Thursday, December 6, 2007

Ég og bíóhúsin - slæm blanda?

Seinast fór ég í bíó á kvikmyndahátíðina, sem ég hafði reyndar mjög gaman af. Þar voru öðruvísi myndir en maður sér vanalega þó að margar hafi reyndar verið drasl, eftir því sem maður heyrði. Fyrir utan sýningar tengdar kvikmyndagerð held ég að ég hafi farið einu sinni eða í mesta lagi tvisvar í bíó seinasta hálfa árið. Ég er nánast hættur að fara í bíó. Hvað er eiginlega í gangi? Er þetta sæmandi nemanda í kvikmyndagerð?

Standardinn hefur hækkað hjá mér. Ég er orðinn langþreyttur á að fara í bíó með félögunum á einhverja hundleiðinlega mynd sem var algjörlega ekki tímans eða peninganna virði. En hins vegar er nóg af góðum myndum til sýninga í kvikmyndahúsum landsins. Þau skipti sem ég hef séð lélega mynd vega þó greinilega þungar, sem er ekki nógu gott. En það er fleira sem spilar inn í.

Þegar ég hitti félagana þá finnst mér það að fara á kvikmynd bjóða upp á takmörkuð samskipti. Auðvitað er maður ekkert að spjalla í miðri mynd og vissulega gefst smá tími í hléinu en svo er oft bara farið heim. Kvöldið hefur þá farið í það að horfa á, oftar en ekki, heiladauða Hollywood mynd án þess að fá tækifæri til að spjalla við kunningjana. Auðvitað snýst það að fara í bíó ekki um þetta en í gegnum tíðina hefur þessi ástæða oft orðið til þess að ég sleppi bíóferð.

Svo er það himinháa miðaverðið. Finnst engum skrítið að það er alltaf sama verðið í öllum bíóum og hækkanir á verði á sama tíma? Það er nákvæmlega engin samkeppni á þessum markaði og bíóin virðast hafa tekið olíufélögin á þetta. Og hafa líklega gert það mjög lengi.

Svo gæti þetta verið einhver retróstemming hjá mér. Ég er búinn að koma mér upp ákveðnum fordómum fyrir nýjum myndum þó oft sé það ekki að ástæðulausu. Í mörgum myndum eru samtölin gjörsamlega innihaldslaus og áherslan aðallega lögð á sprengingar og brellur. Mér leiðist það og oft finnst mér meira spennandi að sjá klassískar myndir sem hefur verið sýnt og sannað að klikka ekki.

Líklega spila allir þessir þættir inn í mitt bíósnauða-ástand. Ég get þó varla talist alvöru kvikmyndaáhugamaður ef ég gef mér ekki tíma og peninga til að fara í bíó. Ég vel mér einhverja góða í jólafríinu og stefni ótrauður í kvikmyndahús borgarinnar.

No comments: