Thursday, September 20, 2007

28 vikum síðar......

Reiði-vírusinn svokallaði er slæmur vírus með kjánalegt nafn. Vírus þessi berst með blóði og munnvatni og þegar þú færð hann ertu ekki með kvef eða hlaupabólu. Nei, þegar þú færð þennan vírus þá breytistu í frekar illan fjanda. Þegar þú ert sýktur er það eina sem dregur þig áfram að komast í einhvern heilbrigðan vesaling og annað hvort spúa blóði yfir hann eða taka þér hann til matar. Og viti menn, þá breytist hann í ógeðslegan uppvakning alveg eins og þú. Þessi óskemmtilegi vírus fer mikinn í myndunum 28 Days Later og 28 Weeks Later, sem er framhald hinnar fyrri.

Í framhaldsmyndinni eru liðnar 28 vikur síðan veiran braust út í Bretlandi og NATO hafa yfirumsjón með enduruppbyggingu Lundúna. Það er talið að veiran sé útdauð en það er þó farið mjög varkárlega að öllu. Nú, hvað gerist þá. Jú, upp kemur tilfelli þar sem veiran lifir enn og hún brýst út aftur. Það er þá sem menn byrja að missa sig.

Mér fannst þessi mynd bara nokkuð góð. Hún var vel gerð og þó að NATO og bandaríski herinn væru þarna í forgrunni tókst þeim ekki að skemma myndina. Hún stóð vel undir nafni sem hryllingsmynd og var gríðarlega spennandi á köflum. Leikararnir stóðu sig ágætlega, þarna voru m.a. tveir unglingar í aðalhlutverkum og þau komust vel frá þessu. Gaman að sjá skoska leikarann úr Trainspotting koma ferskan inn:



Þessi mynd fannst mér þó ekki jafngóð og hin, hún náði ekki þessum einstaka fílingi sem var í hinni. Ástæðan fyrir því er líklega sú að þessi var fyrirsjáanlegri, maður vissi nokkurn veginn hvernig þetta gengi fyrir sig. Hin var líka dýpri, hún kannaði meira mannlegt eðli og hafði meiri pælingar. Þessi minnti meira á aðrar hryllings- og spennumyndir. Niðurstaða mín er því ekki jafngóð og fyrri myndin en þó verðugt framhald.

No comments: