The Good, the Bad and the Ugly er vestri frá árinu 1966. Kvikmyndinni var leikstýrt af Sergio Leone og hún er ein af frægari myndum sögunnar.
Myndin er sú síðasta í hinum svokallaða dollara-þríleik sem Sergio Leone leikstýrði en allar þrjár myndirnar skörtuðu Clint Eastwood í aðalhlutverki. Þessar myndir eru hinir eiginlegu spagettívestrar en þær eru kallaðar svo vegna þess að þær voru framleiddar af ítölskum myndverum. Þessi seinasta mynd í þríleiknum hafði þó óvenju hátt "budget" og United Artists komu að framleiðslu hennar, ólíkt hinum tveimur myndunum.
Kvikmyndin fjallar um þrjá glæpona sem eru afar færir með sexhleypurnar og eru það þeir þrír sem átt er við í titli myndarinnar. Myndin gerist á tíma þrælastríðsins en þeir girnast allir og eltast við mikinn fjársjóð sem er grafinn í kirkjugarði. Auðvitað hugsar hver um sig en samt tvinnast leiðir þeirra saman og í leit sinni að fjársjóðnum lenda þeir meðal annars í miðri orrustu og fangabúðum Norðurríkjanna.
Það er margt sem gerir þessa mynd frábæra. Eitt af því frægasta er auðvitað tónlistin eftir Ennio Morricone. Hérna er smá tóndæmi:
Þetta er eitt frægasta titillag kvikmyndasögunnar og Leone notar þetta stef óspart í gegnum myndina en ávallt í kringum aðalpersónurnar. Morricone notar um leið mismunandi hljóðfæri fyrir hvern þremenninganna. Mér finnst stefið þó aldrei verða þreytt enda ógnargott stef þarna á ferðinni.
Það sem Morricone gerir er að nota oft sömu stefin en mismunandi tilbrigði við þau. Þannig eru í raun tvö meginstef í myndinn sem koma aftur og aftur fyrir. Leone notar líka tónlistina á mjög skemmtilegan hátt í atriði þar sem tveir þremenninganna eru teknir sem fangar. Þar er "fangahljómsveit" látin spila lag og syngja til að ekki heyrist að það sé verið að lúberja mann í kofa eins foringjanna. Hinir fangarnir vita svo af því að maðurinn inni stendur undir barsmíðum svo lengi sem lagið stendur yfir. Lagið er "Story of a Soldier" og hérna er það eins og það heyrðist í myndinni en augljóslega er myndskeiðið ekki úr myndinni:
Til gamans má svo geta að plata með lögum úr myndinni náði 4. sæti á Billboard-vinsældalistanum og titillagið sló í gegn árið 1968.
Myndin er einnig afar flott myndrænt séð. Leone notar gjarnan víðáttumikil skot sem sýna um leið þurrt og drungalegt landslagið í kring. Einnig eru mörg mjög flott skot í myndinni og má þar nefna atriðið í blábyrjun myndarinnar þegar hinn vondi er kynntur til leiks. Þar er myndavélin á sama stað á meðan Lee van Cleef, sem leikur hinn vonda, gengur ískaldur út úr húsinu þar sem hann er nýbúinn að drepa mann. Erfitt að lýsa atriðinu svo það skiljist en ég fann það því miður ekki á youtube. Horfið bara á myndina og þá fattast þetta.
Myndatökunni tekst í myndinni að færa okkur nær persónunum. Hérna er gott dæmi um það:
Þetta atriði fannst mér mjög minnisstætt, bæði af því að það er í svo mikilli mótsögn við allt ofbeldið í myndinni en einnig af því að þarna er persóna Clints að sýna á sér nýja hlið. Eitt svona einfalt atriði breytir því öllum skilningi okkar á persónu Clints og gefur honum aðra vídd. Þó þetta hljómi kannski klisjukennt þá virkar þetta og er frábærlega útsett.
Mér fannst líka flott hvernig Leone kemur aukapersónum fyrir í myndinni. Fyrir mér er þar minnistæðastur liðsforinginn frá Norðurríkjunum sem hefur það hlutverk að ná brú sem höfuðstöðvarnar hafa ákveðið að sé mikilvæg. Þegar hinn góði og hinn ljóti koma til hans sem sjálfboðaliðar segir hann þeim frá draumi sínum um að sprengja brúna og enda þar með hið tilgangslausa blóðbað sem þarna stendur yfir. Liðsforinginn fær ekki mikinn tíma í myndinni og gegnir ekki stóru hlutverki upp á framgang sögunnar sjálfrar en samt tekst Leone að gera hann einn af minnistæðari persónunum. Þessi "útúrdúr" frá sjálfri sögunni sýnir líka eina af skoðunum Leones sem hann vildi koma á framfæri í myndinni en borgarastríðið eins og það kemur fram í myndinni er heimskulegt og tilgangslaust og þjónar engum góðum tilgangi.
Svo er gaman að sjá hvernig Leone málar upp persónurnar í myndinni með því að koma þeim í mismunandi aðstæður. Eli Wallach, sem leikur hinn ljóta, er til dæmis fús til að drepa persónu Eastwoods en um leið og hann þarf á honum að halda til að finna fjársjóðinn þá eru þeir bestu vinir. Við fáum svo strax að vita hversu kaldrifjaður Van Cleef er í byrjun myndarinnar þar sem hann myrðir nokkra menn bara vegna peninganna.
Myndin var tekin upp á Spáni og sá einræðisherrann Franco ekkert að því og lánaði meira að segja 1500 hermenn til að leika í myndinni. Í raun eru það bara þremenningarnir sem tala ensku í myndinni en þeir voru döbbaðir á ítölsku fyrir frumsýninguna í Róm árið 1966. Allir aðrir aukaleikarar töluðu sína eigin tungu og þurfti að tala inn fyrir þá eftir á þegar kom að bandarísku útgáfunni. Í raun var allt hljóð tekið upp eftir á en Leone hafði þann sið vanalega á í sínum myndum. Það gætu hafa verið hin mörgu víðu skot sem hafa orðið til þess en einnig hrópaði hann oft til leikaranna. Honum fannst myndræna hliðin skipta meira máli en hljóðið.
Kvikmyndin The Good, the Bad and the Ugly er meistaraverk að mínu mati. Hún er ekki stutt, um tveir og hálfur tími í bandarísku útgáfunni en fimmtán mínútum lengri í hinni upprunalegu. Á þessum tíma sleppur hún manni hins vegar aldrei og lokasenurnar í myndinni eru magnaðar. Þetta er kvikmynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Wednesday, April 16, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Tek undir það. Snilldarmynd og mögnuð tónlist. Ég skellti soundtrackinu einmitt á fóninn þegar ég byrjaði að lesa þessa færslu, og þetta er skrifað undir ómþýðum hljómum Ennio Morricone.
8½ stig.
Post a Comment