Sunday, December 16, 2007

Jólafríið

Jæja, nú er jólafríið komið og farið. Fyrirfram hafði ég ætlað mér að horfa aftur á einhverjar gamlar myndir og vonandi sjá einhverjar nýjar. Það tókst bara nokkuð vel hjá mér.

Ég byrjaði á því að horfa á Dumb and Dumber frá '94. Unnur hafði aldrei séð hana og allt of langt síðan ég hafði séð hana. Og það er aldeilis nauðsynlegt að rifja þessa upp. Hún stóð rækilega fyrir sínu og enn meðal fyndnari mynda sem ég hef séð, ef ekki sú fyndnasta. Mig grunaði að hún hefði elst af mér og að húmorinn væri of barnalegur fyrir mig en raunin var önnur. Þvert á móti fannst mér hún drepfyndin og mig grunar að það sé vegna þess einfaldlega hve góðir grínleikarar Carrey og Daniels eru. Það gæti náttúrlega verið að ég hafi ekkert þroskast öll þessi ár en eigum við að ræða það eitthvað frekar?

Ég ákvað að stæla aðeins Brik og sýna ykkur eitt af mörgum frábærum atriðum úr myndinni:



Næst kíktum við á Shawshank Redemption sem er líka frá 1994. Önnur mynd sem Unnur hafði aldrei séð og ég aðeins séð einu sinni og því um að gera að rifja hana aðeins upp. Emil skrifaði ágætis færslu um þessa mynd þar sem hann var í sömu aðstöðu og ég, sem sagt að sýna einhverjum myndina sem hafði ekki séð hana áður. Ég hæpaði hana kannski aðeins um of en ég reyndi þó að segja sem minnst. Unnur var annars bara nokkuð hrifin af myndinni og ég auðvitað sömuleiðis. Robbins og Freeman ná ákaflega vel saman í þessari og ég stefni á að sjá fleiri myndir með Robbins, kannski maður byrji þá á Mystic River, hver veit. Einhverjir góðir pointerar hvar skal byrja þar?


En fríinu var ekki lokið þarna. Við héldum áfram, óafvitandi reyndar, með 1994 þemað og horfðum á Fjögur brúðkaup og jarðarför. Þar er á ferðinni ágætis bresk gamanmynd um krúttlegan klaufa sem hefur ekki mikillar gæfu að fagna í samböndum við hitt kynið. Auðvitað leikur Hugh Grant aðalhlutverkið þar. Handritið er ágætt og góður leikarahópurinn heldur myndinni uppi. Þegar ég tala um "góðan leikarahóp" mætti kannski mínusa frá Andie McDowell en ég er ekkert ótrúlega hrifinn af henni. Hvar skyldi hún annars vera þessa dagana, eitthvað hefur frægðarsól hennar dofnað. Mér er reyndar nokkurn veginn sama. Hvað um það, þetta er ágætis ræma.

Á milli Shawshank og Fjögurra brúðkaupa var horft á The Matrix. Ég verð nú að segja að hún var betri í minningunni en samt var hún alls ekki slæm. Ýmsar góðar pælingar í gangi en þó fannst mér aðeins of mikill Hollívúdd bragur yfir henni. Reeves er ekkert spes en mörg atriði frábær og tæknivinnsla afar flott. Að sjálfsögðu ber þar einna hæst atriðið þar sem þau sækja Morpheus.

Þó svo að þessi topplisti hérna á síðunni sé ekkert svakalega formlegur finnst mér rétt að taka Matrix út af honum. Mér finnst hún hafa dofnað svolítið síðan ég sá hana seinast og kannski eru það skelfilegu framhaldsmyndirnar sem skemma fyrir henni. Í staðinn kemur The Eternal Sunshine of The Spotless Mind með Jim Carrey í aðalhlutverki. Carrey er einn af mínum uppáhaldsleikurum og hann er í fantaformi í henni. Ég blogga ábyggilega betur um hana seinna.

En jæja, við lukum svo fríinu með blöndu af nýársdagskrá RÚV og opinnar Stöðvar 2.

Við byrjuðum á Syndum feðranna á RÚV en það er heimildamynd um Breiðavíkurmálið. Hún var mjög flott fannst mér, vel unnið úr viðkvæmu máli líkt og Veðramót gerði.

Eftir hana kíktum við á mest alla War of the Worlds eftir Spielberg. Þar er Tom Cruise í aðalhlutverki og er lélegur og leiðinlegur. Mjög súr mynd þarna á ferðinni, í raun algjörlega dæmigerð og klisjukennd Hollivúdd mynd þar sem afar lauslega er farið eftir söguþræði skáldsögu Wells.

Eftir skelfinguna tók hins vegar snilldin við en þar var kvikmyndin Ray á ferðinni. Þar fer Jamie Foxx með hlutverk Ray Charles í mynd sem er byggð á fyrri hluta ferils hans. Viðfangsefni myndarinnar er auðvitað einn af allra bestu tónlistarmönnum okkar tíma. Úr nógu er að moða en Charles var frumkvöðull á tónlistarsviðinu og lifði stormasömu og dramatísku einkalífi. Mjög vel gerð mynd og minnir óneitanlega á myndina um Johnny Cash þar sem Joaquin Phoenix fer á kostum. Unni fannst hún reyndar betri án þess að draga af þessari og fannst myndin um Cash persónulegri. Mér fannst myndirnar álíka góðar.

Annars hafði ég aðeins kynnst Jamie Foxx í gegnum þættina In Living Color sem voru sketsaþættir á fyrri hluta tíunda áratugarins. Hann kom mér mjög skemmtilega á óvart í Ray og mér fannst hann eiga Óskarinn fyllilega skilið, hvert svo sem gildi þeirra verðlauna er. Ray Charles hitti víst Foxx áður en hann fékk hlutverkið og samþykkti hann eftir að þeir höfðu spilað saman í nokkra klukkutíma. Ætli það sé nokkuð hægt að fá betri meðmæli en það, allavegana fyrir þetta hlutverk.

Sem sagt, ágætis uppskera í þessu fríi. Mér fannst mjög gott að rifja upp nokkrar kvikmyndir og þó ég hefði að vísu stefnt á að horfa á fleiri nýjar er þetta vel viðunandi. Gleðilegt ár!

2 comments:

Siggi Palli said...

Uppáhaldsmyndirnar mínar með Tim Robbins:
The Player
Jacob's Ladder
The Hudsucker Proxy
Erik the Viking

Bob Roberts og Cadillac Man eru líka góðar. Howard the Duck er sérlega vond.

Ein pæling varðandi War of the Worlds: Af hverju ætli þeir hafi ákveðið að láta þrífætlingana koma upp úr jörðinni en ekki af himnum ofan eins og í sögunni og öllum kvikmyndum hingað til? Einhver skrifaði um að þetta væri e.t.v. myndhverfing fyrir hryðjuverk og "sleeper cells" o.s.frv. En á hinn bóginn þá er þetta hasarmynd með Tom Cruise í aðalhlutverki - það er að öllum líkindum þvílík vitleysa að ætla að pæla eitthvað í henni.

Siggi Palli said...

9 stig.