Thursday, November 29, 2007

Hot Fuzz

Myndin Hot Fuzz er bresk gamanmynd sem kom út fyrr í ár. Þegar ég fór á hana í bíó vissi ég ekki við hverju ég ætti að búast en hún kom mér mjög skemmtilega á óvart.

Myndin fjallar í stuttu máli um skuggalega færan lögreglumann í London sem er fluttur gegn vilja sínum yfir í lítið og rólegt þorp út á landi. Svo fara leyndardómsfull "slys" að gerast út um allt þorp og lögreglumaðurinn er staðráðinn í að komast til botns í málinu.


Löggan er leikin af Simon Pegg en hann lék einnig aðalhlutverkið í Shaun of the Dead sem var fín mynd. Hann er snilldarleikari og stendur sig prýðilega í þessu hlutverki. Nick Frost leikur klaufalegan félaga hann en þeir tveir léku líka saman í Shaun of the Dead. Timothy Dalton leikur einnig stórskemmtilegt hlutverk og fer að sjálfsögðu vel með það. Leikstjórinn er Edgar Wright en hann skrifaði myndina ásamt Simon Pegg. Þeir unnu líka saman í Shaun of the Dead. Þetta er því að miklu leiti sama lið og gerði Shaun of the Dead, sem er alls ekki slæmt.

Myndin er ekki bara mjög fyndin heldur hefur hún að geyma skemmtilegan söguþráð og fínt handrit. Þetta er ein af þessum myndum þar sem allt virðist passa saman og allt gengur upp. Karakterarnir eru margir hverjir frábærir og samtölin mjög vel skrifuð. Í raun það eina sem ég sé að myndinni er að hún gerist örlítið langdregin í endann. Reyndar var ég samt að lesa að leikstjórinn hefði klippt um hálftíma af henni áður en hún var sýnd. Smávegis Peter Jackson-einkenni í gangi þarna.

Nokkrum vikum seinna fór ég á hana aftur í bíó. Hún var svo sannarlega ekki verri í seinna skiptið og ef eitthvað þá fannst mér hún betri. Það voru einhverjir brandarar sem fóru framhjá mér í fyrra skiptið þar sem myndin er yfirfull af húmor. Ég fékk hana svo í afmælisgjöf í gær og horfði á hana í þriðja sinn. Ég efast um að ég þreytist nokkurn tímann á þessari mynd. Hún er bara svo fáránlega skemmtileg.

High Fidelity

Kíkti á þessa í seinustu viku. Myndin fjallar um náunga sem lifir frekar tilbreytingarlausu lífi og á erfitt með að láta ástarsambönd sín endast til lengri tíma. Myndin er gerð eftir bók með sama nafni eftir höfundinn Nick Hornby.

Þetta var fínasta mynd. John Cusack leikur aðalhlutverkið og stendur sig vel. Hin myndin sem ég hef séð með honum er America's Sweethearts sem er léleg mynd. Ég hafði því ekki mikið álit á honum áður en ég kíkti á þessa en hann stóð fyrir sínu kallinn. Jack Black á fínt hlutverk líka, hann er alltaf góður.

Það voru þó nokkur fyndin atriði og karakterarnir mjög skemmtilegir. Myndin nær réttu blöndunni af drama og skemmtilegheitum og heldur manni alla leið. Ég mæli með þessari.

Tuesday, November 27, 2007

Paris, Texas

Ég horfði á myndina "Paris, Texas" frá árinu 1984 um daginn. Hún fjallar um mann að nafni Travis sem að hefur verið týndur í fjögur ár en finnst loks í miðri eyðimörkinni í Texas. Bróður hans tekur hann að sér og maðurinn reynir að púsla saman lífi sínu aftur.

Ég horfði á þessa mynd aðallega af því að söguþráðurinn hljómaði ágætlega. Hins vegar nefndi skoska hljómsveitin Travis sig eftir aðalpersónunni og ég hefði líklega aldrei séð myndina ef Travis væri ekki uppáhaldshljómsveit Unnsu.

Eins og ég sagði fannst mér söguþráðurinn hljóma ágætlega. Og myndin byrjaði líka vel. Hún hélt manni ágætlega við efnið og það var spennandi að vita hvaða fortíð þessi maður hafði átt. Hins vegar varð hún hægari eftir því sem leið á hana. Myndin varð aðeins of listræn fyrir minn smekk og tilgerðarleg undir lokin.

Þessi mynd hefði mátt vera styttri og hnitmiðari og þá hefði hún kannski hitt í mark. Hún missti hins vegar marks hjá mér vegna lengdar og langdregni.

Thursday, November 22, 2007

Draumar Kurosawa

Draumar Kurosawa er mynd sem ég sá í æsku, líkt og Blues Brothers sem ég bloggaði um í seinustu viku. Þessi mynd, sem er eftir Kurosawa, er byggð á draumum sem hann hafði í gegnum ævina.

Það er ekki mikið um samtöl í þessari mynd heldur byggist hún aðallega á myndatöku og atriðum. Henni er skipt niður í átta kafla sem fást hver við sinn draum.

Þessi mynd er ansi mögnuð. Það er erfitt að lýsa henni en uppbyggingin tekst fullkomlega og allir draumarnir njóta sín vel. Oft eru einhverjar pælingar á bak við draumana og atriðin, til dæmis snertir Kurosawa á kjarnorkuslysum og dauðanum.

Kurosawa er auðvitað einn af þeim allra bestu og þó að kallinn sé áttræður þegar hann gerir þessa kann hann þetta enn. Þetta er ein af eftirminnilegri myndum sem ég hef séð.

Failure to Launch

Hversu slæm getur ein mynd verið?

Þetta er stór spurning sem framleiðendur myndarinnar Failure to Launch ákváðu að tækla af fullum krafti. Og þeirra svar við spurningunni var nokkuð gott. Eða lélegt, öllu heldur.

Eina ástæðan fyrir því að ég sá þessa mynd var að mér áskotnaðist boðsmiði á hana. Ég vissi svo sem ekkert um hana en ég get ekki sagt að ég hafi búist við miklu.

Flest við þessa mynd hefur sést þúsund sinnum áður í kvikmyndum og, það sem verra var, þá var það allt skelfilega lélegt. Handritið var lélegt og myndin nánast samhengislaus. Leikararnir stóðu sig illa, það var nákvæmlega ekkert að gerast á milli Matthew McConaughey og Sarah Jessica Parker. Í raun var meginhugmyndin á bak við kvikmyndina slæm. Ég nenni ekki einu sinni að fara út í þann pakka.

Ég man ekki hvort að eitthvað gott hafi verið við þessa mynd. Mig rámar í að ég hafi hlegið í kannski einu atriði en ég er ekki viss. Meira að segja plaggatið var hörmulegt:


Þegar ég sé svona kvikmyndir, hugsa ég til þeirra fjármuna sem fara í svona rusl á hverju ári. Þeir eru gríðarlegir og þeim er gríðarlega illa eytt, gæti maður sagt. Á móti kemur hins vegar að þetta er ákveðinn iðnaður og þúsundir fólks vinnur við þetta og hefur lífsafkomu af. En af hverju þá að gera svona margar myndir skelfilega ómerkilegar?

Wednesday, November 21, 2007

Blues Brothers

Ég sá fyrst Blues Brothers þegar ég var svona sjö-átta ára og hún hefur fylgt mér síðan. Sverrir og Snabbi sýndu mér hana og ég varð strax hrifinn af henni. Mig minnir að það hafi verið Aron Ingi sem kallaði hana söngvamynd en mér finnst það skelfilegur stimpill til að setja á hana. Það er líka bara snilld þegar Ray Charles tekur í hljómborðið og allir dansa saman útá götu.

Auðvitað er þetta hrein gamanmynd, enda eru ófá skemmtileg atriði í myndinni. Belushi fer auðvitað á kostum og Dan Akroyd virkar vel sem þögla týpan. Talandi um hann, þá er sjokkerandi að sjá kallinn fitna á milli mynda. Strax í Ghostbusters var hann orðinn búttaður og það er eins og maðurinn hafi bara misst sig í bakkelsi og hamborgurum eftir að hann meikaði það.

En talandi ekki um Dan Akroyd, þá er húmorinn í þessari mynd frábær. Hann er vel svartur á köflum og til að mynda frábært atriðið á veitingastaðnum þar sem Belushi býður í dóttur mannsins á næsta borði. Atriðið með löggubílinn í byrjun myndarinnar er líka frábært.

Þessi mynd er kannski ekki leikrænt meistaraverk og ég hef í raun ekki hugmynd um hver leikstýrði henni. Það eina sem skiptir máli er að Blues Brothers er skemmtileg og fyndin mynd sem allir verða að sjá. Algjör klassík.


Ábending: Ekki horfa á Blues Brothers 2000, hún er drasl.

Monday, November 19, 2007

Some Like It Hot

Við kíktum á þessa í seinustu viku. Leikstjórinn er Billy Wilder og leikararnir m.a. frú Monroe og Jack Lemmon. Ég hef ekki séð mynd eftir Wilder áður og var bara nokkuð hrifinn af þessari.

Myndin fjallar um tvo tónlistarmenn sem klæða sig upp sem kvenmenn og ganga í kvennahljómsveit til að flýja undan mafíunni. Eins og mætti halda hendir þá félaga ýmislegt skemmtilegt og er myndin farsakennd á köflum.

Jack Lemmon leikur við hvern sinn fingur í þessari og Monroe kemur skemmtilega á óvart. Ég hafði aldrei séð hana leika áður og tengt hana þá frekar við einhvern glamúr lífsstíl eða eitthvað. Ég hef í rauninni aldrei vitað neitt óskaplega mikið um kellu. En þarna stóð hún sig allavegana vel. Félagi Lemmon, Tony Curtis, er líka góður en er þó í minna fyndnara hlutverki en Jack. Flestir myndu þó segja að Curtis væri heppnari í myndinni en það kemur í ljós þegar horft er á myndina.

Þetta er fyrst og fremst skemmtileg mynd og hún heldur manni við efnið allan tímann. Einhver nefndi myndina White Chicks í sambandi við þessa en það er auðvitað gróft ofmat á þeirri mynd. Þó ég hafi ekki séð þá ræmu, get ég fullyrt að hún á ekki skilið að vera nefnd í sömu setningu og þessi. Í heildina var ég vel sáttur með þessa.

Empire Strikes Back

Ég og Unnur tókum létt maraþon um daginn og horfðum á fyrstu stjörnustríðsmyndirnar. Þessar myndir hafa vissulega fengið afar mikinn nördastimpil á sig en ég held að mörgum finnist þær þó algjör klassík. Þegar kemur að þessum myndum verður bara að líta framhjá svoleiðis stimplum. Þær eru bara svo helvíti skemmtilegar og vel gerðar.

Ég er á því að önnur myndin sé best. Ástæðan fyrir því er að í fyrstu myndinni gerist ekki mikið, þar er verið að kynna svo marga til leiks og þrátt fyrir að þriðja sé ansi góð þá er eitthvað meira djúsí við aðra myndina. Þar ríkir meira vonleysi og svo kemur þar Lando Calrissian fyrst fram en Billy Dee Williams er afar svalur í því hlutverki.

En já, það er margt í þessari mynd sem er afar vel gert. Tæknibrellurnar voru náttúrlega svakalegar á sínum tíma og þó þær séu kannski afar fornfálegar samkvæmt núgildandi stöðlum þá trufluðu þær mig lítið. Það er til dæmis eitthvað svo heimilislegt við brúðurnar og mér fannst þeir hefðu mátt sleppa mörgu af því sem þeir bættu við í afmælisútgáfunni. Þar bættu Lucas og félagar til dæmis við slatta af tölvugerðum fígúrum en mér fannst aðeins of mikið af því. Við náum því til dæmis alveg ef Geimgengill og félagar eru staddir á bar, það er alveg óþarfi að bæta inn tölvugerðu tónlistaratriði þar sem einhver geimvera dansar tangó. Eftir á að hyggja er það atriði verðugt þess að spóla yfir, reyndar var það í þriðju eða fyrstu myndinni held ég.

Allavegana. Leikararnir standa sig ágætlega, Harrison Ford er afar töff en Mark Hamill sem Logi Geimgengill getur verið heldur mikill vælukjói á köflum. Það er að vísu að miklu leyti persónan sjálf, kannski ekki beint Hamill að kenna. Hverju öðru lék hann annars í? Er þetta kannski sama og með Elijah Wood, sem verður kannski alltaf þekktur sem Fróði? Við nánari aðgrennslan virðist sem Hamill hafi bara dottið í gott chill eftir seinustu Stjörnustríðsmyndina. Hann hefur líklega vaðið í peningum, sé miðað við gríðarlega velgengni þessara mynda.

Mörg atriði í myndinni eru flott. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt bardagaatriðið í snjónum í byrjun myndarinnar og bardaginn milli Svarthöfða og Loga er einnig góður. Þessi mynd er líka laus við einhver væmin siguratriði eins og var í lok A New Hope og Episode 1.

Þema Stjörnustríðsmyndanna er barátta góðs og ills. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést en þó svínvirkar þetta hjá Lucas og félögum. Sagan er nægilega góð, persónurnar eftirminnilegar og myndirnar vel gerðar. Þetta kristallast í Empire Strikes Back, sem er allt í allt frábær mynd og tímalaus klassík.



-Svo kemur reyndar í ljós að þetta er allt saman tekið úr myndum eftir Kurosawa. Maður hefði svo sem getað sagt sér það sjálfur.

Tuesday, November 6, 2007

Sjöunda innsiglið

Myndin Sjöunda Innsiglið eftir Ingmar Bergman kom út árið 1957 og er oftast talin besta mynd hans. Hún fjallar um riddara sem kemur úr krossferð heim til Svíþjóðar þar sem svarti dauði fer yfir og stráfellir fólk. Dauðinn sjálfur kemur að sækja hann en þá skorar riddarinn á hann í skák upp á líf sitt eða dauða. Í gegnum myndina fylgjumst við með baráttu þeirra, vangaveltum riddarans um tilvist guðs og fáum nasasjón af vitfirringunni sem getur gripið fólk á tímum mikilla erfiðleika.

Ég, Drési og Miller horfðum á þessa út af fyrirlestrinum okkar um Bergman. Pabbi var búinn að minnast á þessa mynd við mig áður og auðvitað hlustar maður á gamla manninn. Ég hafði því töluverðar væntingar fyrir henni og hún brást mér ekki.

Þessi mynd hefur allt það sem eftirminnileg og einstök mynd þarf að hafa. Samtölin eru vönduð og flott og atriðin sjónræn og vel uppbyggð. Persónur myndarinnar eru fjölbreytilegar og sumar oft á tíðum mjög fyndnar. Leikararnir stóðu sig mjög vel, með Max von Sydow fremstan í flokki í hlutverki riddarans. Þrátt fyrir að viðfangsefni myndarinnar sé að miklum hluta alvarleiki dauðans blandar Bergman léttari atvikum inn í söguþráðinn sem gera það að verkum að myndin heldur manni allt frá byrjun til enda.

Það sést á þessari mynd af hverju Ingmar Bergman er einn merkasti leikstjóri sögunnar. Það samsvarar sér allt svo vel í þessari mynd og allt virðist ganga upp. Allt í allt, frábær mynd sem enginn má láta framhjá sér fara. Sjáið þessa!

Thursday, November 1, 2007

La Regle du jeu (Reglur leiksins)

Á mánudaginn horfðum við á frönsku myndina La Regle du jeu frá árinu 1939. Myndin er eftir leikstjórann Jean Renoir og segir frá lífi og samskiptum fólks í Frakklandi rétt fyrir seinni heimsstyrjöld.

Mér fannst áhugavert að sjá hve samfélagið var ólíkt því sem maður sjálfur er vanur. Þarna var hástéttin mætt á sveitasetrið á kanínuveiðum og þjónustufólkið þeirra að sjálfsögðu slúðrandi um herrana. Til dæmis var gaman að sjá hversu auðveldlega sumir héldu fram hjá maka sínum, hvort sem það var þjónustustúlkan eða snobbaði auðmaðurinn. Renoir gerir óspart grín á kostnað hástéttarinnar og tókst oft vel.

Að öðru leyti greip myndin mig ekkert sérstaklega. Persónurnar sem voru hvað ýktastar fóru stundum í taugarnar á mér. Mér fannst kvikmyndin ganga frekar hægt líka og eytt í samtöl sem vöktu engan áhuga hjá mér.

Þessi mynd var efst á lista yfir bestu "útlensku" myndir allra tíma sem að Siggi benti okkur á um daginn. Satt að segja veit ég ekki hvort hún á skilið að vera þar. Það gæti þó verið að seinna muni maður kunna að meta hana betur.