Ég hef séð nokkrar stríðsmyndir um mína daga en þær eru auðvitað misgóðar í minningunni. Og svo eru nokkrar sem mig fýsir mjög að sjá. Við skulum líta aðeins nánar á hvaða myndir þetta eru:
Saving Private RyanByrjum á Saving Private Ryan en hún er fyrsta myndin sem mér kemur í hug þegar ég heyri stríðsmyndir nefndar á nafn. Samt sem áður er hún mér ekkert sérstaklega eftirminnileg. Hún er nátturlega eftir Spielberg og allt það og kom út árið 1998. Ég reyndar sá hana ekki fyrr en nokkrum árum seinna, sennilega 2001 eða 2002.
Mig minnir að myndin hafi verið ágæt. Þarna í fyrndinni hafði ég reyndar lítið vit á myndum en hvort hún hafi ekki verið nokkuð góð. Allavegana betri en Gladiator en mér fannst hún meira að segja kjánaleg þegar ég sá hana á þessum aldri.
"Mig minnir" hljómar ekkert sérstaklega traustvekjandi á dóm minn um myndina en sýnir um leið að þetta var bara enn einn blokkbösterinn frá Hollywood og ekkert sérstaklega minnistæður. Þó eru einstaka atriði sem ég man eftir, ég man eftir því þegar þeir koma á land í Normandí og svo atriðum þar sem liðið reynir að forðast leyniskyttur.
Þetta var þó ábyggilega "vel gerður" blokkböster þar sem að Spielberg er að verki og hann gerir hlutina oftast rétt hvort sem það sé eitthvað minnistætt eður ei. Ég ætla hins vegar að gleyma Saving Private Ryan í bili og snúa mér að næstu mynd. Ég þyrfti kannski að kíkja á hana aftur ef ég hef ekkert að gera einhvern tímann. Eða sleppa því, ég hugsa ég lifi það af.
Black Hawk DownÉg held mig við blokkböstera frá Hollívúdd. Black Hawk Down er nýlegri en Ryan og kom út árið 2001. Ég man eftir því þegar ég leigði hana, það hefur verið sama ár og hún kom út en ég kíkti á hana eitthvert kvöldið þegar ég hafði ekkert að gera. Ég var víst rosalega spenntur yfir henni. Ég get ekki sagt að ég væri jafn spenntur núna ef að þessi mynd væri nýkomin á leigurnar.
Myndin fjallar um hetjudáð bandarískra hermanna í Sómalíu árið 1993. Þar drita þeir niður sómalíska skrælingja en missa um leið fáeina menn og tvær af þeirra afar dýrmætu þyrlum.
Í minningunni virkar þetta á mig sem klassísk áróðursmynd fyrir bandaríska herinn. Þegar ég sá hana hafði ég engan gríðarlegan skilning á heimsmálunum en þegar ég lít til baka virkar hún algjörlega þannig á mig. En myndin er þó gerð eftir bók og ég gæti því vel verið að vanmeta myndina.
Æj, ekkert sérstaklega minnistæð mynd og ég nenni tæplega að eyða meira púðri í hana.
Der UntergangJá, nú er ég loksins kominn að einhverju almennilegu efni. Der Untergang er frá 2004 og sá ég hana á kvikmyndahátíð í Regnboganum um það leiti.
Der Untergang er ekki þessi dæmigerða stríðsmynd eins og þessar að ofan. Hún er líka mun áhugaverðari en þær. Það er lítið um stríðsátök í henni en hún tekur fyrir seinustu daga Hitlers og fókuserar um leið á sálarlíf hans og lífið í neðanjarðarbyrginu undir lokin.
Styrkleikar myndarinnar liggja ekki í bardagasenum heldur í leik og framsetningu myndarinnar. Maður sogast virkilega í atburðarásina og örvæntingin í byrgi Hitlers liggur gjörsamlega í loftinu. Bruno Ganz leikur Hitler frábærlega og maður fær að kynnast mannlegu hlið hans en þó kemur líka bersýnilega í ljós hversu geðveikur hann var. Þótt ótrúlegt megi virðast finnur maður til með honum undir lokin.
Vafalaust besta myndin í þessu bloggi hingað til.
The PianistEkki heldur þessi dæmigerða stríðsmynd en eins og Untergang mun betri en hinar tvær að ofan.
The Pianist er frá árinu 2002 en hinn umdeildi Roman Polanski leikstýrði henni. Reyndar vann hann Óskarinn fyrir hana en gat ekki tekið á móti honum sökum þess að vera eftirlýstur í Bandaríkjunum síðan 1978.
Myndin fjallar um frægan pólskan píanóleikara, Wladyslaw Szpilman, sem lifir og starfar í Varsjá. Hann og fjölskylda hans eru gyðingar og hann lendir í ýmsum hremmingum eftir að nasistar hertaka borgina og hefja ofsóknir sínar. Myndin er sannsöguleg og er gerð eftir æviminningum Szpilmans.
Eins og Der Untergang tekur myndin á hinu viðkvæma viðfangsefni Seinni Heimsstyrjöldinni en í þetta sinn er fjallað um gyðingaofsóknir nasista. Polanski lenti sjálfur í álíka reynslu og píanistinn í myndinni en ungur að árum slapp hann úr gettóinu í Varsjá á flótta undan nasistum. Viðfangsefnið er því mjög nálægt Polanski og honum hugfangið.
Adrian Brody leikur Szpilman snilldarlega í myndinni og fékk hann m.a. óskarinn fyrir leik sinn í myndinni og varð um leið yngsti leikarinn til að hreppa þau verðlaun.
Í myndinni verður Szpilman vitni að ýmsum hræðilegum verkum SS sveita nasista en þó fannst mér í minningunni ofbeldi ekki ofaukið í myndinni. Það lýsir vel hryllinginum og miskunnarleysinu sem réð ríkjum í ghettóum nasista. Umgjörð myndarinnar er frábær og mjög raunveruleg. Þar notuðust framleiðendur myndarinnar m.a. við yfirgefinn sovéskan herspítala og herbragga.
Góð mynd sem ég þarf að sjá aftur við tækifæri, mjög eiguleg þessi.
La Vita e BellaÉg ætla ekki að fara of mörgum orðum um þessa þar sem ég sá hana í fyrsta og eina skipti í sjötta eða sjöunda bekk í Melaskóla og það er orðið ansi langt síðan. Það var reyndar farin sérstök ferð í Norræna húsið til að sjá myndina.
La Vita e Bella fjallar í stuttu máli um ítalskan gyðing sem notar ímyndunaraflið til að hjálpa syni sínum að þrauka í útrýmingarbúðum nasista.
Roberto Benigni leikur aðalhlutverkið og leikstýrir myndinni. Í minningunni fannst mér hann standa sig vel en eitthvað var Siggi Palli
ósammála því. Ég veit satt að segja ekki hvort ég eigi að treysta sjálfum mér eða Sigga í þessu máli, ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi haft núll vit á kvikmyndum í sjöunda bekk. En auðvitað er smekkur manna mismunandi og allt það.
Allavegana, í minningunni ágætis mynd og mjög "falleg" ef svo má að orði komast.
Ég hlýt nú að hafa séð fleiri stríðsmyndir en þetta en þó eru ekki fleiri sem ég man eftir í bili. Mér datt nú í hug myndin The Great Dictator með Chaplin en þrátt fyrir að hafa verið aðdáandi hans held ég að ég hafi bara séð glefsu úr þeirri mynd. Annars eru nokkrar myndir sem ég væri til í að sjá við tækifæri:
Battleship PotemkinÞessi mynd hefur verið kölluð ein áhrifamesta mynd allra tíma. Hún fjallar um sjóliðana sem gerðu uppreisn á rússneska skipinu Potemkin árið 1905 og viðbrögð hermanna Tsarsins við þeirri uppreisn.
Sovéski leikstjórinn Sergei Eisenstein hugsaði myndina bæði sem byltingar-áróðursmynd en einnig sem tilraun í klippingu kvikmynda. Hann vildi athuga hvernig hægt væri að klippa myndina svo að áhorfendurnir myndu finna til með persónum myndarinnar sem þeir "áttu" að finna til með. Eisenstein vann einkum með "montage" formið, líkt og í frægustu senu Potemkin, Odessa tröppunum, þar sem hermenn tsarsins marsera niður tröppurnar skjótandi allt sem á vegi þeirra verður.
Pabbi hefur verið með áróður fyrir þessari mynd síðan ég byrjaði í kvikmyndagerð seinasta haust og miðað við sögulegt gildi hennar er þetta möst-sí.
Schindler's ListJá, ég er ekki enn búinn að sjá Schindler's List. Hún er frá árinu 1993 og er úr smiðju Steven Spielbergs. Hún er sannsöguleg og fjallar um Oskar Schindler sem notar gyðinga til vinnu í verksmiðju sinni í Póllandi í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann finnnur til með þeim og tekur til við að bjarga þeim úr klóm nasista.
Auðvitað var ég ekki á rétta aldrinum þegar myndin kom út og það má segja að hún hafi farið algjörlega framhjá mér allt þar til mörgum árum seinna. Eftir því sem ég hef heyrt og lesið, er þetta ein af allra flottustu myndum sem gerðar hafa verið. Af hverju er ég ekki löngu búinn að sjá þessa?
Apocalypse NowApocalypse Now er leikstýrð af Francis Ford Coppola og gerist í Víetnam stríðinu. Aðalpersóna myndarinnar er Benjamin Willard en hann fær það hlutverk að ferðast upp í kambódíska frumskóginn að finna Walter Kurtz, fyrrverandi sérsveitarmann. Myndin er byggð á bók Joseph Conrads, Hearts of Darkness.
Siggi sýndi okkur um daginn heimildarmyndina
Hearts of Darkness, sem fjallar um gerð Apocalypse Now. Líkt og sást í heimildarmyndinni, gekk framleiðsla Apocalypse Now vægast sagt brösulega. En myndin vakti um leið mikinn áhuga hjá mér að sjá Apocalypse. Það var gaman hversu nálægt maður komst Coppola í heimildarmyndinni og vandamálunum í framleiðslu svona stórmyndar. Til dæmis má nefna samninga Coppola við ríkisstjórn Filippseyja um leigu á hergögnum. Svo tóku filippnesku flugmennirnir stundum upp á því að fljúga burt í miðjum senum til að takast á við uppreisnarmenn annars staðar í ríkinu.
Það fer að nálgast að ég sjái þessa. Allavegana fyrir næsta haust.
Hotel RwandaLjúkum upptalningunni með þessari. Hotel Rwanda fjallar um hótelstjóra sem aðstoðar fólk í þjóðarmorðunum í Rúanda árið 1994.
Ég hef heyrt um þessa mynd að hún sé bæði ofbeldisfull og átakanleg. En um leið hef ég heyrt að hún sé mjög góð og auðvitað er alltaf við hæfi að sjá góðar myndir.
Stríð er alltaf viðkvæmt viðfangsefni og það er mismunandi hvernig kvikmyndagerðarmenn takast á við það. Kannski mætti skipta stríðsmyndum í annars vegar hasar-stríðsmyndir og hins vegar drama-stríðsmyndir.
Ef miðað er við mína reynslu eru hasar myndirnar oftast slappari og áhrifaminni. Þær eru oftast einhverjir blokkbösterar sem gleymast fljótt. Þó er þetta ábyggileg ekki algilt, ég er varla nokkur sérfræðingur í þessum efnum.
Það er samt sem áður ljóst að þegar viðfangsefni kvikmynda er stríð þurfa kvikmyndagerðamenn virkilega að vanda sig. Stríð hafa alltaf mikil áhrif á þolendur þess. Því er auðvelda leiðin fyrir Hollívúdd framleiðendurna að búa til afþreyingarefni sem inniheldur mikinn hasar, "þunna" karaktera og einfalda uppbyggingu. Kvikmyndirnar sem endast eru þó þær sem innihalda mannlega faktorinn og sýna þessi óneitanlegu áhrif sem stríð hafa á þolendur þess og baráttu manna við hryllinginn sem fylgja þeim. Það er í raun bara á færi þeirra allra bestu að takast á við þetta verðuga efni.