Friday, December 7, 2007

Enn og aftur - topp tíu!

Jæja, nú er ég loksins að detta í þrjátíu færslur. Ég ætla að ljúka þessu með tveimur myndum af hinum fræga topp tíu lista, Pan's Labyrinth og The Untouchables. Ég ætla að geyma Shawshank Redemption og The Good, The Bad and The Ugly allavegana þangað til ég sé þær aftur en ég stefni á það í jólafríinu og á næsta ári.

Sem sagt, næstseinasta færslan! Spennan er magnþrungin.

Pan's Labyrinth

Þessi mynd er algjörlega brilljant. Hún er frá 2006 og er eftir leikstjórann Guillermo del Toro. Hún fjallar um unga stelpu sem fer inn í eins konar ævintýraheim til að sleppa frá hörmungum borgarastríðsins á Spáni. Fósturpabbi hennar er háttsettur og vægast sagt miskunnarlaus foringi fasista.

Mér fannst lýsingin á þessari mynd strax mjög spennandi. Að sjálfsögðu fylgdu með góðir dómar gagnrýnenda og þetta tvennt lét mig gera það að markmiði mínu að sjá þessa mynd.

Sagan sem er sögð og útfærslan á henni í myndinni er hvor tveggja frábær. Ævintýraheimurinn gefur leikstjóranum að mörgu leyti lausan tauminn og del Toro tekst mjög vel upp í að skapa hann. Sem dæmi er þessi vera sem er heldur betur skelfileg:


Stelpan sem leikur aðalhlutverkið stendur sig mjög vel en einnig aðrir leikarar, m.a. sá sem leikur Pan sjálfan. Leikstjórinn nær áhorfandanum algjörlega á sitt vald, við erum hrædd þegar við eigum að vera hrædd og glöð þegar við eigum að vera glöð. Á stundum er myndin helst til gróf en þannig kemst líka miskunnarleysið og ógnin til skila.

Þessi mynd er sannkallað meistaraverk. Sjáið hana.

1 comment:

Siggi Palli said...

Sammála. Æðisleg mynd. Mæli með að menn kíki líka á Cronos og Devil's Backbone eftir sama leikstjóra. Báðar mjög góðar.