Þessi mynd er oft talin ein af sígildu hryllingsmyndunum og jafnframt besta mynd leikstjórans Dario Argento. Mér fannst hún að mörgu leyti vel gerð en það voru einstaka hlutir sem mér fannst áfátt við myndina.
Ég tók strax í byrjun myndarinnar eftir notkun leikstjórans á tónlist og hljóðum í bakgrunni myndarinnar. Tónlistin var í drungalegri kantinum og ein af aðferðum leikstjórans við að skapa spennu. Um tónlistina sá ítalska hljómsveitin Goblin. Oft heyrðist sama stefið og þá var von á skelfilegu atviki. Einnig heyrðust ýmis ógnvekjandi óp og köll í bakgrunni spennuatriða. Leikstjórinn notaði þennan óp-effekt grimmt í myndinni og þar fannst mér hann veðja á réttan hest en þetta myndi líklegast kallast ansi djarft í dag.
Önnur leið leikstjórans við að skapa spennu í myndinni var að sýna röð af skotum sem ættu að virðast saklaus en þó vissi maður að það lá eitthvað að baki. Það sem ég á við er til dæmis í atriðinu þar sem ballerínurnar tvær hlusta á fótatak kennaranna. Þar klippti leikstjórinn stöðugt á milli stelpnanna og svo fóta kennaranna að ganga eftir ganginum. Fótatakið skapaði eftirvæntingu en þetta er oft notað í hryllingsmyndum. Annað dæmi er kannski þegar blindi maðurinn gengur heim á leið með hundinum sínum. Þar kemur löng röð af skotum af honum gangandi og maður veit um leið að eitthvað er á seyði.
Þó var sumu ábótavant. Myndin er frá áttunda áratugnum og þar með vantar svolítið upp á tæknilegu hliðina. Til dæmis fannst mér blóðið í myndinni líkjast einhvers konar rauðri málningu og það vakti ekki beint upp óhug hjá mér.
Örlítið óhugguleg mynd sem sýnir ágætlega gerfiblóðið/málninguna
Einnig var augljóst að talað var inn á myndina eftir á og það gat stundum verið pirrandi en þó fannst mér það lagast þegar á leið myndina. Kannski vandist ég því bara.
Leðurblakan sem ballerínan lendir í kasti við var heldur ekki sú raunverulegasta en þó fannst mér hún þjóna sínu hlutverki. Það var auðséð að þarna var ekki á ferð alvöru leðurblaka, til dæmis var hún frekar feit fyrir leðurblöku, en ég er alls ekki á því að nútíma tölvugerð leðurblaka hefði virkað betur. Kosturinn við að nota brúður í svona tilvikum er sá að þær eru mun áþreifanlegri. Með klippingu má gabba betur áhorfandann eins og leikstjórinn gerir einmitt í þessu atriði. Þar klippir hann fljótt á milli ýmist nærskota eða fjærskota og með samblandi af hljóðum vængjanna verður leðurblakan ógnvænlegri fyrir vikið.
Þrátt fyrir vankanta myndarinnar fannst mér hún ljómandi góð skemmtun. Það var aldrei dauður punktur í myndinni og handritið dreif hana áfram. Morðin fannst mér skemmtilega brútal sem og skotin af sundurskornum líkunum. Þar tókst framleiðendum myndarinnar einmitt ágætlega upp, fyrir utan reyndar blóðið eins og áður sagði.
En sem sagt, fínasta mynd og stendur bara ágætlega undir nafni sem hryllingsmynd.
1 comment:
Fín færsla. 6 stig.
Ég er nú ekki alveg sammála varðandi blóðið. Vissulega er það ekkert rosalega raunverulegt, en ég held að það sé hluti af heildar útlitshönnun myndarinnar. Litir gegna stóru hlutverki í myndinni, og það er nokkuð öruggt að þessi sérstaki rauði litur var valinn með það í huga.
Post a Comment