Thursday, November 29, 2007

Hot Fuzz

Myndin Hot Fuzz er bresk gamanmynd sem kom út fyrr í ár. Þegar ég fór á hana í bíó vissi ég ekki við hverju ég ætti að búast en hún kom mér mjög skemmtilega á óvart.

Myndin fjallar í stuttu máli um skuggalega færan lögreglumann í London sem er fluttur gegn vilja sínum yfir í lítið og rólegt þorp út á landi. Svo fara leyndardómsfull "slys" að gerast út um allt þorp og lögreglumaðurinn er staðráðinn í að komast til botns í málinu.


Löggan er leikin af Simon Pegg en hann lék einnig aðalhlutverkið í Shaun of the Dead sem var fín mynd. Hann er snilldarleikari og stendur sig prýðilega í þessu hlutverki. Nick Frost leikur klaufalegan félaga hann en þeir tveir léku líka saman í Shaun of the Dead. Timothy Dalton leikur einnig stórskemmtilegt hlutverk og fer að sjálfsögðu vel með það. Leikstjórinn er Edgar Wright en hann skrifaði myndina ásamt Simon Pegg. Þeir unnu líka saman í Shaun of the Dead. Þetta er því að miklu leiti sama lið og gerði Shaun of the Dead, sem er alls ekki slæmt.

Myndin er ekki bara mjög fyndin heldur hefur hún að geyma skemmtilegan söguþráð og fínt handrit. Þetta er ein af þessum myndum þar sem allt virðist passa saman og allt gengur upp. Karakterarnir eru margir hverjir frábærir og samtölin mjög vel skrifuð. Í raun það eina sem ég sé að myndinni er að hún gerist örlítið langdregin í endann. Reyndar var ég samt að lesa að leikstjórinn hefði klippt um hálftíma af henni áður en hún var sýnd. Smávegis Peter Jackson-einkenni í gangi þarna.

Nokkrum vikum seinna fór ég á hana aftur í bíó. Hún var svo sannarlega ekki verri í seinna skiptið og ef eitthvað þá fannst mér hún betri. Það voru einhverjir brandarar sem fóru framhjá mér í fyrra skiptið þar sem myndin er yfirfull af húmor. Ég fékk hana svo í afmælisgjöf í gær og horfði á hana í þriðja sinn. Ég efast um að ég þreytist nokkurn tímann á þessari mynd. Hún er bara svo fáránlega skemmtileg.

No comments: