Tuesday, December 4, 2007

Topp tíu listinn

Topp tíu listinn hérna á síðunni er frekar óformlegur. Mér hefur alltaf fundist erfitt að skilgreina nákvæmlega bestu myndir sem ég hef séð. Stundum hef ég jafnvel spurt sjálfan mig að því, eftir að hafa horft á góða mynd, hvort að sú mynd ætti heima á þessum lista. En þetta er samt ágætis blanda af góðum myndum og margar sem eru á mörkunum á því að detta inn. Jæja, ég ætla allavegana að skella inn óformlegri færslu um þennan blessaða og mjög svo óformlega lista.

Memento

Myndirnar á listanum eru ekki í neinni sérstakri röð. Efst á hann skellti ég myndinni Memento. Þetta er mynd frá árinu 2000 sem ég sá í sjöunda bekk að því er mig minnir. Guy Pearce fer með aðalhlutverkið í þessari og stendur sig stórvel. Hann leikur mann sem þjáist af minnisleysi og gengur myndin út á það að miklu leyti. Plottið er vægast sagt rosalegt í þessari og maður er algjörlega eftir sig eftir að horfa á hana.


Snillingurinn Christopher Nolan sér um leikstjórnina og slær engin vindhögg þar. Hann hefur ekki leikstýrt mörgum myndum en hefur þó getið sér gott orðspor og virðast gæðin fara framar en magnið þegar kemur að honum. Þær myndir sem ég hef einnig séð eftir hann eru Batman Begins og The Prestige og fannst mér báðar mjög góðar. Það verður því gaman að sjá hvað þessi maður gerir í framtíðinni en það er einmitt næsta Batman mynd, The Dark Knight, sem er næsta mynd kappans og hún verður eflaust stórfín.

Þremur árum eftir að ég sá Memento kíkti ég aftur á hana. Myndin var mér líklega enn í of fersku minni, því hún gekk ekki alveg jafn vel í annað sinn. Það er þó ekkert til að draga úr gæðum myndarinnar, heldur var það heimska af mér að láta ekki líða aðeins lengur. Ég var bara of æstur í að sjá hana aftur. Sem aftur á móti bendir á hversu góð hún var. Þó svo að myndin virki líklega best í fyrsta sinn er það engin ástæða til að láta hana framhjá sér fara.

Jæja, ég hef ekkert verið að draga úr hrósinu á þessa mynd. Sem er líka ekkert skrítið. Hún er hörkugóð og ég mæli eindregið með henni.

No comments: