Monday, April 14, 2008

Tropa de Elite

Seinasta föstudag kíkti ég með bróður mínum á svokallaða Bíódaga Græna ljóssins í Regnboganum. Þar sá ég brasilísku myndina Tropa de Elite en hún vann Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í ár.

Kvikmyndin er frá því í fyrra og fjallar um lögreglumanninn Nascimento í brasilísku sérsveitinni BOPE sem starfar í Rio de Janeiro. Þetta er úrvalssveit afar harðgerra lögreglumanna sem sérhæfa sig í manndrápum og lögreglustörfum í grófari kantinum. Nascimento er einn sá allra harðasti þeirra en þó er einn hængur á. Kærasta hans á von á sér og hann sér ekki fyrir sér að hann eigi eftir að hafa nokkurn tíma fyrir konu sína og son. Því ákveður hann að leggja skóna á hilluna en fyrst þarf hann að finna verðugan eftirmann sinn.

Dópsalarnir í fátækrahverfum Rio hafa yfir að ráða gnægð skotvopna líkt og lögreglan. Þeir eru því engin lömb að leika sér við og lögreglan fæst við þá á mismunandi hátt. Margir lögreglumenn láta múta sér, aðrir selja dópsölunum skotvopn. Enn aðrir eru heiðarlegir en þeir lenda líka oftast í klandri. En þegar lögreglan lendir í klandri í fátækrahverfunum, þá er kallað á BOPE sérsveitina til að redda málunum.

Það er einmitt þannig sem Nascimento kynnist tveimur heiðarlegum lögreglumönnum sem koma báðir til greina sem eftirmenn hans. Annar þeirra, algjör harðhaus, virðist rétti maðurinn en stígur þó ekki í vitið. Hinn er snjallari en lendir í kröppum dansi þegar hann byrjar að deita vinkonu dópsala. Þá er bara spurningin hvor verður fyrir valinu og hvort hann sé verðugur eftirmaður Nascimento.


Handrit myndarinnar var vel uppbyggt. Myndin byrjar á atriði sem gerist í raun í miðri mynd og fyrri hluti myndarinnar byggir svo upp að því atriði. Seinni hluti myndarinnar verður svo ansi spennandi en í gegnum alla myndina er Nascimento sögumaður. Lögreglumennirnir tveir eru strax kynntir til sögunnar í byrjun myndarinnar og manni er strax ljóst að Nascimento og þeir muni tengjast einhvern veginn. Þetta gerir það að verkum að maður fylgist spenntur með framdrætti sögunnar.

Meginþráður myndarinnar er hin mörgu fátækrahverfi Rio, dópsalan sem þar lýðst og hvernig lögreglan fer með þessi mál. Myndin opnar á vissan hátt upp heim sem aldrei er getið í fjölmiðlum vesturlanda og í myndinni er velt upp mismunandi sjónarhornum á samskipti lögreglunnar og íbúa fátækrahverfanna. Frá sjónarhorni fólksins ræðst lögreglan inn á saklaust fólkið og misþyrmir því en frá lögreglunni séð eru það dópsalarnir sem eiga upptökin.

Myndin einkenndist samt fyrst og fremst af miklu ofbeldi. Til að mynda eru nokkrum sinnum svokallaðar pokayfirheyrslur, þar sem poka er skellt yfir höfuð fórnarlambsins þar til það er að því komið að kafna og blæða tekur úr andliti þess. Ofan á þetta bættust svo skotbardagar og aftökur hverri annari ógeðfelldari. Atriðin voru þó áhorfanleg, ég neyddist ekki beint til að líta undan en þau voru þó mörg af grófari gerðinni. Þau voru samt sem áður ekki jafn nastí og til dæmis atriðið í byrjun American History X, með svarta manninum sem er látinn bíta í gangstéttina. Fyrirgefið mér fyrir að minnast á það.

Þó var of mikið af ofbeldi í myndinni og það hefði mátt sleppa allavegana því allra óhuggulegasta. Kannski gefur það raunsæislegri mynd og sýnir raunverulegu hörkuna sem ríkir í aðstæðum eins og í myndinni en það hefði mátt gefa frekar í skyn frekar en að sýna allan pakkann í mynd. Það virtist nefnilega einkenna ofbeldisatriðin að allt var sýnt í mynd. Þarna var leikstjórinn kannski að reyna að skapa myndinni ákveðna sérstöðu og vekja upp viðbrögð hjá áhorfendum en það tókst jú hjá honum, samanber þetta blogg.

Nú, þegar talað er um "brasilíska mynd" og "mikið af ofbeldi" þá hugsa menn eflaust um myndina Borg guðs. Því miður er ég óhæfur til að framkvæma samanburð á henni og þessari, þar sem ég hef enn ekki séð þá mynd. Þar fór það fyrir lítið. Það er samt ljóst að ég verð að fara að sjá þá mynd.

Nú, Tropa de Elite fékk Gullbjörninn og það hefur varla verið að ástæðulausu. Eins og ég sagði er handritið vel uppbyggt og myndin er einnig vel leikin. Eins og svo oft áður sannast það að góðir leikarar eru alls staðar og oft sem þeir standa sig mun betur en Hollívúdd stjörnurnar. En auðvitað er engin ástæða til að búast við því að Hollívúdd stjörnum bregði fyrir í brasilískri mynd.

Svo vekur myndin óneitanlega sterk viðbrögð hjá áhorfendum og eins og ég nefndi opnar þetta upp heim sem maður hefur ekki kynnst áður. Myndin vekur um leið upp spurningar um siðferði lögreglunnar og almennt ástand í fátækrahverfum heimsins. Líkt og Borg guðs gerir að því er ég held. Tropa de Elite er fínasta mynd en ofbeldið í henni gæti verið of mikið fyrir suma.

1 comment:

Siggi Palli said...

Mjög fín færsla og greinilega mynd sem maður ætti að kíkja á. Persónulega fannst mér nú ofbeldið í Borg guðs ekki vera neitt yfirgengilegt, þó það væri vissulega til staðar.

8 stig.