Ég fór á myndina Veðramót á föstudaginn fyrir um viku síðan. Ég var búinn að lesa viðtal við Guðnýju leikstjóra myndarinnar fyrr um daginn og þar kom m.a. fram að myndin er ekki byggð á Breiðavíkurmálinu. Mér fannst sú hugmynd líka alltaf frekar hæpin þar sem það er aðeins um hálft ár síðan Breiðavíkurmálið var í umræðunni. Það er því tilviljun að myndin komi út eftir að þetta mál hefur verið svona mikið í umræðunni.
Myndin snertir á viðkvæmum málum og kemur að misnotkun barna og slælegu uppeldi af hálfu foreldra. Veðramót fjallar mjög opinskátt um þessi mál, enda mikilvægt að draga þessi mál fram á sjónasviðið og vekja athygli á þeim. Það er margt sem er undarlegt á unglingaheimilinu sem er í brennidepli í myndinni, m.a. það hve lítið stjórnendur hælisins vita í raun um krakkana sem eru þar.
Mér fannst leikarar myndarinnar flestir sýna frábæran leik og það er athyglisvert sé litið á ungan aldur margra þeirra. Að öllu öðru leyti var þetta mjög vel gerð mynd og öll umgjörð frábær. Það eina sem mér fannst vanta upp á var sagan, það hefði kannski þurft örlítið skýrari söguþráð. Myndin hefði mátt einblína betur á einhverjar færri persónur og segja söguna í kringum þær. Eftir á að hugsa eru það þó kannski bara duttlungar í mér.
Að lokum kom mér það mjög á óvart hversu arfafáir voru á myndinni í stóra sal Háskólabíós. Kannski fimmtíu manns, í mesta lagi hundrað. Mér var þó bent á að myndin var sýnd í mörgum bíóum samtímis og að fólk byði gjarnan eftir umfjöllunum um myndir áður en það legði leið sína á þær.
Allt í allt, góð mynd.
Monday, September 17, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment