Við kíktum á þessa í seinustu viku. Leikstjórinn er Billy Wilder og leikararnir m.a. frú Monroe og Jack Lemmon. Ég hef ekki séð mynd eftir Wilder áður og var bara nokkuð hrifinn af þessari.
Myndin fjallar um tvo tónlistarmenn sem klæða sig upp sem kvenmenn og ganga í kvennahljómsveit til að flýja undan mafíunni. Eins og mætti halda hendir þá félaga ýmislegt skemmtilegt og er myndin farsakennd á köflum.
Jack Lemmon leikur við hvern sinn fingur í þessari og Monroe kemur skemmtilega á óvart. Ég hafði aldrei séð hana leika áður og tengt hana þá frekar við einhvern glamúr lífsstíl eða eitthvað. Ég hef í rauninni aldrei vitað neitt óskaplega mikið um kellu. En þarna stóð hún sig allavegana vel. Félagi Lemmon, Tony Curtis, er líka góður en er þó í minna fyndnara hlutverki en Jack. Flestir myndu þó segja að Curtis væri heppnari í myndinni en það kemur í ljós þegar horft er á myndina.
Þetta er fyrst og fremst skemmtileg mynd og hún heldur manni við efnið allan tímann. Einhver nefndi myndina White Chicks í sambandi við þessa en það er auðvitað gróft ofmat á þeirri mynd. Þó ég hafi ekki séð þá ræmu, get ég fullyrt að hún á ekki skilið að vera nefnd í sömu setningu og þessi. Í heildina var ég vel sáttur með þessa.
Monday, November 19, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment