikur klaufalegan félaga hann en þeir tveir léku líka saman í Shaun of the Dead. Timothy Dalton leikur einnig stórskemmtilegt hlutverk og fer að sjálfsögðu vel með það. Leikstjórinn er Edgar Wright en hann skrifaði myndina ásamt Simon Pegg. Þeir unnu líka saman í Shaun of the Dead. Þetta er því að miklu leiti sama lið og gerði Shaun of the Dead, sem er alls ekki slæmt.

Myndin er ekki bara mjög fyndin heldur hefur hún að geyma skemmtilegan söguþráð og fínt handrit. Þetta er ein af þessum myndum þar sem allt virðist passa saman og allt gengur upp. Karakterarnir eru margir hverjir frábærir og samtölin mjög vel skrifuð. Í raun það eina sem ég sé að myndinni er að hún gerist örlítið langdregin í endann. Reyndar var ég samt að lesa að leikstjórinn hefði klippt um hálftíma af henni áður en hún var sýnd. Smávegis Peter Jackson-einkenni í gangi þarna.

Nokkrum vikum seinna fór ég á hana aftur í bíó. Hún var svo sannarlega ekki verri í seinna skiptið og ef eitthvað þá fannst mér hún betri. Það voru einhverjir brandarar sem fóru framhjá mér í fyrra skiptið þar sem myndin er yfirfull af húmor. Ég fékk hana svo í afmælisgjöf í gær og horfði á hana í þriðja sinn. Ég efast um að ég þreytist nokkurn tímann á þessari mynd. Hún er bara svo fáránlega skemmtileg.

High Fidelity

Kíkti á þessa í seinustu viku. Myndin fjallar um náunga sem lifir frekar tilbreytingarlausu lífi og á erfitt með að láta ástarsambönd sín endast til lengri tíma. Myndin er gerð eftir bók með sama nafni eftir höfundinn Nick Hornby.

Þetta var fínasta mynd. John Cusack leikur aðalhlutverkið og stendur sig vel. Hin myndin sem ég hef séð með honum er America's Sweethearts sem er léleg mynd. Ég hafði því ekki mikið álit á honum áður en ég kíkti á þessa en hann stóð fyrir sínu kallinn. Jack Black á fínt hlutverk líka, hann er alltaf góður.

Það voru þó nokkur fyndin atriði og karakterarnir mjög skemmtilegir. Myndin nær réttu blöndunni af drama og skemmtilegheitum og heldur manni alla leið. Ég mæli með þessari.

Tuesday, November 27, 2007

Paris, Texas

Ég horfði á myndina "Paris, Texas" frá árinu 1984 um daginn. Hún fjallar um mann að nafni Travis sem að hefur verið týndur í fjögur ár en finnst loks í miðri eyðimörkinni í Texas. Bróður hans tekur hann að sér og maðurinn reynir að púsla saman lífi sínu aftur.

Ég horfði á þessa mynd aðallega af því að söguþráðurinn hljómaði ágætlega. Hins vegar nefndi skoska hljómsveitin Travis sig eftir aðalpersónunni og ég hefði líklega aldrei séð myndina ef Travis væri ekki uppáhaldshljómsveit Unnsu.

Eins og ég sagði fannst mér söguþráðurinn hljóma ágætlega. Og myndin byrjaði líka vel. Hún hélt manni ágætlega við efnið og það var spennandi að vita hvaða fortíð þessi maður hafði átt. Hins vegar varð hún hægari eftir því sem leið á hana. Myndin varð aðeins of listræn fyrir minn smekk og tilgerðarleg undir lokin.

Þessi mynd hefði mátt vera styttri og hnitmiðari og þá hefði hún kannski hitt í mark. Hún missti hins vegar marks hjá mér vegna lengdar og langdregni.

Thursday, November 22, 2007

Draumar Kurosawa

Draumar Kurosawa er mynd sem ég sá í æsku, líkt og Blues Brothers sem ég bloggaði um í seinustu viku. Þessi mynd, sem er eftir Kurosawa, er byggð á draumum sem hann hafði í gegnum ævina.

Það er ekki mikið um samtöl í þessari mynd heldur byggist hún aðallega á myndatöku og atriðum. Henni er skipt niður í átta kafla sem fást hver við sinn draum.

Þessi mynd er ansi mögnuð. Það er erfitt að lýsa henni en uppbyggingin tekst fullkomlega og allir draumarnir njóta sín vel. Oft eru einhverjar pælingar á bak við draumana og atriðin, til dæmis snertir Kurosawa á kjarnorkuslysum og dauðanum.

Kurosawa er auðvitað einn af þeim allra bestu og þó að kallinn sé áttræður þegar hann gerir þessa kann hann þetta enn. Þetta er ein af eftirminnilegri myndum sem ég hef séð.

Failure to Launch

Hversu slæm getur ein mynd verið?

Þetta er stór spurning sem framleiðendur myndarinnar Failure to Launch ákváðu að tækla af fullum krafti. Og þeirra svar við spurningunni var nokkuð gott. Eða lélegt, öllu heldur.

Eina ástæðan fyrir því að ég sá þessa mynd var að mér áskotnaðist boðsmiði á hana. Ég vissi svo sem ekkert um hana en ég get ekki sagt að ég hafi búist við miklu.

Flest við þessa mynd hefur sést þúsund sinnum áður í kvikmyndum og, það sem verra var, þá var það allt skelfilega lélegt. Handritið var lélegt og myndin nánast samhengislaus. Leikararnir stóðu sig illa, það var nákvæmlega ekkert að gerast á milli Matthew McConaughey og Sarah Jessica Parker. Í raun var meginhugmyndin á bak við kvikmyndina slæm. Ég nenni ekki einu sinni að fara út í þann pakka.

Ég man ekki hvort að eitthvað gott hafi verið við þessa mynd. Mig rámar í að ég hafi hlegið í kannski einu atriði en ég er ekki viss. Meira að segja plaggatið var hörmulegt:


Þegar ég sé svona kvikmyndir, hugsa ég til þeirra fjármuna sem fara í svona rusl á hverju ári. Þeir eru gríðarlegir og þeim er gríðarlega illa eytt, gæti maður sagt. Á móti kemur hins vegar að þetta er ákveðinn iðnaður og þúsundir fólks vinnur við þetta og hefur lífsafkomu af. En af hverju þá að gera svona margar myndir skelfilega ómerkilegar?

Wednesday, November 21, 2007

Blues Brothers

Ég sá fyrst Blues Brothers þegar ég var svona sjö-átta ára og hún hefur fylgt mér síðan. Sverrir og Snabbi sýndu mér hana og ég varð strax hrifinn af henni. Mig minnir að það hafi verið Aron Ingi sem kallaði hana söngvamynd en mér finnst það skelfilegur stimpill til að setja á hana. Það er líka bara snilld þegar Ray Charles tekur í hljómborðið og allir dansa saman útá götu.

Auðvitað er þetta hrein gamanmynd, enda eru ófá skemmtileg atriði í myndinni. Belushi fer auðvitað á kostum og Dan Akroyd virkar vel sem þögla týpan. Talandi um hann, þá er sjokkerandi að sjá kallinn fitna á milli mynda. Strax í Ghostbusters var hann orðinn búttaður og það er eins og maðurinn hafi bara misst sig í bakkelsi og hamborgurum eftir að hann meikaði það.

En talandi ekki um Dan Akroyd, þá er húmorinn í þessari mynd frábær. Hann er vel svartur á köflum og til að mynda frábært atriðið á veitingastaðnum þar sem Belushi býður í dóttur mannsins á næsta borði. Atriðið með löggubílinn í byrjun myndarinnar er líka frábært.

Þessi mynd er kannski ekki leikrænt meistaraverk og ég hef í raun ekki hugmynd um hver leikstýrði henni. Það eina sem skiptir máli er að Blues Brothers er skemmtileg og fyndin mynd sem allir verða að sjá. Algjör klassík.


Ábending: Ekki horfa á Blues Brothers 2000, hún er drasl.

Monday, November 19, 2007

Some Like It Hot

Við kíktum á þessa í seinustu viku. Leikstjórinn er Billy Wilder og leikararnir m.a. frú Monroe og Jack Lemmon. Ég hef ekki séð mynd eftir Wilder áður og var bara nokkuð hrifinn af þessari.

Myndin fjallar um tvo tónlistarmenn sem klæða sig upp sem kvenmenn og ganga í kvennahljómsveit til að flýja undan mafíunni. Eins og mætti halda hendir þá félaga ýmislegt skemmtilegt og er myndin farsakennd á köflum.

Jack Lemmon leikur við hvern sinn fingur í þessari og Monroe kemur skemmtilega á óvart. Ég hafði aldrei séð hana leika áður og tengt hana þá frekar við einhvern glamúr lífsstíl eða eitthvað. Ég hef í rauninni aldrei vitað neitt óskaplega mikið um kellu. En þarna stóð hún sig allavegana vel. Félagi Lemmon, Tony Curtis, er líka góður en er þó í minna fyndnara hlutverki en Jack. Flestir myndu þó segja að Curtis væri heppnari í myndinni en það kemur í ljós þegar horft er á myndina.

Þetta er fyrst og fremst skemmtileg mynd og hún heldur manni við efnið allan tímann. Einhver nefndi myndina White Chicks í sambandi við þessa en það er auðvitað gróft ofmat á þeirri mynd. Þó ég hafi ekki séð þá ræmu, get ég fullyrt að hún á ekki skilið að vera nefnd í sömu setningu og þessi. Í heildina var ég vel sáttur með þessa.

Empire Strikes Back

Ég og Unnur tókum létt maraþon um daginn og horfðum á fyrstu stjörnustríðsmyndirnar. Þessar myndir hafa vissulega fengið afar mikinn nördastimpil á sig en ég held að mörgum finnist þær þó algjör klassík. Þegar kemur að þessum myndum verður bara að líta framhjá svoleiðis stimplum. Þær eru bara svo helvíti skemmtilegar og vel gerðar.

Ég er á því að önnur myndin sé best. Ástæðan fyrir því er að í fyrstu myndinni gerist ekki mikið, þar er verið að kynna svo marga til leiks og þrátt fyrir að þriðja sé ansi góð þá er eitthvað meira djúsí við aðra myndina. Þar ríkir meira vonleysi og svo kemur þar Lando Calrissian fyrst fram en Billy Dee Williams er afar svalur í því hlutverki.

En já, það er margt í þessari mynd sem er afar vel gert. Tæknibrellurnar voru náttúrlega svakalegar á sínum tíma og þó þær séu kannski afar fornfálegar samkvæmt núgildandi stöðlum þá trufluðu þær mig lítið. Það er til dæmis eitthvað svo heimilislegt við brúðurnar og mér fannst þeir hefðu mátt sleppa mörgu af því sem þeir bættu við í afmælisútgáfunni. Þar bættu Lucas og félagar til dæmis við slatta af tölvugerðum fígúrum en mér fannst aðeins of mikið af því. Við náum því til dæmis alveg ef Geimgengill og félagar eru staddir á bar, það er alveg óþarfi að bæta inn tölvugerðu tónlistaratriði þar sem einhver geimvera dansar tangó. Eftir á að hyggja er það atriði verðugt þess að spóla yfir, reyndar var það í þriðju eða fyrstu myndinni held ég.

Allavegana. Leikararnir standa sig ágætlega, Harrison Ford er afar töff en Mark Hamill sem Logi Geimgengill getur verið heldur mikill vælukjói á köflum. Það er að vísu að miklu leyti persónan sjálf, kannski ekki beint Hamill að kenna. Hverju öðru lék hann annars í? Er þetta kannski sama og með Elijah Wood, sem verður kannski alltaf þekktur sem Fróði? Við nánari aðgrennslan virðist sem Hamill hafi bara dottið í gott chill eftir seinustu Stjörnustríðsmyndina. Hann hefur líklega vaðið í peningum, sé miðað við gríðarlega velgengni þessara mynda.

Mörg atriði í myndinni eru flott. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt bardagaatriðið í snjónum í byrjun myndarinnar og bardaginn milli Svarthöfða og Loga er einnig góður. Þessi mynd er líka laus við einhver væmin siguratriði eins og var í lok A New Hope og Episode 1.

Þema Stjörnustríðsmyndanna er barátta góðs og ills. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést en þó svínvirkar þetta hjá Lucas og félögum. Sagan er nægilega góð, persónurnar eftirminnilegar og myndirnar vel gerðar. Þetta kristallast í Empire Strikes Back, sem er allt í allt frábær mynd og tímalaus klassík.



-Svo kemur reyndar í ljós að þetta er allt saman tekið úr myndum eftir Kurosawa. Maður hefði svo sem getað sagt sér það sjálfur.

Tuesday, November 6, 2007

Sjöunda innsiglið

Myndin Sjöunda Innsiglið eftir Ingmar Bergman kom út árið 1957 og er oftast talin besta mynd hans. Hún fjallar um riddara sem kemur úr krossferð heim til Svíþjóðar þar sem svarti dauði fer yfir og stráfellir fólk. Dauðinn sjálfur kemur að sækja hann en þá skorar riddarinn á hann í skák upp á líf sitt eða dauða. Í gegnum myndina fylgjumst við með baráttu þeirra, vangaveltum riddarans um tilvist guðs og fáum nasasjón af vitfirringunni sem getur gripið fólk á tímum mikilla erfiðleika.

Ég, Drési og Miller horfðum á þessa út af fyrirlestrinum okkar um Bergman. Pabbi var búinn að minnast á þessa mynd við mig áður og auðvitað hlustar maður á gamla manninn. Ég hafði því töluverðar væntingar fyrir henni og hún brást mér ekki.

Þessi mynd hefur allt það sem eftirminnileg og einstök mynd þarf að hafa. Samtölin eru vönduð og flott og atriðin sjónræn og vel uppbyggð. Persónur myndarinnar eru fjölbreytilegar og sumar oft á tíðum mjög fyndnar. Leikararnir stóðu sig mjög vel, með Max von Sydow fremstan í flokki í hlutverki riddarans. Þrátt fyrir að viðfangsefni myndarinnar sé að miklum hluta alvarleiki dauðans blandar Bergman léttari atvikum inn í söguþráðinn sem gera það að verkum að myndin heldur manni allt frá byrjun til enda.

Það sést á þessari mynd af hverju Ingmar Bergman er einn merkasti leikstjóri sögunnar. Það samsvarar sér allt svo vel í þessari mynd og allt virðist ganga upp. Allt í allt, frábær mynd sem enginn má láta framhjá sér fara. Sjáið þessa!

Thursday, November 1, 2007

La Regle du jeu (Reglur leiksins)

Á mánudaginn horfðum við á frönsku myndina La Regle du jeu frá árinu 1939. Myndin er eftir leikstjórann Jean Renoir og segir frá lífi og samskiptum fólks í Frakklandi rétt fyrir seinni heimsstyrjöld.

Mér fannst áhugavert að sjá hve samfélagið var ólíkt því sem maður sjálfur er vanur. Þarna var hástéttin mætt á sveitasetrið á kanínuveiðum og þjónustufólkið þeirra að sjálfsögðu slúðrandi um herrana. Til dæmis var gaman að sjá hversu auðveldlega sumir héldu fram hjá maka sínum, hvort sem það var þjónustustúlkan eða snobbaði auðmaðurinn. Renoir gerir óspart grín á kostnað hástéttarinnar og tókst oft vel.

Að öðru leyti greip myndin mig ekkert sérstaklega. Persónurnar sem voru hvað ýktastar fóru stundum í taugarnar á mér. Mér fannst kvikmyndin ganga frekar hægt líka og eytt í samtöl sem vöktu engan áhuga hjá mér.

Þessi mynd var efst á lista yfir bestu "útlensku" myndir allra tíma sem að Siggi benti okkur á um daginn. Satt að segja veit ég ekki hvort hún á skilið að vera þar. Það gæti þó verið að seinna muni maður kunna að meta hana betur.

Wednesday, October 17, 2007

Land of the dead

Ég sá myndina Land of the dead fyrir ári eða svo. Leikstjórinn er enginn annar en George Romero, sá sami og gerði fyrri Dawn of the dead myndina. Þessi mynd fæst sem sagt við uppvakninga og má kalla sjálfstætt framhald Dawn of the dead.

Jörðin er yfirfull af uppvakningum og það er aðeins ein borg óhult. Hún er á einhvers konar eyju og mikil örrygisgæsla gagnvart bæði afturgöngunum og íbúum fátækrahverfana í kring. Stjórnandi þessa litla ríkis er gjörspilltur og svífst einskis. Á einhverja daga fresti þarf mannfólkið hins vegar að sækja vistir í nærliggjandi bæji þar sem afturgöngurnar reika um. Í þessum ferðum notast fólkið við flugelda og standa þá hinir dauðu og stara á þá. Núna eru hins vegar afturgöngurnar farnar að hugsa. Þær láta ekki lengur glepjast af flugeldunum og þetta skapar mikla hættu fyrir mannfólkið. Svo fjallar myndin um uppgang hinna dauðu og innrás þeirra í borgina.

Persónusköpun þessarar myndar er skelfileg. Það mætti halda að leikstjórinn og handritshöfundarnir hefðu sankað saman mestu stereótípunum úr hasarmyndum samtímans og svo ýkt þær um helming. Það er bara skelfing að horfa upp á þetta. Leikurinn er á sama stigi og persónusköpunin.

Söguþráðurinn er líka ógurlega ómerkilegur og fyrirsjáanlegur. Öll uppbygging persóna í myndinni, það litla sem leikstjórinn reynir, fer forgörðum og gengur ekki upp. Það eru ekki einu sinni góðar brellur í þessari mynd. Í staðinn fyrir að finna fyrir spennu í spennuatriðunum gat maður ekki annað en hlegið.

Skelfileg mynd.

Monday, October 8, 2007

Maður án fortíðar


Í gær sá ég myndina Maður án fortíðar eftir finnska leikstjórann Aki Kaurismaki. Hún fjallar um mann sem kemur einn síns liðs til Helsinki með ferðatösku og sofnar á bekk í almenningsgarði sína fyrstu nótt. Um nóttina kemur gengi pönkara og ber hann til óbóta og stelur peningum hans. Þegar hann vaknar á spítala hefur hann tapað minninu og veit ekkert um bakgrunn sinn, ekki einu sinni nafn sitt. Hann þarf því að hefja nýtt líf á götum Helsinki, allslaus og minnislaus.

Eftir því sem ég kynntist aðalpersónu myndarinnar betur varð ég hrifnari af henni. Í hinum ýmsu atvikum sem maðurinn lendir í reynist hann alltaf úrræðagóður og tekur öllu með mikilli ró. Hann tapar aldrei kúlinu þrátt fyrir hrikalegar aðstæður sínar. Aðalleikarinn sýndi frábæran leik og hann minnti mig stundum á töffarann Morrissey, söngvara The Smiths:



Eitt af því sem gerði þessa mynd svo góða, voru samtölin í myndinni og undirliggjandi húmorinn í gegnum alla myndina. Samtöl persónanna voru fá og stuttaraleg en tókst þó að koma öllu fram sem fram átti að koma. Þau voru öll mjög "blátt áfram" og um leið kómísk. Í gegnum myndina lágu atvik og smáatriði sem kitluðu hláturtaugarnar. Einnig dúkkuðu upp nokkur söngatriði í myndinni. Það er auðvelt að gera slík atriði leiðigjörn en í myndinni voru þau einkar vel gerð og alls ekki leiðinleg.

Yfirbragur myndarinnar var frábær. Myndatakan var stundum afar retró, sem gaf myndinni skemmtilegan stíl. Það var líka mjög "hlý" litasamsetning í myndinni, rauði liturinn áberandi, öfugt við kalda litasamsetninguna sem er gjarnan í norrænum myndum og þá sérstaklega íslenskum. Manni fannst nánast eins og myndin væri staðsett á sjöunda áratugnum í borg í suðurríkjum Bandaríkjanna. Það hljómar ef til vill fáránlega en passaði mjög vel við fátækleikann sem einkenndi líf aðalpersónunnar.

Ég get ekki talið upp galla við þessa mynd. Mér fannst hún bæði vel leikin og skrifuð, ásamt því að vera einlæg og skemmtileg. Það eru eflaust einhverjir sem telja þetta ofmat en eins og alltaf eru skoðanir fólks ólíkar. Þessi mynd er nálægt því að rata á topp tíu hjá mér og ég mæli eindregið með henni.

Monday, October 1, 2007

Einkalíf okkar

Í gærkvöldi sá ég myndina Our Private Lives eftir kanadíska leikstjórann Denis Cote. Myndin er kanadísk og tekin upp þar en gerist nánast öll á búlgörsku. Hún fjallar um búlgarskt par sem kynnist á netinu og ákveður að hittast. Konan býður manninum til sín í sveitahús í Quebec í Kanada og þar byrja þau að kela og knúsast. En þau eru ekki lengi í paradís og það kemur í ljós að þau eiga ekki jafn vel saman og þau héldu.


Leikstjórinn var á staðnum og nefndi það fyrir myndina að hún væri í tveimur hlutum og ef okkur líkaði báðir jafn vel yrði hann mjög ánægður. Ég get því miður ekki sagt það. Margt í byrjun myndarinnar var ágætt. Í fyrstu virkuðu leikararnir ekki vel á mig en þau spjöruðu sig samt ágætlega og samband þeirra var trúanlegt. Myndatakan var mjög hreyfð og það, ásamt litayfirbragði myndarinnar gaf ákveðna stuttmynda-stemmingu. Það er þó mjótt á milli listrænna tilburða og tilgerðar og myndatakan var stundum nánast pirrandi. Myndin hefur ábyggilega ekki verið dýr í framleiðslu en það þarf ekki að vera ókostur. Ég efast þó um að meiri fjármunir hefðu bjargað þessari mynd.

Það sem leikstjórinn byggði upp í fyrri hlutanum var ágætt út af fyrir sig en því miður náði hann ekki að fylgja þessu eftir í seinni hluta myndarinnar. Það mætti halda að hann hafi bara gefist upp og ekki nennt þessu lengur. Sú spenna sem leikstjórinn hafði reynt að byggja upp var misheppnuð. Maður fékk það á tilfinninguna að leikstjórinn hefði ekki verið viss um hvers konar mynd hann ætlaði að gera, spennumynd eða eitthvað annað. Kannski ætlaði hann að fara ótroðnar slóðir en það hefur þá mistekist hjá honum.

Mér og félögum mínum fannst við aldrei fá neina niðurstöðu í myndina, öllu heldur fleiri spurningar. Það getur stundum virkað en í þessari virkaði það ekki. Það var ekki heil brú í lokaatriðinu, myndin endaði á dans konunnar við eitthvað verulega dæmigert reiflag. Mjög kjánalegt allt saman og tilgerðin var gjörsamlega vaðandi.

Eftir myndina átti leikstjórinn að svara spurningum. Við nenntum ekki að hlusta á það og gengum út. Frekar slök mynd fannst okkur, kannski lá eitthvað meira undir niðri sem við áttuðum okkur ekki á. Mæli ekkert sérstaklega með þessari.

Wednesday, September 26, 2007

The General

Á miðvikudaginn horfðum við á myndina The General frá árinu 1927 með Buster Keaton í aðalhlutverki og leikstjórasætinu. Hún er þögul og gerist í þrælastríðinu. Fyrirfram vissi ég lítið sem ekkert um þessa mynd. Ég hafði kíkt á imdb og komist að því að hún væri gamanmynd. Mér hafði einhvern veginn ekki dottið það í hug og átti erfitt með að gera mér grein fyrir hvernig hún kæmi út. Hún kom mér hins vegar skemmtilega á óvart. Myndin var í anda Chaplin og slagaði hátt upp í hans klassa. Buster var frábær í aðalhlutverkinu sem þessi klassíski lúði sem endar uppi sem hetja í lokin og bjargar deginum. Myndin gerðist að mjög miklu leyti í eimreiðum á ferð og mér fannst það frekar magnað hversu vel það heppnaðist. Ég bjóst eiginlega við minna frá mynd frá 1927 en það er augljóst að kvikmyndatækninni fleytti fljótt fram á fyrstu áratugum hennar. Svo var eldingareffektinn að sjálfsögðu ógleymanlegur. Fínasta mynd og mjög fyndin á köflum.

Thursday, September 20, 2007

The Simpsons Movie

Nú var að hefjast 19. þáttaröð Simpsons í Bandaríkjunum. Fáir sjónvarpsþættir geta haldið dampi í meira en áratug og Simpsons tekst það ekki. Ég hef séð einn og einn af nýjustu þáttunum og mér fannst þeir afar bragðdaufir. Þeir eru orðnir of útþynntir og kannski einn eða tveir sæmilegir brandarar í hverjum þætti. Ég hef hins vegar horft á flesta, ef ekki alla, þætti í þáttaröðum tvö til fimm og það fer ekkert á milli mála að Simpsons á sínu besta skeiði voru eitt besta sjónvarpsefni sem völ var á. Oft er talað um þáttaraðir tvö til átta sem gullaldarár Simpsons þáttanna.

Ég fór á Simpsons kvikmyndina um daginn. Ég hafði séð mikið af jákvæðum dómum um myndina og ákvað því að sjá hvort að hún tækist að endurvekja gamla töfra. Myndin byrjaði ágætlega og mér fannst hugmyndirnar fínar. Ekkert allt of mikið af góðum brandörum en þó einstaka atriði sem mér þótti fyndin. Eftir hlé breyttist myndin hins vegar í einhvern lélegan farsa og ekkert fyndið að gerast. Minnti mig á köflum á þætti eins og t.d. According to Jim, sem eru beinlínis móðgun við mannlega vitsmuni.

Mér finnst einfaldlega að þeir vandi sig ekki nógu mikið við þetta. Það bætir náttúrlega við að þættirnir hafa verið sýndir núna í tæpa tvo áratugi og það er nánast eins og allir brandarar séu uppurnir. Húmor fólks er samt mismunandi og margir töluðu vel um myndina. Ég geri þó ákveðnar kröfur til gamansefnis og Simpsons þættirnir og kvikmyndin uppfylla ekki þær kröfur. Ég varð því fyrir vonbrigðum með þessa mynd og held mig bara við gullaldarárin.

28 vikum síðar......

Reiði-vírusinn svokallaði er slæmur vírus með kjánalegt nafn. Vírus þessi berst með blóði og munnvatni og þegar þú færð hann ertu ekki með kvef eða hlaupabólu. Nei, þegar þú færð þennan vírus þá breytistu í frekar illan fjanda. Þegar þú ert sýktur er það eina sem dregur þig áfram að komast í einhvern heilbrigðan vesaling og annað hvort spúa blóði yfir hann eða taka þér hann til matar. Og viti menn, þá breytist hann í ógeðslegan uppvakning alveg eins og þú. Þessi óskemmtilegi vírus fer mikinn í myndunum 28 Days Later og 28 Weeks Later, sem er framhald hinnar fyrri.

Í framhaldsmyndinni eru liðnar 28 vikur síðan veiran braust út í Bretlandi og NATO hafa yfirumsjón með enduruppbyggingu Lundúna. Það er talið að veiran sé útdauð en það er þó farið mjög varkárlega að öllu. Nú, hvað gerist þá. Jú, upp kemur tilfelli þar sem veiran lifir enn og hún brýst út aftur. Það er þá sem menn byrja að missa sig.

Mér fannst þessi mynd bara nokkuð góð. Hún var vel gerð og þó að NATO og bandaríski herinn væru þarna í forgrunni tókst þeim ekki að skemma myndina. Hún stóð vel undir nafni sem hryllingsmynd og var gríðarlega spennandi á köflum. Leikararnir stóðu sig ágætlega, þarna voru m.a. tveir unglingar í aðalhlutverkum og þau komust vel frá þessu. Gaman að sjá skoska leikarann úr Trainspotting koma ferskan inn:



Þessi mynd fannst mér þó ekki jafngóð og hin, hún náði ekki þessum einstaka fílingi sem var í hinni. Ástæðan fyrir því er líklega sú að þessi var fyrirsjáanlegri, maður vissi nokkurn veginn hvernig þetta gengi fyrir sig. Hin var líka dýpri, hún kannaði meira mannlegt eðli og hafði meiri pælingar. Þessi minnti meira á aðrar hryllings- og spennumyndir. Niðurstaða mín er því ekki jafngóð og fyrri myndin en þó verðugt framhald.

Monday, September 17, 2007

28 Weeks Later og brjálaður frumkvöðull

Á miðvikudaginn munu ég og sombíklúbburinn horfa á 28 Weeks Later. Þessi mynd hefur fengið fína dóma og sums staðar sagt að þessi sé betri en hin fyrri. Við horfðum á fyrri myndina um árið og vorum mjög hrifin. Þess vegna var ákveðið að þessi yrði leigð sem fyrst. Nú ríkir mikil eftirvænting og spennan liggur hreinlega í loftinu. Ég bara get ekki beðið!

Mjög skemmtilegur þáttur sem við byrjuðum að horfa á í kvikmyndafræðinni í morgun, breskur þáttur um upphaf Hollywood. Fróðlegt að sjá hvernig þetta byrjaði þarna en við erum þó aðeins nýbyrjaðir. Absúrd að sjá einn af frumkvöðlunum í Ameríkunni gera fyrstu bandarísku stórmyndina en hún fjallaði um hvernig riddarar Ku Klux Klan koma suðurríkjunum til bjargar frá svertingjunum eftir Þrælastríðið. Hvítir menn með skósvertu í framan að falsa söguna. Þetta á að hafa orðið til þess að Ku Klux Klan menn hófu aftur ofsóknir sínar á hendur svartra í suðurríkjunum og ýfði upp gömul sár. Sýnir ljóslifandi hversu sterkt áróðurs- og tjáningarform kvikmyndirnar eru.

Veðramót

Ég fór á myndina Veðramót á föstudaginn fyrir um viku síðan. Ég var búinn að lesa viðtal við Guðnýju leikstjóra myndarinnar fyrr um daginn og þar kom m.a. fram að myndin er ekki byggð á Breiðavíkurmálinu. Mér fannst sú hugmynd líka alltaf frekar hæpin þar sem það er aðeins um hálft ár síðan Breiðavíkurmálið var í umræðunni. Það er því tilviljun að myndin komi út eftir að þetta mál hefur verið svona mikið í umræðunni.

Myndin snertir á viðkvæmum málum og kemur að misnotkun barna og slælegu uppeldi af hálfu foreldra. Veðramót fjallar mjög opinskátt um þessi mál, enda mikilvægt að draga þessi mál fram á sjónasviðið og vekja athygli á þeim. Það er margt sem er undarlegt á unglingaheimilinu sem er í brennidepli í myndinni, m.a. það hve lítið stjórnendur hælisins vita í raun um krakkana sem eru þar.

Mér fannst leikarar myndarinnar flestir sýna frábæran leik og það er athyglisvert sé litið á ungan aldur margra þeirra. Að öllu öðru leyti var þetta mjög vel gerð mynd og öll umgjörð frábær. Það eina sem mér fannst vanta upp á var sagan, það hefði kannski þurft örlítið skýrari söguþráð. Myndin hefði mátt einblína betur á einhverjar færri persónur og segja söguna í kringum þær. Eftir á að hugsa eru það þó kannski bara duttlungar í mér.

Að lokum kom mér það mjög á óvart hversu arfafáir voru á myndinni í stóra sal Háskólabíós. Kannski fimmtíu manns, í mesta lagi hundrað. Mér var þó bent á að myndin var sýnd í mörgum bíóum samtímis og að fólk byði gjarnan eftir umfjöllunum um myndir áður en það legði leið sína á þær.

Allt í allt, góð mynd.

Wednesday, September 5, 2007

Að mæla fjöll

Hver á sér ekki þann draum ljúfastan að koma við í Wales og mæla fjöll? Blanda geði við hinn almenna Walesbúa, óverdósa á fiðluþjóðlagatónlist og kynnast lífsháttum upp til fjalla í landi kolanámanna? Hugh Grant hefur uppfyllt þann draum. Það gerði hann í myndinni The Englishman Who Went Up a Hill But Came Down a Mountain en hún bar þessa frábæru auglýsingu:



Söguþráðurinn er í grófum dráttum sá að á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar koma tveir enskir herramenn við í velsku þorpi til að mæla fjall í grennd við þorpið. Skilgreiningin á fjalli á þessum tímum var sú að það þyrfti að mælast minnst 1000 fet. Þorpsbúarnir eru mjög stoltir af þessu fjalli sínu sem þeir kalla fyrsta fjallið í Wales og þegar það mælist 982 fet þá eru þeir ekki par sáttir. Þeir leggjast því í það að hækka fjallið sitt. Þá fer af stað atburðarás sem verður til þess að ensku herramennirnir virðast ekki getað haldið áfram á leið sinni í gegnum Wales. Gæti það verið að þeir neyðist til að mæla hæðina aftur?

Nú er ljóst að fjallamælingar og velskt sveitaþorp ásamt tveimur enskum herramönnum á fyrri hluta tuttugustu aldar hljóma ekkert of spennandi. Þessi söguþráður og þetta frábæra plaggat myndarinnar grípa ekki alla við fyrstu hlustun og sjón. Þrátt fyrir það er þessi mynd ekki öll þar sem hún er séð. Grantinn leikur við hvern sinn fingur og er að sjálfsögðu mættur í sitt eina hlutverk sem lúðalegur en góðhjartaður Breti. Ég hef alltaf haft lúmskt gaman að kallinum. Svo er þarna gaur sem lék í Star Trek:Deep Space Nine á sínum tíma, feiknar góður sem kvennabósi þorpsins. Að sjá hann vekur fram góðar minningar, stórgóðir þættir. Þjóðlagatónlistin veður uppi í gegnum myndina og mér finnst hún passa vel við umhverfi og efni myndarinnar. Myndin heldur vel áfram og manni leiðist aldrei.

Þetta er mynd sem hefur allt sem búast má við af henni: smá drama, dass af rómantík og aðallega gaman. Þegar íslenska stórhríðin bankar á gluggann mæli ég með að þið setjið þessa mynd í tækið og leyfið Grant og velsku þorpsbúunum að ylja ykkur um hjartaræturnar. Þetta er vissulega mynd sem gott er að kýkja á með kærustunni/kærastanum en þó langt á undan þessum dæmigerðu rómantísku myndum. Gleymið draslmyndum frá Hollywood eins og The Break Up og Failure to Launch. Bretarnir klikka ekki.

Monday, August 27, 2007

Astrópía

Þegar mynd er líst sem "ævintýramynd" sér maður fyrir sér gríðarlegan kostnað og mikið af tæknibrellum. Það er jú klassíski Hollywood standardinn. Þegar ég heyrði því fyrst um efni myndarinnar Astrópíu, átti ég erfitt með að ímynda mér útfærsluna. Mér fannst hæpið að íslenskir framleiðendur settu mikla fjármuni í ævintýramynd fyrir þennan smávaxna markað. Það kom svo í ljós að þetta var ekki þessi dæmigerða ævintýramynd og brellur og almennur kostnaður í lágmarki. Þetta var meira í áttina að grínmynd og dæmið gekk bara ágætlega upp hjá aðstandendum myndarinnar.

Mér fannst atburðarás myndarinnar halda manni ágætlega við efnið og atriðin oft hlægileg. Ragnhildur Steinunn er ekki frábær leikkona en þó kom hún vel frá þessari mynd. Aðrir leikarar stóðu sig bara ágætlega. Skiptingar í myndinni á milli hins raunverulega og ímyndaða heims komu vel út og mér fannst það góð hugmynd að tvinna það saman eins og gert var. Þetta er ekki mynd með djúpar pælingar en þó ágætis skemmtun og ég sé ekki eftir 1100 kallinum.