Wednesday, December 5, 2007

Topp tíu listi frh. + staðan eins og hún er núna

Jæja, þá er ég búinn að henda inn einni færslu af þessum níu síðustu. Það mætti halda að ég hafi hent henni inn í gær en í raun skrifaði ég bara rétt svo byrjunina í gær. Þannig að ég hef ekki staðið mig neitt sérstaklega vel hingað til en þó er nægur tími til að bæta það upp. Eins og til dæmis með annarri færslu:

Í fyrstu ætlaði ég aldrei að gera neina sérstaka færslu um topp tíu listann hérna á síðunni. Ég bloggaði þó um Blues Brothers um daginn og í gær ákvað ég svo að taka sérstaka færslu um þennan ágæta lista. Í fyrstu átti sú færsla einungis að vera ein en í ljósi þess að mig vantar átta færslur upp á kvótann hef ég tekið þá dramatísku ákvörðun að skipta færslunum upp og tek ég þá eina eða tvær myndir í hverri færslu. En nú ætla ég að hætta þessu kjaftæði og skrifa smávegis um næstu mynd á listanum, sem er Citizen Kane. Hérna kemur það:

Citizen Kane

Ég sá Citizen Kane fyrst ungur að árum, eða einungis átta-níu ára. Ég hafði heyrt bræður mína og pabba fara fögrum orðum um hana áður og skellti henni sjálfur í tækið einn góðan veðurdag. Ég var vissulega ekki búinn að þróa með mér mikinn kvikmyndaskilning og ég hafði í raun aldrei séð svona mynd áður. Bæði voru efnistökin allt önnur en ég átti að venjast og allur bragur á myndinni sjálfri líka. Það var samt eitthvað sem ég sá við myndina og auðvitað er söguþráðurinn og endirinn á myndinni góður, án þess þó að maður skilji hversu mikilvæg myndin sjálf er. Það er eitthvað einstakt við virkilega góðar myndir sem getur verið erfitt að grípa nákvæmlega hvað er. Líklega tengist það hvernig sagan er sögð og skemmtanagildis myndarinnar í heild. Citizen Kane hefur að geyma þetta eitthvað og hún snerti mig strax þrátt fyrir minn ungan aldur. Síðan þá hef ég séð myndina aftur nokkrum sinnum og alltaf haft gaman af.

Þessi mynd er ein af þungavigtarverkum kvikmyndasögunnar eins og allir vita. Þetta var fyrsta kvikmynd Orson Welles í fullri lengd og er af mörgum talin ein besta mynd sögunnar. Ég þarf nú ekki að fara mörgum orðum um efni myndarinnar. Hún fjallar um fjölmiðlamógul og auðjöfur að nafni Kane og blaðamann sem rannsakar dánarorð hans.


Sagan er afar skemmtilega sögð en hún er að mestu sögð í gegnum endurlit og fáum við að vita meira og meira um Kane eftir því sem rannsókn blaðamannsins heldur áfram. Í myndinni notar Welles ýmis stílbrögð, meðal annars djúpan fókus, skot frá lágu sjónarhorni og margt annað. Welles stendur sig svo frábærlega í hlutverki auðjöfursins.

Það er oft talað um mikilvægi þessarar myndar í bandarískri kvikmyndagerð þar sem hún sameinaði marga þætti kvikmyndagerðar í eina mynd og gerði það á afar frumlegan og vandaðan hátt. Ég hef samt aldrei pælt neitt sérstaklega í því þegar ég hef horft á Citizen Kane og mér finnst hún njóta sér prýðilega án þess að maður sé að pæla sérstaklega í mikilvægi hennar. Það er hins vegar gaman að sjá hversu mikilvæg hún var og það er vissulega stór hluti ástæðunnar að kvikmyndaunnendur hafa hrifist af þessari mynd. Það er fyrst núna sem ég er að átta mig á því og auðvitað er það kvikmyndagerðarkúrsinn sem hefur opnað augu manns fyrir ýmsu.

En til að slútta þessu:
Þetta er góð mynd. Punktur.

No comments: