Wednesday, November 21, 2007

Blues Brothers

Ég sá fyrst Blues Brothers þegar ég var svona sjö-átta ára og hún hefur fylgt mér síðan. Sverrir og Snabbi sýndu mér hana og ég varð strax hrifinn af henni. Mig minnir að það hafi verið Aron Ingi sem kallaði hana söngvamynd en mér finnst það skelfilegur stimpill til að setja á hana. Það er líka bara snilld þegar Ray Charles tekur í hljómborðið og allir dansa saman útá götu.

Auðvitað er þetta hrein gamanmynd, enda eru ófá skemmtileg atriði í myndinni. Belushi fer auðvitað á kostum og Dan Akroyd virkar vel sem þögla týpan. Talandi um hann, þá er sjokkerandi að sjá kallinn fitna á milli mynda. Strax í Ghostbusters var hann orðinn búttaður og það er eins og maðurinn hafi bara misst sig í bakkelsi og hamborgurum eftir að hann meikaði það.

En talandi ekki um Dan Akroyd, þá er húmorinn í þessari mynd frábær. Hann er vel svartur á köflum og til að mynda frábært atriðið á veitingastaðnum þar sem Belushi býður í dóttur mannsins á næsta borði. Atriðið með löggubílinn í byrjun myndarinnar er líka frábært.

Þessi mynd er kannski ekki leikrænt meistaraverk og ég hef í raun ekki hugmynd um hver leikstýrði henni. Það eina sem skiptir máli er að Blues Brothers er skemmtileg og fyndin mynd sem allir verða að sjá. Algjör klassík.


Ábending: Ekki horfa á Blues Brothers 2000, hún er drasl.

No comments: