Monday, October 1, 2007

Einkalíf okkar

Í gærkvöldi sá ég myndina Our Private Lives eftir kanadíska leikstjórann Denis Cote. Myndin er kanadísk og tekin upp þar en gerist nánast öll á búlgörsku. Hún fjallar um búlgarskt par sem kynnist á netinu og ákveður að hittast. Konan býður manninum til sín í sveitahús í Quebec í Kanada og þar byrja þau að kela og knúsast. En þau eru ekki lengi í paradís og það kemur í ljós að þau eiga ekki jafn vel saman og þau héldu.


Leikstjórinn var á staðnum og nefndi það fyrir myndina að hún væri í tveimur hlutum og ef okkur líkaði báðir jafn vel yrði hann mjög ánægður. Ég get því miður ekki sagt það. Margt í byrjun myndarinnar var ágætt. Í fyrstu virkuðu leikararnir ekki vel á mig en þau spjöruðu sig samt ágætlega og samband þeirra var trúanlegt. Myndatakan var mjög hreyfð og það, ásamt litayfirbragði myndarinnar gaf ákveðna stuttmynda-stemmingu. Það er þó mjótt á milli listrænna tilburða og tilgerðar og myndatakan var stundum nánast pirrandi. Myndin hefur ábyggilega ekki verið dýr í framleiðslu en það þarf ekki að vera ókostur. Ég efast þó um að meiri fjármunir hefðu bjargað þessari mynd.

Það sem leikstjórinn byggði upp í fyrri hlutanum var ágætt út af fyrir sig en því miður náði hann ekki að fylgja þessu eftir í seinni hluta myndarinnar. Það mætti halda að hann hafi bara gefist upp og ekki nennt þessu lengur. Sú spenna sem leikstjórinn hafði reynt að byggja upp var misheppnuð. Maður fékk það á tilfinninguna að leikstjórinn hefði ekki verið viss um hvers konar mynd hann ætlaði að gera, spennumynd eða eitthvað annað. Kannski ætlaði hann að fara ótroðnar slóðir en það hefur þá mistekist hjá honum.

Mér og félögum mínum fannst við aldrei fá neina niðurstöðu í myndina, öllu heldur fleiri spurningar. Það getur stundum virkað en í þessari virkaði það ekki. Það var ekki heil brú í lokaatriðinu, myndin endaði á dans konunnar við eitthvað verulega dæmigert reiflag. Mjög kjánalegt allt saman og tilgerðin var gjörsamlega vaðandi.

Eftir myndina átti leikstjórinn að svara spurningum. Við nenntum ekki að hlusta á það og gengum út. Frekar slök mynd fannst okkur, kannski lá eitthvað meira undir niðri sem við áttuðum okkur ekki á. Mæli ekkert sérstaklega með þessari.

No comments: