Nú var að hefjast 19. þáttaröð Simpsons í Bandaríkjunum. Fáir sjónvarpsþættir geta haldið dampi í meira en áratug og Simpsons tekst það ekki. Ég hef séð einn og einn af nýjustu þáttunum og mér fannst þeir afar bragðdaufir. Þeir eru orðnir of útþynntir og kannski einn eða tveir sæmilegir brandarar í hverjum þætti. Ég hef hins vegar horft á flesta, ef ekki alla, þætti í þáttaröðum tvö til fimm og það fer ekkert á milli mála að Simpsons á sínu besta skeiði voru eitt besta sjónvarpsefni sem völ var á. Oft er talað um þáttaraðir tvö til átta sem gullaldarár Simpsons þáttanna.
Ég fór á Simpsons kvikmyndina um daginn. Ég hafði séð mikið af jákvæðum dómum um myndina og ákvað því að sjá hvort að hún tækist að endurvekja gamla töfra. Myndin byrjaði ágætlega og mér fannst hugmyndirnar fínar. Ekkert allt of mikið af góðum brandörum en þó einstaka atriði sem mér þótti fyndin. Eftir hlé breyttist myndin hins vegar í einhvern lélegan farsa og ekkert fyndið að gerast. Minnti mig á köflum á þætti eins og t.d. According to Jim, sem eru beinlínis móðgun við mannlega vitsmuni.
Mér finnst einfaldlega að þeir vandi sig ekki nógu mikið við þetta. Það bætir náttúrlega við að þættirnir hafa verið sýndir núna í tæpa tvo áratugi og það er nánast eins og allir brandarar séu uppurnir. Húmor fólks er samt mismunandi og margir töluðu vel um myndina. Ég geri þó ákveðnar kröfur til gamansefnis og Simpsons þættirnir og kvikmyndin uppfylla ekki þær kröfur. Ég varð því fyrir vonbrigðum með þessa mynd og held mig bara við gullaldarárin.
Thursday, September 20, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment