Wednesday, February 20, 2008

Killer of Sheep

Killer of Sheep er kvikmynd frá árinu 1977. Hún var lokaverkefni leikstjórans Charles Burnett frá kvikmyndadeild Háskólans í Kaliforníu.

Kvikmyndin fjallar um svartan mann, Stan, og fjölskyldu hans í úthverfinu Watts í Los Angeles. Hann vinnur í sláturhúsi og er þaðan vissulega kominn titill myndarinnar. Hann þjáist af lífsleiða og þunglyndi vegna þess hversu einhæft líf hans er. Lífsbaráttan er hörð og reynir Stan með erfiðleikum að hefja sig upp úr fátæktinni en kona hans reynir um leið að endurvekja áhuga hans á lífinu og rífa hann upp úr þunglyndinu.


Í myndinni fylgjumst við með daglegu lífi fjölskyldunnar og fáum raunsæa mynd af því hvernig raunverulegt líf fátæks fólks var í úthverfum stórborga Bandaríkjanna. Það gerist alls ekki mikið í myndinni og á það vafalítið að lýsa tómleika og vonleysi fátækrahverfisins.

Burnett notaðist við áhugaleikara og í þessari mynd tókst það vel upp. Í raun voru kröfur til leikaranna í þessari mynd ekki miklar, lítið um samtöl og slíkt. En mér fannst leikurunum takast vel upp með að skapa stemmingu og almennt séð fannst mér þeir standa sig vel.

Ekki voru þó allir á eitt sáttir með þessa mynd. Margir töluðu um að hún hefðu bókstaflega ekki verið um neitt og að ekkert hefði gerst. Ég hugsa að allir geti viðurkennt að það er lítið sem beint "gerist" í myndinni. En hins vegar finnst mér hún samt sem áður um margt merkileg. Hún sýnir manni heim sem maður hefði annars aldrei kynnst og gefur manni hann svo að segja umbúðalaust. Fyrir utan það fannst mér t.d. myndatakan á tímum mjög flott og tónlistin passaði ótrúlega vel við myndina.

Talandi um tónlistina, þá ætlaði Burnett ekki aðeins að sýna brot úr lífi svarts fólks í úthverfunum, heldur átti tónlistin líka að spanna sögu svartrar tónlistar í Bandaríkjunum. Hann valdi ýmis stór nöfn úr tónlistarbransanum en um leið varð tónlistarrétturinn fyrir myndina óheyrilega dýr. Þó að Burnett hafi klárað myndina 1977 og skilað henni sem lokaverkefni það ár, kom myndin ekki í kvikmyndahús fyrr en árið 2007. Það var þá sem loksins tókst að safna nægu fé til að tryggja réttinn á tónlistinni fyrir myndina.

Myndin er geymd sérstaklega í Bókasafni þingsins í Bandaríkjunum vegna menningarlegs gildis hennar. Það hlýtur að segja okkur eitthvað, og þó að Killer of Sheep sé svolítið erfið að kyngja er það margt sem gerir hana góða og merkilega kvikmynd.