Monday, January 7, 2008

Charlie's Angels: Full Throttle

Þegar ég var að læra undir eðlisfræðipróf um daginn var þessi mynd í sjónvarpinu. Einhverja hluta vegna var kveikt á sjónvarpinu og ég varð vitni að þessu.

Svona rétt til að byrja með, hvernig ætlast leikstjóri sem kallar sig "McG" til þess að einhver taki sig alvarlega? Og hvaða aula datt í hug að láta þennan mann leikstýra einu né nokkru? Það er erfitt að láta sér detta í hug aðra ástæðu en þá að hann sé annað hvort sonur framleiðanda myndarinnar eða þá elskhugi hans. Auk þess minnir hann mig í útliti helst á fáránlega emó gaurinn í Linkin Park. Ég myndi ekki kalla það hrós:


Myndin gekk í raun og veru út á það að láta aðalleikonurnar klæðast sem efnisminnstum fötum og fela þannig slæm gæði myndarinnar. Þetta gerir myndina skelfilega lágkúrulega og grefur undan bæði myndinni sjálfri og leikurum myndarinnar.

Framleiðendur myndarinnar hafa reyndar séð að bikíní-trikkið myndi líklega ekki duga og ákváðu því að reyna að skella inn einhvers konar "tæknibrellum" í myndina. Þessar "frábæru" brellur eru í raun slow motion atriði sem ganga út á það að láta aðalleikkonurnar koma sér úr erfiðum aðstæðum með því að vinna gegn öllum helstu lögmálum eðlisfræðinnar. Þessi atriði eru ótrúlega kjánaleg og afar þreytandi að horfa á. Stundum virðast þær reyna að apa eftir Matrix-brellunum en það er löngu orðið þreytt og að auki illa gert í þessari mynd.

Þá er röðin komin að leikhóp myndarinnar. John Cleese virðist algjörlega búnað selja út en hann á lítið hlutverk í þessari mynd. Þetta er grátlegt hlutverk fyrir mann með hans bakgrunn, alveg ótrúlega þunnt og lélegt. Cameron Dias, Drew Barrymore og Lucy Liu "leika" Englana hans Charlies og eru auðvitað slæmar. Þær framkvæma þó leiksigur samanborið við Demi Moore en hún leikur einhvers konar illmenni í myndinni og er herfileg.

Ekki er þó víst að þetta sé allt saman við leikarana að sakast eða hvort að handritinu sé um að kenna. Allar persónur myndarinnar eru næfurþunnar og típískar að flestu leiti. Myndin er að miklu leiti samhengislaus og endar á einhvern leiðinlegan og dæmigerðan hátt sem mér hefur lukkulega tekist að gleyma.

Ástæðan fyrir því að ég fylgdist með þessari mynd eftir að hafa séð nokkrar mínútur af henni var til þess að athuga hversu slæm hún gæti orðið. Niðurstaðan er að þessi mynd er rusl sem ætti að banna. Framleiðendur þessarar myndar ættu að skammast sín.