Monday, October 8, 2007
Maður án fortíðar
Í gær sá ég myndina Maður án fortíðar eftir finnska leikstjórann Aki Kaurismaki. Hún fjallar um mann sem kemur einn síns liðs til Helsinki með ferðatösku og sofnar á bekk í almenningsgarði sína fyrstu nótt. Um nóttina kemur gengi pönkara og ber hann til óbóta og stelur peningum hans. Þegar hann vaknar á spítala hefur hann tapað minninu og veit ekkert um bakgrunn sinn, ekki einu sinni nafn sitt. Hann þarf því að hefja nýtt líf á götum Helsinki, allslaus og minnislaus.
Eftir því sem ég kynntist aðalpersónu myndarinnar betur varð ég hrifnari af henni. Í hinum ýmsu atvikum sem maðurinn lendir í reynist hann alltaf úrræðagóður og tekur öllu með mikilli ró. Hann tapar aldrei kúlinu þrátt fyrir hrikalegar aðstæður sínar. Aðalleikarinn sýndi frábæran leik og hann minnti mig stundum á töffarann Morrissey, söngvara The Smiths:
Eitt af því sem gerði þessa mynd svo góða, voru samtölin í myndinni og undirliggjandi húmorinn í gegnum alla myndina. Samtöl persónanna voru fá og stuttaraleg en tókst þó að koma öllu fram sem fram átti að koma. Þau voru öll mjög "blátt áfram" og um leið kómísk. Í gegnum myndina lágu atvik og smáatriði sem kitluðu hláturtaugarnar. Einnig dúkkuðu upp nokkur söngatriði í myndinni. Það er auðvelt að gera slík atriði leiðigjörn en í myndinni voru þau einkar vel gerð og alls ekki leiðinleg.
Yfirbragur myndarinnar var frábær. Myndatakan var stundum afar retró, sem gaf myndinni skemmtilegan stíl. Það var líka mjög "hlý" litasamsetning í myndinni, rauði liturinn áberandi, öfugt við kalda litasamsetninguna sem er gjarnan í norrænum myndum og þá sérstaklega íslenskum. Manni fannst nánast eins og myndin væri staðsett á sjöunda áratugnum í borg í suðurríkjum Bandaríkjanna. Það hljómar ef til vill fáránlega en passaði mjög vel við fátækleikann sem einkenndi líf aðalpersónunnar.
Ég get ekki talið upp galla við þessa mynd. Mér fannst hún bæði vel leikin og skrifuð, ásamt því að vera einlæg og skemmtileg. Það eru eflaust einhverjir sem telja þetta ofmat en eins og alltaf eru skoðanir fólks ólíkar. Þessi mynd er nálægt því að rata á topp tíu hjá mér og ég mæli eindregið með henni.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment