Tuesday, November 6, 2007

Sjöunda innsiglið

Myndin Sjöunda Innsiglið eftir Ingmar Bergman kom út árið 1957 og er oftast talin besta mynd hans. Hún fjallar um riddara sem kemur úr krossferð heim til Svíþjóðar þar sem svarti dauði fer yfir og stráfellir fólk. Dauðinn sjálfur kemur að sækja hann en þá skorar riddarinn á hann í skák upp á líf sitt eða dauða. Í gegnum myndina fylgjumst við með baráttu þeirra, vangaveltum riddarans um tilvist guðs og fáum nasasjón af vitfirringunni sem getur gripið fólk á tímum mikilla erfiðleika.

Ég, Drési og Miller horfðum á þessa út af fyrirlestrinum okkar um Bergman. Pabbi var búinn að minnast á þessa mynd við mig áður og auðvitað hlustar maður á gamla manninn. Ég hafði því töluverðar væntingar fyrir henni og hún brást mér ekki.

Þessi mynd hefur allt það sem eftirminnileg og einstök mynd þarf að hafa. Samtölin eru vönduð og flott og atriðin sjónræn og vel uppbyggð. Persónur myndarinnar eru fjölbreytilegar og sumar oft á tíðum mjög fyndnar. Leikararnir stóðu sig mjög vel, með Max von Sydow fremstan í flokki í hlutverki riddarans. Þrátt fyrir að viðfangsefni myndarinnar sé að miklum hluta alvarleiki dauðans blandar Bergman léttari atvikum inn í söguþráðinn sem gera það að verkum að myndin heldur manni allt frá byrjun til enda.

Það sést á þessari mynd af hverju Ingmar Bergman er einn merkasti leikstjóri sögunnar. Það samsvarar sér allt svo vel í þessari mynd og allt virðist ganga upp. Allt í allt, frábær mynd sem enginn má láta framhjá sér fara. Sjáið þessa!

No comments: