Kvikmyndageirinn í Afríku hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu hérna á Íslandi. Ég veit afar lítið um þennan geira í Afríku, sem þó er bæði næstfjölmennasta og næststærsta heimsálfa Jarðar. Þegar ég ákvað að kíkja betur á þetta, komu í ljós ýmsar ástæður fyrir litlu kvikmyndahefð.
Þegar ég leitaði á netinu að upplýsingum um afríska kvikmyndahefð fann ég í fyrstu lítið sem ekkert. Þó kom að því að ég rakst á þessa áhugaverðu síðu en fann líka síður á Wikipedíu um Nollywood og afríska kvikmyndagerð.
Hvað veldur því samt að afríski kvikmyndageirinn er ekki stærri en þetta? Hver er bakgrunnur afrískrar kvikmyndagerðar? Við skulum skoða þetta aðeins nánar og byrja á því að setja þetta í sögulegt samhengi.
Ágrip af sögu afrískrar kvikmyndagerðar
Byrjum á bakgrunninum, a la Gummi sögukennari:
Á seinni hluta nítjándu aldar komst nýlendustefnan aftur í tísku á vesturlöndum og nú var það Afríka sem var næsti stóri bitinn. Á þessum tíma talst ríki ekki til stórvelda án þess að ráða yfir nýlendum og öll helstu stórveldin vildu bita af kökunni. Því var langmestum hluta Afríku skipt upp á milli stærstu Evrópuríkjanna. Þetta hafði í för með sér niðurlægingu og misnotkun Afríkubúa og afrískrar menningar. Um miðja tuttugustu öldina fóru þó ýmis afrísk ríki að krefjast sjálfstæðis og mörg hver hlutu það. Hins vegar fylgdi oft í kjölfarið borgarastríð á milli mismunandi trúarhópa eða þjóðarbrota innan ríkjanna. Þessi stríð gátu staðið áratugana á enda og gjöreyðilögðu oft innri byggingu og skipulag ríkjanna. Enn þann dag í dag geysa borgarastríð í Afríku og sums staðar sér ekki fyrir endann á þessum deilum. Og þá á eftir að nefna hungursneyðir og hörmungar sem dynja á ári hverju yfir ýmis ríki álfunnar.
Með þennan bakgrunn í huga er ekki skrítið að afrísk kvikmyndagerð skuli ekki vera komin lengra en hún er komin. Í umhverfi þar sem geysir stríð og hungur og innri bygging samfélagsins er í molum er erfitt að koma sér að því að gera kvikmyndir. En viðfangsefnin eru svo sannarlega til staðar og mikil þörf á að athygli verði vakin á þeim, má þar nefna alnæmisfaraldurinn og borgarastyrjaldir. Stundum er sagt að mestu listaverkin verði til vegna erfiðra aðstæðna og hörmunga og hvort tveggja er vissulega til staðar í Afríku. Þetta er þó einungis orðatiltæki og enn fremur djarft að setja afríska kvikmyndagerð í slíkt samhengi þar sem forsendurnar fyrir kvikmyndagerð eru varla til staðar í álfunni.
En þá að sjálfri kvikmyndagerðinni:
Á nýlendutímanum gerðu ýmsir vestrænir kvikmyndagerðamenn myndir sem gerðust í Afríku og má þar nefna Tarzan og nokkrar myndir gerðar eftir bókinni Námur Salómons konungs. Í vestrænum myndum þessa tíma var Afríka þó tekin fyrir á afar einfeldningslegan hátt og hún gefin út fyrir að hafa enga menningu eða sögu. Þetta er auðvitað dæmigert fyrir undirokunina sem fólst í nýlendustefnu vesturlanda. Kvikmyndagerð sjálfra Afríkubúa á nýlenduskeiðinu var nokkurn veginn engin eftir því sem ég kemst næst. Í frönsku nýlendunum var lagt hreint bann við afrískri kvikmyndagerð. Örfáar kvikmyndir sem gagnrýndu nýlendustefnuna voru gerðar á þessum tíma en þær voru gerðar af Evrópubúum og sumar bannaðar.
Eftir að mörg Afríkuríki fengu sjálfstæði um miðja öld fór loksins eitthvað að gerast í kvikmyndabransanum. Fyrsta afríska myndin til að fá alþjóðlega athygli var myndin La Noire de... eftir senegalíska leikstjórann og rithöfundinn Ousmane Sembene. Hún kom út árið 1966 og var fyrsta myndin í fullri lengd eftir leikstjóra sunnan Sahara. Hún var gerð eftir einni af smásögu Sembenes en hann hefur oft verið kallaður faðir afrískrar kvikmyndagerðar.
Árið 1969 var afríska kvikmyndahátíðin FESPACO haldin í fyrsta skipti. Hún er nú haldin annað hvert ár og er einn stærsti afríski menningarviðburðurinn. Á fyrstu hátíðinni voru aðeins sýndar myndir frá Afríkuríkjunum Senegal, Búrkina Fasó, Níger, Kamerún og Fílabeinsströndinni ásamt myndum frá Frakklandi og Hollandi. Fjöldi kvikmynda á hátíðinni var 23. Í annað sinn fjölgaði hins vegar Afríkuríkjunum frá fimm upp í níu og myndunum upp í 40 stykki. Hátíðin stækkaði því ár frá ári og kom skýrt fram að alvöru kvikmyndahátíð var þarna á ferðinni.
Sama ár og FESPACO var fyrst haldin var samband afrískra kvikmyndagerðarmanna, FEPACI, stofnað. Tilgangur þess var að halda utan um dreifingu, framleiðslu og sýningu afrískra kvikmynda.
Á seinni hluta tuttugustu aldar komu fram fleiri leikstjórar og kvikmyndir, oftar en ekki með strangan samfélagslegan boðskap í fararbroddi. Samt sem áður eru enn langt í land og aðstæður afar erfiðar fyrir afríska leikstjóra.
Sérstaða afrískrar kvikmyndahefðar
Á síðunni sem ég nefndi fyrst er viðtal við Ernu Beumers, sem er hollenskur sérfræðingur í afrískum kvikmyndum. Þar nefnir hún ýmislegt sem skilur afríska kvikmyndahefð frá annars konar kvikmyndahefðum.
Afríka er gríðarstór og þar búa ótal þjóðir og þjóðarbrot. Því verður að hafa í huga að mikill munur er á mismunandi þjóðum og hlutum álfunnar. Samt sem áður er ýmislegt sem margar afrískar myndir hafa sameiginlegt.
Í afrískum myndum er oft lögð minni áhersla á einstaklinginn en í vestrænum myndum. Í vestrænum myndum er oft sýnd þróun og þroski einstaklingsins út frá hans sjónarhorni en í afrískum myndum eru hlutirnir settir í stærra samhengi. Þar eru það frekar almenn samskipti á milli einstaklinga sem eru í aðalhlutverki.
Frásagnaraðferðin er líka einstök í afrískum myndum en notuð eru löng skot og mikið af náttúrumyndum ásamt því sem myndavélin hreyfist oft hægt.
Viðfangsefni myndanna hefur líka breyst í áranna rás. Í fyrstu var mikið um gagnrýni á nýlendustefnuna en nú hafa afrískir kvikmyndagerðamenn beint augum sínum að flutningi fólks úr sveitum í borgir og flutningi til vesturlanda.
Jafnvel áhorf fólks á kvikmyndir fer öðru vísi fram í Afríku en á vesturlöndum. Í Afríku horfir fólk á kvikmyndir sem hópur frekar en að sitja þögult og einbeitt. Þá lætur fólk í ljós skoðun sína á meðan á myndinni stendur og gengur inn og út úr salnum eins og því sýnist.
Það er því greinilegt að það er ýmislegt sem skilur að afrísku hefðina frá þeirri vestrænu. Afríski kvikmyndaiðnaðurinn á þó eitthvað sameiginlegt með þeim íslenska, þar sem að kvikmyndagerð í Afríku er engin gróðastarfsemi. Kvikmyndahús Afríku eru oftar en ekki tilneydd til að sýna bara Hollywood eða Bollywood myndir og því erfitt fyrir afrískar kvikmyndir að komast að. Einnig er lítið um kvikmyndahús og kvikmyndahefðin er ekki næg í afrískri menningu. Almenningur er líka almennt of fátækur til að hafa tök á að fara í bíó. Þó hefur bransinn í Nígeríu vaxið hratt á síðustu árum.
Nollywood
Kvikmyndaiðnaðurinn í Nígeríu, stundum kallaður Nollywood, er nú í sæti númer þrjú í heiminum varðandi framleiðslumagn.
Eftir að stafræn tækni þróaðist í gæðum og varð viðráðanleg í verði tóku nígerískir kvikmyndagerðamenn að tileinka sér hana og í dag er það í raun stafræni "vídjó"-iðnaðurinn í Nígeríu sem er kallaður Nollywood.
Nollywood-myndir hafa þó oft verið gagnrýndar fyrir metnaðarleysi í allri eftirvinnslu og handritum kvikmyndanna. Þetta er í raun fjöldaframleiðsla á myndum teknar upp á ódýrar vélar þar sem mestu skiptir að klára myndina og byrja á þeirri næstu. Þó hefur iðnaðurinn stækkað markvisst og vaxið á 13 árum úr engu upp í að vera atvinna þúsunda manna.
Nígerískar myndir njóta sífelld aukinna vinsælda í Nígeríu og öðrum Afríkuríkjum. Dreifing þeirra er þó frábrugðin vestrænu hefðinni. Myndir fara beint á DVD og VCD diska og eins og áður sagði eru myndirnar nánast fjöldaframleiddar. Um það bil 300 framleiðendur koma út á milli 1000 og 2000 myndum á ári. Diskarnir eru svo seldir á tvo dollara stykkið og hinn almenni Nígeríubúi hefur því efni á myndunum.
Árið 2007 var gerð heimildarmyndin Welcome to Nollywood en hún fjallar um þennan ört vaxandi iðnað.
Mín reynsla
Ég hef þó farið í bíó í Afríku og það oftar en einu sinni. Bæði fór ég nokkrum sinnum í bíó í Mapútó, höfuðborg Mósambík, þar sem ég bjó allan áttunda og níunda bekk en einnig fór ég í bíó í Suður Afríku; einu sinni í Höfðaborg og nokkrum sinnum í bænum Nelspruit.
Í Mapútó voru sýndar nokkurra ára gamlar myndir en m.a. fór ég þar á The Crow og myndina Barb Wire þar sem Pamela Anderson fer mikinn. Í Suður-Afríku voru miklu nýrri myndir sýndar og þar sá ég m.a. Terminator 3.
Ég held ég hafi séð eina afríska mynd og er það "gæðaræman" Mr. Bones. Þar leikur einn af aðalgrínistum Suður Afríku, Leon Schuster, hvítan töfralækni í leit að týndum prinsi ættbálksins. Frekar þunn gamanmynd þarna á ferðinni en samkvæmt þessari síðu virðist hún vera önnur á lista yfir tekjumestu myndir Suður Afríku, á eftir aðeins sjálfri Titanic. Suður Afríkubúar hafa greinilega kunnað að meta hana og kannski hefur hún gert eitthvað í að sameina sundurleita þjóðina eftir skelfingar apartheid-stjórnarinnar.
Kvikmyndin The Gods must be crazy kom út árið 1980 og náði nokkrum vinsældum um allan heim. Þetta er gamanmynd sem segir söguna af búskmanninum Xi sem lifir í veröld algjörlega snauðri af vestrænni menningu og hefðum. Þegar Coca-Cola flaska fellur af himnum ofan kemst allt í uppnám í ættflokknum en flöskunni var kastað úr flugvél. Xi ákveður því að leggja í leiðangur til endaloka heimsins til að eyða flöskunni.
Myndin þótti umdeild en sumir vildu meina að lýsingin á lífi og umhverfi búskmannanna og viðbrögðum þeirra við vestrænni menningu væri einfölduð og í ætt við kynþáttahyggju. Aðrir voru annarrar skoðunar og fannst myndin einmitt mæla á móti rasisma og öðrum fordómum. Hvað sem því líður öðlaðist myndin ákveðna frægð en ég á samt enn eftir að sjá hana.
Það mætti kalla þetta lélegt, að hafa búið í tvö ár í Afríku og aðeins séð eina afríska mynd í fullri lengd. Bæði var ég á gelgjuskeiðinu á þessum tíma en einnig var afar erfitt að nálgast afrískar kvikmyndir. Bæði má þar athuga það sem ég nefndi áður með dreifinguna og fjölda bandarískra og indverska mynda en líka að í Mósambík er lítill sem enginn kvikmyndaiðnaður. Landið er tiltölulega nýstigið úr borgarastríði sem eyðilagði innri byggingu þess og líf fjölda Mósambíkana.
Jæja, þá er þessari yfirferð minni yfir afrískar myndir lokið. Mér fannst forvitnilegt að kanna afríska kvikmyndagerð bæði þar sem ég bjó í Mósambík í tvö ár en einnig af því ég vissi svo lítið um afríska kvikmyndahefð. Ég fræddist heilmikið á þessu og vona að þið hafið gert slíkt hið sama.
Tuesday, April 15, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Snilldarfærsla! 10 stig.
Þegar ég var að stilla upp myndum fyrir vorönn velti ég einmitt afrískri kvikmyndagerð fyrir mér, en datt engin góð afrísk mynd í hug. Kannski maður reyni að verða sér úti um Welcome to Nollywood.
Post a Comment