Wednesday, December 5, 2007

Charlie and the Chocolate Factory

Unnur var nokkuð oft búin að nefna við mig að ég þyrfti að sjá þessa mynd. Nánast í hvert skipti sem farið var út á leigu talaði hún um hana. En aldrei var ég algjörlega sammála þessari hugmynd. Mér leist samt ágætlega á hana og vanalega er ég ekki svona vandlátur á myndir. Ég virðist bara ekki hafa verið stilltur inn á þessa mynd. Fyrr en núna um daginn. Ég lét loks til leiðast að sjá hana og get ekki sagt að ég sjái eftir því.

Myndin er leikstýrð af Tim Burton, sem er frábær leikstjóri. Hann hefur sinn eigin skemmtilega stíl og tekst alltaf að vera frumlegur. Það að þessi maður skuli vera leikstjórinn ætti að vera nóg til að fá hvern sem er til að sjá þessa mynd. Ég hef séð nokkrar myndir eftir hann og t.d. fannst mér Big Fish frábær og Sleepy Hollow líka góð.

Myndin er byggð á þekktri bók eftir Roald Dahl. Hún fjallar um mann sem að á stærstu og flottustu súkkulaðiverksmiðju heims. Hann gerist eitthvað súr út í heiminn og hittir ekki nokkurn mann í nokkur ár, þangað til hann leyfir nokkrum heppnum krökkum að heimsækja sig í verksmiðjuna.


Barnabók eða ekki, þá er þetta stórskemmtileg saga. Auðvitað er Johnny Depp mættur á svæðið en hann og Burton hafa oft unnið áður saman. Depp stendur sig auðvitað mjög vel eins og hann gerir oftast. Hann leikur mjög litríkan karakter og virðist fæddur í það. Strákurinn sem leikur hitt aðalhlutverkið er líka góður og flestir leikarar aðrir standa sig vel.

Stór hluti þessarar myndar er umhverfið og hvernig það er útfært. Auðvitað er Burton rétti maðurinn í að kvikmynda þessa bók, því oft er umhverfið fáránlega súrrealískt. Ég ímynda mér að mikil tölvuvinnsla hafi farið í þessa mynd og hún er líka vel gerð.

Almennt séð er þetta fínasta mynd. Ég lét hana fara fram hjá mér allt of lengi. Ekki gera sömu mistök og ég.

No comments: