Ég missti af því þegar Siggi sýndi þessa í seinustu viku. Ég kíkti á hana í gær og hef því séð þrjár myndir hingað til með Kurosawa: þessa, Sjö samúræja og Drauma Kurosawa.
Eins og í Sjö Samúræjum, gengur þessi mynd að miklu leyti út á stórkostlega frásagnarhæfileika Kurosawa. Myndin fjallar um morð sem er sagt út frá mismunandi sjónarhornum og hæfileika manneskjunnar til að hagræða sannleiknum.
Kurosawa gerði þessa mynd árið 1950 en a.m.k. fjórir leikaranna í þessari voru einnig í Sjö samúræjum, sem Kurosawa gerði fjórum árum síðar. Sérstaklega kann ég vel við Takashi Shimura, sem leikur skógarhöggvarann í þessari mynd og er aðalmaðurinn í Sjö samúræjum. Hann hefur þetta útlit mannsins sem veit svörin við öllu og minnir mig aðallega á Morgan Freeman:
Toshiro Mifune er líka góður sem ræninginn Tajomaru, sem skellihlær beinlínis fram í opinn dauðann.
Mér fannst myndin ekki jafn góð og Sjö samúræjar en samt ansi góð. Hún krafðist ekki sama úthalds og var auðvitað mjög vel gerð og útfærð. Maður var mjög spenntur að heyra mismunandi sjónarhorn fólks og t.d. voru yfirheyrslurnar skemmtilega útfærðar. Ég bjóst þó kannski við öðruvísi endi en reyndar var hann góður. Svo vantaði kannski upp á stemminguna en ég var kominn í svolítið tímahrak við að horfa á hana.
Allt í allt ágætasta mynd sem er vel þess virði að sjá. Ég mun vafalaust horfa á hana aftur og aldrei að vita nema ég kunni enn betur að meta hana seinna við betra tækifæri.
Thursday, December 6, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment