Wednesday, September 5, 2007

Að mæla fjöll

Hver á sér ekki þann draum ljúfastan að koma við í Wales og mæla fjöll? Blanda geði við hinn almenna Walesbúa, óverdósa á fiðluþjóðlagatónlist og kynnast lífsháttum upp til fjalla í landi kolanámanna? Hugh Grant hefur uppfyllt þann draum. Það gerði hann í myndinni The Englishman Who Went Up a Hill But Came Down a Mountain en hún bar þessa frábæru auglýsingu:



Söguþráðurinn er í grófum dráttum sá að á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar koma tveir enskir herramenn við í velsku þorpi til að mæla fjall í grennd við þorpið. Skilgreiningin á fjalli á þessum tímum var sú að það þyrfti að mælast minnst 1000 fet. Þorpsbúarnir eru mjög stoltir af þessu fjalli sínu sem þeir kalla fyrsta fjallið í Wales og þegar það mælist 982 fet þá eru þeir ekki par sáttir. Þeir leggjast því í það að hækka fjallið sitt. Þá fer af stað atburðarás sem verður til þess að ensku herramennirnir virðast ekki getað haldið áfram á leið sinni í gegnum Wales. Gæti það verið að þeir neyðist til að mæla hæðina aftur?

Nú er ljóst að fjallamælingar og velskt sveitaþorp ásamt tveimur enskum herramönnum á fyrri hluta tuttugustu aldar hljóma ekkert of spennandi. Þessi söguþráður og þetta frábæra plaggat myndarinnar grípa ekki alla við fyrstu hlustun og sjón. Þrátt fyrir það er þessi mynd ekki öll þar sem hún er séð. Grantinn leikur við hvern sinn fingur og er að sjálfsögðu mættur í sitt eina hlutverk sem lúðalegur en góðhjartaður Breti. Ég hef alltaf haft lúmskt gaman að kallinum. Svo er þarna gaur sem lék í Star Trek:Deep Space Nine á sínum tíma, feiknar góður sem kvennabósi þorpsins. Að sjá hann vekur fram góðar minningar, stórgóðir þættir. Þjóðlagatónlistin veður uppi í gegnum myndina og mér finnst hún passa vel við umhverfi og efni myndarinnar. Myndin heldur vel áfram og manni leiðist aldrei.

Þetta er mynd sem hefur allt sem búast má við af henni: smá drama, dass af rómantík og aðallega gaman. Þegar íslenska stórhríðin bankar á gluggann mæli ég með að þið setjið þessa mynd í tækið og leyfið Grant og velsku þorpsbúunum að ylja ykkur um hjartaræturnar. Þetta er vissulega mynd sem gott er að kýkja á með kærustunni/kærastanum en þó langt á undan þessum dæmigerðu rómantísku myndum. Gleymið draslmyndum frá Hollywood eins og The Break Up og Failure to Launch. Bretarnir klikka ekki.

No comments: