Wednesday, April 16, 2008

Stuttmyndaumsögn

Umsögnin hans Sigga um stuttmyndina Endurfundir:

Margt ansi fyndið. Ég er samt ekki alveg viss hvort hún haldi dampi. Stundum fannst mér þessi brandari - Aron og Eyjólfur að leika gamla kalla með "porn-'staches" - vera að tapa töfrunum, en þá kom eitthvað annað, eins og þessi stórkostlegu "ljóð". Á heildina var hún ansi skemmtileg. Varðandi útisenuna, þá hefði mátt reyna meira að laga hljóðið í henni (annað hvort að nota low-pass filterinn á hljóðnemanum, eða einhvern álíka filter í tölvunni), það hefði átt að ná einhverju af bílahljóðinu í upphafi þeirrar senu. Ég er svolítið á báðum áttum með þessa. Mér finnst hún ekki alveg jafnmikið "bíó" og hinar myndirnar, þ.e. mér finnst efnistökin svolítið "plain", og eins og þið séuð ekki að vinna úr efninu alveg eins myndrænt og ég hefði viljað.


Við skulum kryfja þessa umsögn aðeins til mergjar:

1. Siggi segir að það hafi verið þreyttur brandari að nota þessi "porn-staches".

Hugmyndin var fyrst að láta Aron vera bara með skegg en svo ákváðum við að taka þetta alla leið og í lokin enduðu allir karakterarnir, nema Alexandra, með skegg. Skeggin voru ekki hugsuð sem brandari heldur áttu þau að hjálpa til við að breyta okkur í karakterana í myndinni. Við sáum strax að þau væru fyndin og ákváðum þess vegna að taka þetta alla leið. Þetta var skemmtileg hugmynd og á viðbrögðunum heyrðist mér að mönnum fyndist hún skemmtileg. Stuttmyndin var hugsuð sem skemmtun og mér sýnist þetta hafa virkað. Eða þurftu allir að gera þvílíkt alvarlegar myndir með pælingum um rúm og tíma? Nota bene, ég er ekki að tala illa um þær myndir, við ákváðum bara að fara aðra leið með þetta.

2. Hljóðið í útisenunni og tæknileg atriði.

Ókei, það er erfitt að ætla að afsaka þetta. Auðvitað var þetta endalausa vesen með Soundtrack og allt það en það afsakar ekkert. En er þetta ástæða til að draga myndina svona mikið niður? Siggi talaði líka um tæknilegu hliðina á myndinni, en ef litið er á annað hljóð í myndinni þá er allt saman frekar skýrt og greinilegt. Ef litið er á klippinguna tekst hún nokkuð vel í myndinni. Það var smá vesen með birtuna í montage atriðinu en annars enginn lýsingarvandamál. Auðvitað hefði verið betra að vera með kastara og allt það en er hægt að ætlast til þess að við höfum tök á því? Persónulega fannst mér til dæmis skiptingin úr montage atriðinu yfir í það næsta vel heppnuð.

3. Ekki unnið eins myndrænt úr okkar efni.

Okkar senur voru frekar plain, ég viðurkenni það. En af hverju þarf það að vera mikið verra en hitt? Okkar efni bauð ekki upp á mikið af eltingarleikjum eða tæknibrellum. Myndin byggðist upp á samtölum og þar með einkenndist myndatakan af því.

4. Sagan og uppbygging myndarinnar

Okkar hópur ákvað að reyna að gera öðruvísi mynd en aðrir hóparnir myndu gera. Við ákváðum að byggja myndina upp þannig að rammi yrði um meginsögu myndarinnar. Við vildum í raun að áhorfandinn gæti gleymt sér í aðalsögunni en þegar sagan risi sem hæst yrði hann togaður aftur í nútímann, sem væri þá kaffiboð vinanna tveggja. Svo má hver dæma um enda myndarinnar en hann átti í raun að vera absúrd og koma kannski á óvart. Þessi uppbygging fannst okkur allavegana skemmtileg og í óvenjulegara lagi, auk þess sem áhorfandinn bíst kannski við öðru í byrjun myndarinnar þegar kaffiboðið hefst.

Mér finnst Siggi hafa einblínt of mikið á tæknilegu atriði myndanna. Hann mætti taka betur inn í reikninginn bæði sögulega uppbyggingu myndanna og sjálft skemmtanagildi.

The Good, the Bad and the Ugly

The Good, the Bad and the Ugly er vestri frá árinu 1966. Kvikmyndinni var leikstýrt af Sergio Leone og hún er ein af frægari myndum sögunnar.

Myndin er sú síðasta í hinum svokallaða dollara-þríleik sem Sergio Leone leikstýrði en allar þrjár myndirnar skörtuðu Clint Eastwood í aðalhlutverki. Þessar myndir eru hinir eiginlegu spagettívestrar en þær eru kallaðar svo vegna þess að þær voru framleiddar af ítölskum myndverum. Þessi seinasta mynd í þríleiknum hafði þó óvenju hátt "budget" og United Artists komu að framleiðslu hennar, ólíkt hinum tveimur myndunum.

Kvikmyndin fjallar um þrjá glæpona sem eru afar færir með sexhleypurnar og eru það þeir þrír sem átt er við í titli myndarinnar. Myndin gerist á tíma þrælastríðsins en þeir girnast allir og eltast við mikinn fjársjóð sem er grafinn í kirkjugarði. Auðvitað hugsar hver um sig en samt tvinnast leiðir þeirra saman og í leit sinni að fjársjóðnum lenda þeir meðal annars í miðri orrustu og fangabúðum Norðurríkjanna.

Það er margt sem gerir þessa mynd frábæra. Eitt af því frægasta er auðvitað tónlistin eftir Ennio Morricone. Hérna er smá tóndæmi:


Þetta er eitt frægasta titillag kvikmyndasögunnar og Leone notar þetta stef óspart í gegnum myndina en ávallt í kringum aðalpersónurnar. Morricone notar um leið mismunandi hljóðfæri fyrir hvern þremenninganna. Mér finnst stefið þó aldrei verða þreytt enda ógnargott stef þarna á ferðinni.

Það sem Morricone gerir er að nota oft sömu stefin en mismunandi tilbrigði við þau. Þannig eru í raun tvö meginstef í myndinn sem koma aftur og aftur fyrir. Leone notar líka tónlistina á mjög skemmtilegan hátt í atriði þar sem tveir þremenninganna eru teknir sem fangar. Þar er "fangahljómsveit" látin spila lag og syngja til að ekki heyrist að það sé verið að lúberja mann í kofa eins foringjanna. Hinir fangarnir vita svo af því að maðurinn inni stendur undir barsmíðum svo lengi sem lagið stendur yfir. Lagið er "Story of a Soldier" og hérna er það eins og það heyrðist í myndinni en augljóslega er myndskeiðið ekki úr myndinni:


Til gamans má svo geta að plata með lögum úr myndinni náði 4. sæti á Billboard-vinsældalistanum og titillagið sló í gegn árið 1968.

Myndin er einnig afar flott myndrænt séð. Leone notar gjarnan víðáttumikil skot sem sýna um leið þurrt og drungalegt landslagið í kring. Einnig eru mörg mjög flott skot í myndinni og má þar nefna atriðið í blábyrjun myndarinnar þegar hinn vondi er kynntur til leiks. Þar er myndavélin á sama stað á meðan Lee van Cleef, sem leikur hinn vonda, gengur ískaldur út úr húsinu þar sem hann er nýbúinn að drepa mann. Erfitt að lýsa atriðinu svo það skiljist en ég fann það því miður ekki á youtube. Horfið bara á myndina og þá fattast þetta.

Myndatökunni tekst í myndinni að færa okkur nær persónunum. Hérna er gott dæmi um það:


Þetta atriði fannst mér mjög minnisstætt, bæði af því að það er í svo mikilli mótsögn við allt ofbeldið í myndinni en einnig af því að þarna er persóna Clints að sýna á sér nýja hlið. Eitt svona einfalt atriði breytir því öllum skilningi okkar á persónu Clints og gefur honum aðra vídd. Þó þetta hljómi kannski klisjukennt þá virkar þetta og er frábærlega útsett.

Mér fannst líka flott hvernig Leone kemur aukapersónum fyrir í myndinni. Fyrir mér er þar minnistæðastur liðsforinginn frá Norðurríkjunum sem hefur það hlutverk að ná brú sem höfuðstöðvarnar hafa ákveðið að sé mikilvæg. Þegar hinn góði og hinn ljóti koma til hans sem sjálfboðaliðar segir hann þeim frá draumi sínum um að sprengja brúna og enda þar með hið tilgangslausa blóðbað sem þarna stendur yfir. Liðsforinginn fær ekki mikinn tíma í myndinni og gegnir ekki stóru hlutverki upp á framgang sögunnar sjálfrar en samt tekst Leone að gera hann einn af minnistæðari persónunum. Þessi "útúrdúr" frá sjálfri sögunni sýnir líka eina af skoðunum Leones sem hann vildi koma á framfæri í myndinni en borgarastríðið eins og það kemur fram í myndinni er heimskulegt og tilgangslaust og þjónar engum góðum tilgangi.

Svo er gaman að sjá hvernig Leone málar upp persónurnar í myndinni með því að koma þeim í mismunandi aðstæður. Eli Wallach, sem leikur hinn ljóta, er til dæmis fús til að drepa persónu Eastwoods en um leið og hann þarf á honum að halda til að finna fjársjóðinn þá eru þeir bestu vinir. Við fáum svo strax að vita hversu kaldrifjaður Van Cleef er í byrjun myndarinnar þar sem hann myrðir nokkra menn bara vegna peninganna.

Myndin var tekin upp á Spáni og sá einræðisherrann Franco ekkert að því og lánaði meira að segja 1500 hermenn til að leika í myndinni. Í raun eru það bara þremenningarnir sem tala ensku í myndinni en þeir voru döbbaðir á ítölsku fyrir frumsýninguna í Róm árið 1966. Allir aðrir aukaleikarar töluðu sína eigin tungu og þurfti að tala inn fyrir þá eftir á þegar kom að bandarísku útgáfunni. Í raun var allt hljóð tekið upp eftir á en Leone hafði þann sið vanalega á í sínum myndum. Það gætu hafa verið hin mörgu víðu skot sem hafa orðið til þess en einnig hrópaði hann oft til leikaranna. Honum fannst myndræna hliðin skipta meira máli en hljóðið.

Kvikmyndin The Good, the Bad and the Ugly er meistaraverk að mínu mati. Hún er ekki stutt, um tveir og hálfur tími í bandarísku útgáfunni en fimmtán mínútum lengri í hinni upprunalegu. Á þessum tíma sleppur hún manni hins vegar aldrei og lokasenurnar í myndinni eru magnaðar. Þetta er kvikmynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Umsögn um námskeiðið

Á heildina litið fannst mér námskeiðið heppnast mjög vel. Siggi kom með blöndu af kvikmyndasögu og almennri gerð kvikmynda og svo fengum við auðvitað að spreyta okkur sjálfir líka í stuttmyndagerð. Mér fannst allir þessir þættir skemmtilegir, nema kannski síst aðferðafræðin í sambandi við handrit enda voru þessi fræði stundum á mörkunum að vera marktæk, eins og Siggi sagði sjálfur (Robert McKee, einhver?).

Einnig sá ég mikið af eldri myndum í þessu námskeiði sem ég hefði annars líklega ekki séð. Þar má nefna 8 1/2, The General og La Regle de Jeu. Auðvitað voru skoðanir manna á þessum myndum mismunandi en mér fannst flestar mjög áhugaverðar og ég er þeirrar skoðunar að maður þurfi alltaf að reyna að víkka sjóndeildarhringinn og horfa á eitthvað óhefðbundið og sögulega mikilvægt. Jafnvel þó að manni finnist ákveðin mynd ekkert sérstaklega skemmtileg er oft hægt að læra eitthvað af henni.

Mér fannst líka gott hvernig Siggi breytti um stefnu eftir jól og fór að sýna nýrri myndir. Þær gegndu ekkert endilega mikilvægum hlutverkum í kvikmyndasögunni en þetta voru myndir sem sýndu manni eitthvað sem maður hafði kannski ekkert endilega kynnst. Til dæmis þekkti ég lítið sem ekkert asískar myndir fyrir utan einhverjar myndir Kurosawa.

Mér fannst hápunktarnir í kvikmyndasýningunum vera myndirnar Sjöunda innsiglið (sem ég sá reyndar tvisvar með viku millibili vegna fyrirlestrar okkar Emils og Andrésar um Ingmar Bergman), Happy End og Devil's Backbone. Einhverjum finnst seinasta valið kannski eitthvað tæpt en mér finnst stíllinn hans Guillermo del Toro frábær og þessi töfraraunsæis fílingur frábær. Sjöunda innsiglið er náttúrlega tímalaust meistaraverk, svo maður dragi ekkert úr, og Happy End var líka góð. Ég meina, mynd sem gerist öll afturábak? Það er bara snilld.

Tæknilegu atriðin sem Siggi fór í í sambandi við klippingu mynda og uppbyggingu atriða voru mjög fræðandi. Þarna fékk maður að vita nokkur grunnatriði og þau hjálpuðu töluvert þegar við fórum að taka upp stuttmyndirnar. Það var líka gaman að fá að vita mörg þessara atriða og fatta að maður vissi í raun af þeim óafvitandi. Sum þeirra, eins og til að mynda að klippa á hreyfingu, eru svo oft notuð að maður er gjörsamlega vanur þeim. Í rauninni hefði maður ábyggilega gert það ósjálfrátt í stuttmyndinni án þess að okkur hefði verið kennt það sérstaklega. Maður hefði allavegana fattað það smám saman með því að prófa sig áfram.

Fyrirlestrarnir voru skemmtilegir og opnuðu fyrir manni ýmislegt varðandi merkilega leikstjóra og kvikmyndir. Minn hópur gerði fyrirlestra um Ingmar Bergman og Bollívúdd myndir. Sérstaklega fannst mér gaman að kynnast Bergman svona vel en ég hafði ekkert vitað um hann áður.

Blogghluti námskeiðisins hafði sína kosti og galla. Í rauninni er þetta auðveld leið fyrir nemendur til að næla sér í kennaraeinkunn en það er kannski aðallega útfærsla hugmyndarinnar sem mætti laga. Mér fannst ágætt fyrir jól að hafa þrjátíu færslur og einhvern lágmarksfjölda orða. Hins vegar launar það ekki þá sem leggja metnað í bloggið og skrifa langar og góðar færslur. Ég held því að stigagjöfin sé málið en í fyrstu var hún kannski heldur lág. Núna hefur reyndar Siggi gefið okkur aðeins meiri séns og er orðinn gjöfullri á stig. Ég hugsa að eins og stigagjöfin er núna sé rétta leiðin til að fara. Ef að menn vilja þá geta þeir farið þá leið að skrifa mörg blogg með færri orðum en einnig geta menn skrifað færri blogg og lengri og betri færslur. Svo er þetta líka algjörlega undir mönnum komið hvort þeir standi sig í blogginu eður ei. Ég hef til dæmis verið heldur latur eftir jól og fæ að súpa seyðið af því núna. Blogghugmyndin var því ágæt og í rauninni fær hún mann til að spá meira í myndunum sem maður horfir á. Ef maður ætlar sér að blogga um mynd þá reynir maður um leið að taka betur eftir myndinni og pæla í henni.

Stuttmyndamaraþonið var mjög skemmtilegt. Það gaf manni góða æfingu með myndavélina og allt sem fylgir því að taka upp. Það var líka frábær stemming að vera í hóp og taka upp stuttmynd. Ég hugsa að ég hafi líklega ekki gert neitt verkefni í MR sem var svona gaman að framkvæma. Svo er auðvitað gaman að eiga eitthvað eftir sig sem maður nennir að horfa á seinna. Þó að maður skrifi til dæmis íslenskuritgerð er afar ólíklegt að maður nenni að lesa hana nokkurn tímann aftur. Öðru máli gegnir um stuttmynd og ég hugsa að hún eigi eftir nokkur ár að minna mann vel á menntaskólaárin.

Í seinni stuttmyndinni var klippitölvan komin og um leið færðist þetta á hærra stig en áður. Þar fékk ég að kynnast í fyrsta sinn því að klippa alvöru stuttmynd og uppgötvaði hversu fáránlega gaman það var. Reyndar dundaði ég mér einhvern tímann fyrir mörgum árum að búa til teiknimyndir í tölvu en það var nú bara eitthvað flipp. Minn hópur fékk svo sannarlega að kynnast erfiðleikunum sem geta fylgt því að taka upp. Það mætti kalla þetta okkar eldskírn í stuttmyndagerð. Fyrri helgina sem við tókum upp var nokkurra stiga frost og snjór. Við tókum upp á því að festa bílana okkar nokkrum sinnum og þegar við ætluðum að taka upp inniskot í kofa nokkrum kom í ljós að þar var engin kynding og því allt of kalt til að taka nokkuð upp. Við tókum reyndar upp einhver atriði en í samtölunum sást greinilega hvernig gufan steig upp af leikurunum þegar þeir töluðu. Handritið okkar var líka of gloppótt og við vissum ekki nógu skýrt hvert við vildum fara með þetta. Í staðinn hentum við því sem við höfðum tekið upp og tókum upp nýja stuttmynd frá grunni. Það tókst á einum degi en þar fengum við að kynnast því þegar tökur ganga virkilega vel og hratt fyrir sig. Stuttmyndahlutinn af námskeiðinu var í senn bæði fræðandi og skemmtilegur og þetta er hluti sem er algjörlega ómissandi í námskeiðinu.

Leikstjóraheimsóknirnar fannst mér vera punkturinn yfir i-ið. Þarna fengum við að kynnast mismunandi leikstjórum og mismunandi viðhorfum þeirra. Við fengum að skyggjast yfir í heim kvikmyndagerðar á Íslandi og það frá bæði fólki eins og Guðnýju Halldórsdóttur, sem er auðvitað reynslubolti, og mönnum eins og Ólafi "le Fleur", sem eru að koma ferskir inn í þetta. Og þessi heimur íslenskrar kvikmyndagerðar einkennist auðvitað af miklu basli og litlum fjármunum. Mér fannst þetta einn skemmtilegasti hluti námskeiðisins og frábærlega til fundið. Við gátum forvitnast um hvað sem við vildum, hvort sem það var í sambandi við myndirnar eða almennt um bransann á Íslandi. Það má segja að heimsóknirnar hafi bæði virkað sem hvatning og viðvörun, því þarna fékk maður að vita svart á hvítu hversu erfiður geiri þetta er á Íslandi en um leið hversu ótrúlega skemmtilegur og áhugaverður hann getur verið. Ég er reyndar enn þá í einhverjum pælingum um að halda áfram út í þennan bransa. Ég er ekki harðákveðinn í neinu framhaldi eftir MR og gæti vel hugsað mér að vinna við þennan bransa, hvort sem það sé sem hljóðmaður, dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi eða leikstjóri. Við sjáum bara til hvað gerist með það.

Gallar námskeiðisins eru ekki margir. Stundum meikaði maður varla að mæta eftir skóla á mánudögum að horfa á mynd en auðvitað lét maður sig hafa það langoftast. Og oftast sá ég nú ekki eftir því. Það er nú samt bara spurning um viljastyrk og engin ástæða til að breyta einhverju með þær, menn verða bara að sættast á einhverja tímasetningu. Mér fannst handritarausið hans McKees frekar vitlaust en Siggi sagði okkur líka að taka ekki of mikið mark á því. Það mætti kannski fara örlítið minna í það. Mér finnst að það hefði mátt fara aðeins meira í klippingu, því það er svo stór partur af kvikmyndaprósessinu. Svo hef ég víst verið að kvarta undan því hve mikið sé að gera í námskeiðinu. Þar er samt líklega um að kenna mér og mínu skipulagsleysi.

Allt í allt var kvikmyndagerð skemmtilegasta fagið sem ég hef farið í í MR. Það kynnti fyrir mér eitthvað annað og öðruvísi en mér hafði verið kennt fyrstu þrjú árin í MR. Það kom inn á eitthvað sem þú lærir almennt ekki í þessum skóla, eitthvað óhefðbundnara námsefni en stærðfræði og efnafræði. Þetta fag opnaði virkilega fyrir mér margt sem ég hefði annars ekki kynnst, bæði hvað varðar kvikmyndasöguna, áhugaverðar kvikmyndir og auðvitað sjálfa kvikmyndagerðina.

Þetta er búið að vera gaman!

Takk fyrir mig.

Tuesday, April 15, 2008

Afríski bransinn

Kvikmyndageirinn í Afríku hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu hérna á Íslandi. Ég veit afar lítið um þennan geira í Afríku, sem þó er bæði næstfjölmennasta og næststærsta heimsálfa Jarðar. Þegar ég ákvað að kíkja betur á þetta, komu í ljós ýmsar ástæður fyrir litlu kvikmyndahefð.

Þegar ég leitaði á netinu að upplýsingum um afríska kvikmyndahefð fann ég í fyrstu lítið sem ekkert. Þó kom að því að ég rakst á þessa áhugaverðu síðu en fann líka síður á Wikipedíu um Nollywood og afríska kvikmyndagerð.
Hvað veldur því samt að afríski kvikmyndageirinn er ekki stærri en þetta? Hver er bakgrunnur afrískrar kvikmyndagerðar? Við skulum skoða þetta aðeins nánar og byrja á því að setja þetta í sögulegt samhengi.


Ágrip af sögu afrískrar kvikmyndagerðar

Byrjum á bakgrunninum, a la Gummi sögukennari:

Á seinni hluta nítjándu aldar komst nýlendustefnan aftur í tísku á vesturlöndum og nú var það Afríka sem var næsti stóri bitinn. Á þessum tíma talst ríki ekki til stórvelda án þess að ráða yfir nýlendum og öll helstu stórveldin vildu bita af kökunni. Því var langmestum hluta Afríku skipt upp á milli stærstu Evrópuríkjanna. Þetta hafði í för með sér niðurlægingu og misnotkun Afríkubúa og afrískrar menningar. Um miðja tuttugustu öldina fóru þó ýmis afrísk ríki að krefjast sjálfstæðis og mörg hver hlutu það. Hins vegar fylgdi oft í kjölfarið borgarastríð á milli mismunandi trúarhópa eða þjóðarbrota innan ríkjanna. Þessi stríð gátu staðið áratugana á enda og gjöreyðilögðu oft innri byggingu og skipulag ríkjanna. Enn þann dag í dag geysa borgarastríð í Afríku og sums staðar sér ekki fyrir endann á þessum deilum. Og þá á eftir að nefna hungursneyðir og hörmungar sem dynja á ári hverju yfir ýmis ríki álfunnar.

Með þennan bakgrunn í huga er ekki skrítið að afrísk kvikmyndagerð skuli ekki vera komin lengra en hún er komin. Í umhverfi þar sem geysir stríð og hungur og innri bygging samfélagsins er í molum er erfitt að koma sér að því að gera kvikmyndir. En viðfangsefnin eru svo sannarlega til staðar og mikil þörf á að athygli verði vakin á þeim, má þar nefna alnæmisfaraldurinn og borgarastyrjaldir. Stundum er sagt að mestu listaverkin verði til vegna erfiðra aðstæðna og hörmunga og hvort tveggja er vissulega til staðar í Afríku. Þetta er þó einungis orðatiltæki og enn fremur djarft að setja afríska kvikmyndagerð í slíkt samhengi þar sem forsendurnar fyrir kvikmyndagerð eru varla til staðar í álfunni.

En þá að sjálfri kvikmyndagerðinni:

Á nýlendutímanum gerðu ýmsir vestrænir kvikmyndagerðamenn myndir sem gerðust í Afríku og má þar nefna Tarzan og nokkrar myndir gerðar eftir bókinni Námur Salómons konungs. Í vestrænum myndum þessa tíma var Afríka þó tekin fyrir á afar einfeldningslegan hátt og hún gefin út fyrir að hafa enga menningu eða sögu. Þetta er auðvitað dæmigert fyrir undirokunina sem fólst í nýlendustefnu vesturlanda. Kvikmyndagerð sjálfra Afríkubúa á nýlenduskeiðinu var nokkurn veginn engin eftir því sem ég kemst næst. Í frönsku nýlendunum var lagt hreint bann við afrískri kvikmyndagerð. Örfáar kvikmyndir sem gagnrýndu nýlendustefnuna voru gerðar á þessum tíma en þær voru gerðar af Evrópubúum og sumar bannaðar.

Eftir að mörg Afríkuríki fengu sjálfstæði um miðja öld fór loksins eitthvað að gerast í kvikmyndabransanum. Fyrsta afríska myndin til að fá alþjóðlega athygli var myndin La Noire de... eftir senegalíska leikstjórann og rithöfundinn Ousmane Sembene. Hún kom út árið 1966 og var fyrsta myndin í fullri lengd eftir leikstjóra sunnan Sahara. Hún var gerð eftir einni af smásögu Sembenes en hann hefur oft verið kallaður faðir afrískrar kvikmyndagerðar.

Ousmane Sembene

Árið 1969 var afríska kvikmyndahátíðin FESPACO haldin í fyrsta skipti. Hún er nú haldin annað hvert ár og er einn stærsti afríski menningarviðburðurinn. Á fyrstu hátíðinni voru aðeins sýndar myndir frá Afríkuríkjunum Senegal, Búrkina Fasó, Níger, Kamerún og Fílabeinsströndinni ásamt myndum frá Frakklandi og Hollandi. Fjöldi kvikmynda á hátíðinni var 23. Í annað sinn fjölgaði hins vegar Afríkuríkjunum frá fimm upp í níu og myndunum upp í 40 stykki. Hátíðin stækkaði því ár frá ári og kom skýrt fram að alvöru kvikmyndahátíð var þarna á ferðinni.

Sama ár og FESPACO var fyrst haldin var samband afrískra kvikmyndagerðarmanna, FEPACI, stofnað. Tilgangur þess var að halda utan um dreifingu, framleiðslu og sýningu afrískra kvikmynda.

Á seinni hluta tuttugustu aldar komu fram fleiri leikstjórar og kvikmyndir, oftar en ekki með strangan samfélagslegan boðskap í fararbroddi. Samt sem áður eru enn langt í land og aðstæður afar erfiðar fyrir afríska leikstjóra.


Sérstaða afrískrar kvikmyndahefðar

Á síðunni sem ég nefndi fyrst er viðtal við Ernu Beumers, sem er hollenskur sérfræðingur í afrískum kvikmyndum. Þar nefnir hún ýmislegt sem skilur afríska kvikmyndahefð frá annars konar kvikmyndahefðum.

Afríka er gríðarstór og þar búa ótal þjóðir og þjóðarbrot. Því verður að hafa í huga að mikill munur er á mismunandi þjóðum og hlutum álfunnar. Samt sem áður er ýmislegt sem margar afrískar myndir hafa sameiginlegt.

Í afrískum myndum er oft lögð minni áhersla á einstaklinginn en í vestrænum myndum. Í vestrænum myndum er oft sýnd þróun og þroski einstaklingsins út frá hans sjónarhorni en í afrískum myndum eru hlutirnir settir í stærra samhengi. Þar eru það frekar almenn samskipti á milli einstaklinga sem eru í aðalhlutverki.

Frásagnaraðferðin er líka einstök í afrískum myndum en notuð eru löng skot og mikið af náttúrumyndum ásamt því sem myndavélin hreyfist oft hægt.

Viðfangsefni myndanna hefur líka breyst í áranna rás. Í fyrstu var mikið um gagnrýni á nýlendustefnuna en nú hafa afrískir kvikmyndagerðamenn beint augum sínum að flutningi fólks úr sveitum í borgir og flutningi til vesturlanda.

Jafnvel áhorf fólks á kvikmyndir fer öðru vísi fram í Afríku en á vesturlöndum. Í Afríku horfir fólk á kvikmyndir sem hópur frekar en að sitja þögult og einbeitt. Þá lætur fólk í ljós skoðun sína á meðan á myndinni stendur og gengur inn og út úr salnum eins og því sýnist.

Það er því greinilegt að það er ýmislegt sem skilur að afrísku hefðina frá þeirri vestrænu. Afríski kvikmyndaiðnaðurinn á þó eitthvað sameiginlegt með þeim íslenska, þar sem að kvikmyndagerð í Afríku er engin gróðastarfsemi. Kvikmyndahús Afríku eru oftar en ekki tilneydd til að sýna bara Hollywood eða Bollywood myndir og því erfitt fyrir afrískar kvikmyndir að komast að. Einnig er lítið um kvikmyndahús og kvikmyndahefðin er ekki næg í afrískri menningu. Almenningur er líka almennt of fátækur til að hafa tök á að fara í bíó. Þó hefur bransinn í Nígeríu vaxið hratt á síðustu árum.


Nollywood

Kvikmyndaiðnaðurinn í Nígeríu, stundum kallaður Nollywood, er nú í sæti númer þrjú í heiminum varðandi framleiðslumagn.

Eftir að stafræn tækni þróaðist í gæðum og varð viðráðanleg í verði tóku nígerískir kvikmyndagerðamenn að tileinka sér hana og í dag er það í raun stafræni "vídjó"-iðnaðurinn í Nígeríu sem er kallaður Nollywood.

Nollywood-myndir hafa þó oft verið gagnrýndar fyrir metnaðarleysi í allri eftirvinnslu og handritum kvikmyndanna. Þetta er í raun fjöldaframleiðsla á myndum teknar upp á ódýrar vélar þar sem mestu skiptir að klára myndina og byrja á þeirri næstu. Þó hefur iðnaðurinn stækkað markvisst og vaxið á 13 árum úr engu upp í að vera atvinna þúsunda manna.

Nígerískar myndir njóta sífelld aukinna vinsælda í Nígeríu og öðrum Afríkuríkjum. Dreifing þeirra er þó frábrugðin vestrænu hefðinni. Myndir fara beint á DVD og VCD diska og eins og áður sagði eru myndirnar nánast fjöldaframleiddar. Um það bil 300 framleiðendur koma út á milli 1000 og 2000 myndum á ári. Diskarnir eru svo seldir á tvo dollara stykkið og hinn almenni Nígeríubúi hefur því efni á myndunum.

Árið 2007 var gerð heimildarmyndin Welcome to Nollywood en hún fjallar um þennan ört vaxandi iðnað.


Mín reynsla

Ég hef þó farið í bíó í Afríku og það oftar en einu sinni. Bæði fór ég nokkrum sinnum í bíó í Mapútó, höfuðborg Mósambík, þar sem ég bjó allan áttunda og níunda bekk en einnig fór ég í bíó í Suður Afríku; einu sinni í Höfðaborg og nokkrum sinnum í bænum Nelspruit.

Í Mapútó voru sýndar nokkurra ára gamlar myndir en m.a. fór ég þar á The Crow og myndina Barb Wire þar sem Pamela Anderson fer mikinn. Í Suður-Afríku voru miklu nýrri myndir sýndar og þar sá ég m.a. Terminator 3.

Ég held ég hafi séð eina afríska mynd og er það "gæðaræman" Mr. Bones. Þar leikur einn af aðalgrínistum Suður Afríku, Leon Schuster, hvítan töfralækni í leit að týndum prinsi ættbálksins. Frekar þunn gamanmynd þarna á ferðinni en samkvæmt þessari síðu virðist hún vera önnur á lista yfir tekjumestu myndir Suður Afríku, á eftir aðeins sjálfri Titanic. Suður Afríkubúar hafa greinilega kunnað að meta hana og kannski hefur hún gert eitthvað í að sameina sundurleita þjóðina eftir skelfingar apartheid-stjórnarinnar.

Kvikmyndin The Gods must be crazy kom út árið 1980 og náði nokkrum vinsældum um allan heim. Þetta er gamanmynd sem segir söguna af búskmanninum Xi sem lifir í veröld algjörlega snauðri af vestrænni menningu og hefðum. Þegar Coca-Cola flaska fellur af himnum ofan kemst allt í uppnám í ættflokknum en flöskunni var kastað úr flugvél. Xi ákveður því að leggja í leiðangur til endaloka heimsins til að eyða flöskunni.


Myndin þótti umdeild en sumir vildu meina að lýsingin á lífi og umhverfi búskmannanna og viðbrögðum þeirra við vestrænni menningu væri einfölduð og í ætt við kynþáttahyggju. Aðrir voru annarrar skoðunar og fannst myndin einmitt mæla á móti rasisma og öðrum fordómum. Hvað sem því líður öðlaðist myndin ákveðna frægð en ég á samt enn eftir að sjá hana.

Það mætti kalla þetta lélegt, að hafa búið í tvö ár í Afríku og aðeins séð eina afríska mynd í fullri lengd. Bæði var ég á gelgjuskeiðinu á þessum tíma en einnig var afar erfitt að nálgast afrískar kvikmyndir. Bæði má þar athuga það sem ég nefndi áður með dreifinguna og fjölda bandarískra og indverska mynda en líka að í Mósambík er lítill sem enginn kvikmyndaiðnaður. Landið er tiltölulega nýstigið úr borgarastríði sem eyðilagði innri byggingu þess og líf fjölda Mósambíkana.


Jæja, þá er þessari yfirferð minni yfir afrískar myndir lokið. Mér fannst forvitnilegt að kanna afríska kvikmyndagerð bæði þar sem ég bjó í Mósambík í tvö ár en einnig af því ég vissi svo lítið um afríska kvikmyndahefð. Ég fræddist heilmikið á þessu og vona að þið hafið gert slíkt hið sama.

Monday, April 14, 2008

Suspiria

Suspiria er ítölsk hryllingsmynd frá árinu 1977. Hún fjallar um bandaríska ballerínu sem kemur til Þýskalands til að hefja nám í frægum ballettskóla. Fyrr en varir fara undarlegir hlutir að gerast og hana tekur að gruna að allt sé ekki með felldu í skólanum.

Þessi mynd er oft talin ein af sígildu hryllingsmyndunum og jafnframt besta mynd leikstjórans Dario Argento. Mér fannst hún að mörgu leyti vel gerð en það voru einstaka hlutir sem mér fannst áfátt við myndina.

Ég tók strax í byrjun myndarinnar eftir notkun leikstjórans á tónlist og hljóðum í bakgrunni myndarinnar. Tónlistin var í drungalegri kantinum og ein af aðferðum leikstjórans við að skapa spennu. Um tónlistina sá ítalska hljómsveitin Goblin. Oft heyrðist sama stefið og þá var von á skelfilegu atviki. Einnig heyrðust ýmis ógnvekjandi óp og köll í bakgrunni spennuatriða. Leikstjórinn notaði þennan óp-effekt grimmt í myndinni og þar fannst mér hann veðja á réttan hest en þetta myndi líklegast kallast ansi djarft í dag.

Önnur leið leikstjórans við að skapa spennu í myndinni var að sýna röð af skotum sem ættu að virðast saklaus en þó vissi maður að það lá eitthvað að baki. Það sem ég á við er til dæmis í atriðinu þar sem ballerínurnar tvær hlusta á fótatak kennaranna. Þar klippti leikstjórinn stöðugt á milli stelpnanna og svo fóta kennaranna að ganga eftir ganginum. Fótatakið skapaði eftirvæntingu en þetta er oft notað í hryllingsmyndum. Annað dæmi er kannski þegar blindi maðurinn gengur heim á leið með hundinum sínum. Þar kemur löng röð af skotum af honum gangandi og maður veit um leið að eitthvað er á seyði.

Þó var sumu ábótavant. Myndin er frá áttunda áratugnum og þar með vantar svolítið upp á tæknilegu hliðina. Til dæmis fannst mér blóðið í myndinni líkjast einhvers konar rauðri málningu og það vakti ekki beint upp óhug hjá mér.

Örlítið óhugguleg mynd sem sýnir ágætlega gerfiblóðið/málninguna

Einnig var augljóst að talað var inn á myndina eftir á og það gat stundum verið pirrandi en þó fannst mér það lagast þegar á leið myndina. Kannski vandist ég því bara.

Leðurblakan sem ballerínan lendir í kasti við var heldur ekki sú raunverulegasta en þó fannst mér hún þjóna sínu hlutverki. Það var auðséð að þarna var ekki á ferð alvöru leðurblaka, til dæmis var hún frekar feit fyrir leðurblöku, en ég er alls ekki á því að nútíma tölvugerð leðurblaka hefði virkað betur. Kosturinn við að nota brúður í svona tilvikum er sá að þær eru mun áþreifanlegri. Með klippingu má gabba betur áhorfandann eins og leikstjórinn gerir einmitt í þessu atriði. Þar klippir hann fljótt á milli ýmist nærskota eða fjærskota og með samblandi af hljóðum vængjanna verður leðurblakan ógnvænlegri fyrir vikið.

Þrátt fyrir vankanta myndarinnar fannst mér hún ljómandi góð skemmtun. Það var aldrei dauður punktur í myndinni og handritið dreif hana áfram. Morðin fannst mér skemmtilega brútal sem og skotin af sundurskornum líkunum. Þar tókst framleiðendum myndarinnar einmitt ágætlega upp, fyrir utan reyndar blóðið eins og áður sagði.

En sem sagt, fínasta mynd og stendur bara ágætlega undir nafni sem hryllingsmynd.

Tropa de Elite

Seinasta föstudag kíkti ég með bróður mínum á svokallaða Bíódaga Græna ljóssins í Regnboganum. Þar sá ég brasilísku myndina Tropa de Elite en hún vann Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í ár.

Kvikmyndin er frá því í fyrra og fjallar um lögreglumanninn Nascimento í brasilísku sérsveitinni BOPE sem starfar í Rio de Janeiro. Þetta er úrvalssveit afar harðgerra lögreglumanna sem sérhæfa sig í manndrápum og lögreglustörfum í grófari kantinum. Nascimento er einn sá allra harðasti þeirra en þó er einn hængur á. Kærasta hans á von á sér og hann sér ekki fyrir sér að hann eigi eftir að hafa nokkurn tíma fyrir konu sína og son. Því ákveður hann að leggja skóna á hilluna en fyrst þarf hann að finna verðugan eftirmann sinn.

Dópsalarnir í fátækrahverfum Rio hafa yfir að ráða gnægð skotvopna líkt og lögreglan. Þeir eru því engin lömb að leika sér við og lögreglan fæst við þá á mismunandi hátt. Margir lögreglumenn láta múta sér, aðrir selja dópsölunum skotvopn. Enn aðrir eru heiðarlegir en þeir lenda líka oftast í klandri. En þegar lögreglan lendir í klandri í fátækrahverfunum, þá er kallað á BOPE sérsveitina til að redda málunum.

Það er einmitt þannig sem Nascimento kynnist tveimur heiðarlegum lögreglumönnum sem koma báðir til greina sem eftirmenn hans. Annar þeirra, algjör harðhaus, virðist rétti maðurinn en stígur þó ekki í vitið. Hinn er snjallari en lendir í kröppum dansi þegar hann byrjar að deita vinkonu dópsala. Þá er bara spurningin hvor verður fyrir valinu og hvort hann sé verðugur eftirmaður Nascimento.


Handrit myndarinnar var vel uppbyggt. Myndin byrjar á atriði sem gerist í raun í miðri mynd og fyrri hluti myndarinnar byggir svo upp að því atriði. Seinni hluti myndarinnar verður svo ansi spennandi en í gegnum alla myndina er Nascimento sögumaður. Lögreglumennirnir tveir eru strax kynntir til sögunnar í byrjun myndarinnar og manni er strax ljóst að Nascimento og þeir muni tengjast einhvern veginn. Þetta gerir það að verkum að maður fylgist spenntur með framdrætti sögunnar.

Meginþráður myndarinnar er hin mörgu fátækrahverfi Rio, dópsalan sem þar lýðst og hvernig lögreglan fer með þessi mál. Myndin opnar á vissan hátt upp heim sem aldrei er getið í fjölmiðlum vesturlanda og í myndinni er velt upp mismunandi sjónarhornum á samskipti lögreglunnar og íbúa fátækrahverfanna. Frá sjónarhorni fólksins ræðst lögreglan inn á saklaust fólkið og misþyrmir því en frá lögreglunni séð eru það dópsalarnir sem eiga upptökin.

Myndin einkenndist samt fyrst og fremst af miklu ofbeldi. Til að mynda eru nokkrum sinnum svokallaðar pokayfirheyrslur, þar sem poka er skellt yfir höfuð fórnarlambsins þar til það er að því komið að kafna og blæða tekur úr andliti þess. Ofan á þetta bættust svo skotbardagar og aftökur hverri annari ógeðfelldari. Atriðin voru þó áhorfanleg, ég neyddist ekki beint til að líta undan en þau voru þó mörg af grófari gerðinni. Þau voru samt sem áður ekki jafn nastí og til dæmis atriðið í byrjun American History X, með svarta manninum sem er látinn bíta í gangstéttina. Fyrirgefið mér fyrir að minnast á það.

Þó var of mikið af ofbeldi í myndinni og það hefði mátt sleppa allavegana því allra óhuggulegasta. Kannski gefur það raunsæislegri mynd og sýnir raunverulegu hörkuna sem ríkir í aðstæðum eins og í myndinni en það hefði mátt gefa frekar í skyn frekar en að sýna allan pakkann í mynd. Það virtist nefnilega einkenna ofbeldisatriðin að allt var sýnt í mynd. Þarna var leikstjórinn kannski að reyna að skapa myndinni ákveðna sérstöðu og vekja upp viðbrögð hjá áhorfendum en það tókst jú hjá honum, samanber þetta blogg.

Nú, þegar talað er um "brasilíska mynd" og "mikið af ofbeldi" þá hugsa menn eflaust um myndina Borg guðs. Því miður er ég óhæfur til að framkvæma samanburð á henni og þessari, þar sem ég hef enn ekki séð þá mynd. Þar fór það fyrir lítið. Það er samt ljóst að ég verð að fara að sjá þá mynd.

Nú, Tropa de Elite fékk Gullbjörninn og það hefur varla verið að ástæðulausu. Eins og ég sagði er handritið vel uppbyggt og myndin er einnig vel leikin. Eins og svo oft áður sannast það að góðir leikarar eru alls staðar og oft sem þeir standa sig mun betur en Hollívúdd stjörnurnar. En auðvitað er engin ástæða til að búast við því að Hollívúdd stjörnum bregði fyrir í brasilískri mynd.

Svo vekur myndin óneitanlega sterk viðbrögð hjá áhorfendum og eins og ég nefndi opnar þetta upp heim sem maður hefur ekki kynnst áður. Myndin vekur um leið upp spurningar um siðferði lögreglunnar og almennt ástand í fátækrahverfum heimsins. Líkt og Borg guðs gerir að því er ég held. Tropa de Elite er fínasta mynd en ofbeldið í henni gæti verið of mikið fyrir suma.

Friday, April 4, 2008

Stríðsmyndir

Ég hef séð nokkrar stríðsmyndir um mína daga en þær eru auðvitað misgóðar í minningunni. Og svo eru nokkrar sem mig fýsir mjög að sjá. Við skulum líta aðeins nánar á hvaða myndir þetta eru:


Saving Private Ryan

Byrjum á Saving Private Ryan en hún er fyrsta myndin sem mér kemur í hug þegar ég heyri stríðsmyndir nefndar á nafn. Samt sem áður er hún mér ekkert sérstaklega eftirminnileg. Hún er nátturlega eftir Spielberg og allt það og kom út árið 1998. Ég reyndar sá hana ekki fyrr en nokkrum árum seinna, sennilega 2001 eða 2002.


Mig minnir að myndin hafi verið ágæt. Þarna í fyrndinni hafði ég reyndar lítið vit á myndum en hvort hún hafi ekki verið nokkuð góð. Allavegana betri en Gladiator en mér fannst hún meira að segja kjánaleg þegar ég sá hana á þessum aldri.

"Mig minnir" hljómar ekkert sérstaklega traustvekjandi á dóm minn um myndina en sýnir um leið að þetta var bara enn einn blokkbösterinn frá Hollywood og ekkert sérstaklega minnistæður. Þó eru einstaka atriði sem ég man eftir, ég man eftir því þegar þeir koma á land í Normandí og svo atriðum þar sem liðið reynir að forðast leyniskyttur.

Þetta var þó ábyggilega "vel gerður" blokkböster þar sem að Spielberg er að verki og hann gerir hlutina oftast rétt hvort sem það sé eitthvað minnistætt eður ei. Ég ætla hins vegar að gleyma Saving Private Ryan í bili og snúa mér að næstu mynd. Ég þyrfti kannski að kíkja á hana aftur ef ég hef ekkert að gera einhvern tímann. Eða sleppa því, ég hugsa ég lifi það af.


Black Hawk Down

Ég held mig við blokkböstera frá Hollívúdd. Black Hawk Down er nýlegri en Ryan og kom út árið 2001. Ég man eftir því þegar ég leigði hana, það hefur verið sama ár og hún kom út en ég kíkti á hana eitthvert kvöldið þegar ég hafði ekkert að gera. Ég var víst rosalega spenntur yfir henni. Ég get ekki sagt að ég væri jafn spenntur núna ef að þessi mynd væri nýkomin á leigurnar.

Myndin fjallar um hetjudáð bandarískra hermanna í Sómalíu árið 1993. Þar drita þeir niður sómalíska skrælingja en missa um leið fáeina menn og tvær af þeirra afar dýrmætu þyrlum.

Í minningunni virkar þetta á mig sem klassísk áróðursmynd fyrir bandaríska herinn. Þegar ég sá hana hafði ég engan gríðarlegan skilning á heimsmálunum en þegar ég lít til baka virkar hún algjörlega þannig á mig. En myndin er þó gerð eftir bók og ég gæti því vel verið að vanmeta myndina.

Æj, ekkert sérstaklega minnistæð mynd og ég nenni tæplega að eyða meira púðri í hana.


Der Untergang

Já, nú er ég loksins kominn að einhverju almennilegu efni. Der Untergang er frá 2004 og sá ég hana á kvikmyndahátíð í Regnboganum um það leiti.

Der Untergang er ekki þessi dæmigerða stríðsmynd eins og þessar að ofan. Hún er líka mun áhugaverðari en þær. Það er lítið um stríðsátök í henni en hún tekur fyrir seinustu daga Hitlers og fókuserar um leið á sálarlíf hans og lífið í neðanjarðarbyrginu undir lokin.

Styrkleikar myndarinnar liggja ekki í bardagasenum heldur í leik og framsetningu myndarinnar. Maður sogast virkilega í atburðarásina og örvæntingin í byrgi Hitlers liggur gjörsamlega í loftinu. Bruno Ganz leikur Hitler frábærlega og maður fær að kynnast mannlegu hlið hans en þó kemur líka bersýnilega í ljós hversu geðveikur hann var. Þótt ótrúlegt megi virðast finnur maður til með honum undir lokin.

Vafalaust besta myndin í þessu bloggi hingað til.


The Pianist

Ekki heldur þessi dæmigerða stríðsmynd en eins og Untergang mun betri en hinar tvær að ofan.

The Pianist er frá árinu 2002 en hinn umdeildi Roman Polanski leikstýrði henni. Reyndar vann hann Óskarinn fyrir hana en gat ekki tekið á móti honum sökum þess að vera eftirlýstur í Bandaríkjunum síðan 1978.

Myndin fjallar um frægan pólskan píanóleikara, Wladyslaw Szpilman, sem lifir og starfar í Varsjá. Hann og fjölskylda hans eru gyðingar og hann lendir í ýmsum hremmingum eftir að nasistar hertaka borgina og hefja ofsóknir sínar. Myndin er sannsöguleg og er gerð eftir æviminningum Szpilmans.


Eins og Der Untergang tekur myndin á hinu viðkvæma viðfangsefni Seinni Heimsstyrjöldinni en í þetta sinn er fjallað um gyðingaofsóknir nasista. Polanski lenti sjálfur í álíka reynslu og píanistinn í myndinni en ungur að árum slapp hann úr gettóinu í Varsjá á flótta undan nasistum. Viðfangsefnið er því mjög nálægt Polanski og honum hugfangið.

Adrian Brody leikur Szpilman snilldarlega í myndinni og fékk hann m.a. óskarinn fyrir leik sinn í myndinni og varð um leið yngsti leikarinn til að hreppa þau verðlaun.

Í myndinni verður Szpilman vitni að ýmsum hræðilegum verkum SS sveita nasista en þó fannst mér í minningunni ofbeldi ekki ofaukið í myndinni. Það lýsir vel hryllinginum og miskunnarleysinu sem réð ríkjum í ghettóum nasista. Umgjörð myndarinnar er frábær og mjög raunveruleg. Þar notuðust framleiðendur myndarinnar m.a. við yfirgefinn sovéskan herspítala og herbragga.

Góð mynd sem ég þarf að sjá aftur við tækifæri, mjög eiguleg þessi.


La Vita e Bella

Ég ætla ekki að fara of mörgum orðum um þessa þar sem ég sá hana í fyrsta og eina skipti í sjötta eða sjöunda bekk í Melaskóla og það er orðið ansi langt síðan. Það var reyndar farin sérstök ferð í Norræna húsið til að sjá myndina.

La Vita e Bella fjallar í stuttu máli um ítalskan gyðing sem notar ímyndunaraflið til að hjálpa syni sínum að þrauka í útrýmingarbúðum nasista.

Roberto Benigni leikur aðalhlutverkið og leikstýrir myndinni. Í minningunni fannst mér hann standa sig vel en eitthvað var Siggi Palli ósammála því. Ég veit satt að segja ekki hvort ég eigi að treysta sjálfum mér eða Sigga í þessu máli, ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi haft núll vit á kvikmyndum í sjöunda bekk. En auðvitað er smekkur manna mismunandi og allt það.

Allavegana, í minningunni ágætis mynd og mjög "falleg" ef svo má að orði komast.


Ég hlýt nú að hafa séð fleiri stríðsmyndir en þetta en þó eru ekki fleiri sem ég man eftir í bili. Mér datt nú í hug myndin The Great Dictator með Chaplin en þrátt fyrir að hafa verið aðdáandi hans held ég að ég hafi bara séð glefsu úr þeirri mynd. Annars eru nokkrar myndir sem ég væri til í að sjá við tækifæri:


Battleship Potemkin

Þessi mynd hefur verið kölluð ein áhrifamesta mynd allra tíma. Hún fjallar um sjóliðana sem gerðu uppreisn á rússneska skipinu Potemkin árið 1905 og viðbrögð hermanna Tsarsins við þeirri uppreisn.

Sovéski leikstjórinn Sergei Eisenstein hugsaði myndina bæði sem byltingar-áróðursmynd en einnig sem tilraun í klippingu kvikmynda. Hann vildi athuga hvernig hægt væri að klippa myndina svo að áhorfendurnir myndu finna til með persónum myndarinnar sem þeir "áttu" að finna til með. Eisenstein vann einkum með "montage" formið, líkt og í frægustu senu Potemkin, Odessa tröppunum, þar sem hermenn tsarsins marsera niður tröppurnar skjótandi allt sem á vegi þeirra verður.

Pabbi hefur verið með áróður fyrir þessari mynd síðan ég byrjaði í kvikmyndagerð seinasta haust og miðað við sögulegt gildi hennar er þetta möst-sí.


Schindler's List

Já, ég er ekki enn búinn að sjá Schindler's List. Hún er frá árinu 1993 og er úr smiðju Steven Spielbergs. Hún er sannsöguleg og fjallar um Oskar Schindler sem notar gyðinga til vinnu í verksmiðju sinni í Póllandi í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann finnnur til með þeim og tekur til við að bjarga þeim úr klóm nasista.

Auðvitað var ég ekki á rétta aldrinum þegar myndin kom út og það má segja að hún hafi farið algjörlega framhjá mér allt þar til mörgum árum seinna. Eftir því sem ég hef heyrt og lesið, er þetta ein af allra flottustu myndum sem gerðar hafa verið. Af hverju er ég ekki löngu búinn að sjá þessa?


Apocalypse Now

Apocalypse Now er leikstýrð af Francis Ford Coppola og gerist í Víetnam stríðinu. Aðalpersóna myndarinnar er Benjamin Willard en hann fær það hlutverk að ferðast upp í kambódíska frumskóginn að finna Walter Kurtz, fyrrverandi sérsveitarmann. Myndin er byggð á bók Joseph Conrads, Hearts of Darkness.


Siggi sýndi okkur um daginn heimildarmyndina Hearts of Darkness, sem fjallar um gerð Apocalypse Now. Líkt og sást í heimildarmyndinni, gekk framleiðsla Apocalypse Now vægast sagt brösulega. En myndin vakti um leið mikinn áhuga hjá mér að sjá Apocalypse. Það var gaman hversu nálægt maður komst Coppola í heimildarmyndinni og vandamálunum í framleiðslu svona stórmyndar. Til dæmis má nefna samninga Coppola við ríkisstjórn Filippseyja um leigu á hergögnum. Svo tóku filippnesku flugmennirnir stundum upp á því að fljúga burt í miðjum senum til að takast á við uppreisnarmenn annars staðar í ríkinu.

Það fer að nálgast að ég sjái þessa. Allavegana fyrir næsta haust.


Hotel Rwanda

Ljúkum upptalningunni með þessari. Hotel Rwanda fjallar um hótelstjóra sem aðstoðar fólk í þjóðarmorðunum í Rúanda árið 1994.

Ég hef heyrt um þessa mynd að hún sé bæði ofbeldisfull og átakanleg. En um leið hef ég heyrt að hún sé mjög góð og auðvitað er alltaf við hæfi að sjá góðar myndir.


Stríð er alltaf viðkvæmt viðfangsefni og það er mismunandi hvernig kvikmyndagerðarmenn takast á við það. Kannski mætti skipta stríðsmyndum í annars vegar hasar-stríðsmyndir og hins vegar drama-stríðsmyndir.

Ef miðað er við mína reynslu eru hasar myndirnar oftast slappari og áhrifaminni. Þær eru oftast einhverjir blokkbösterar sem gleymast fljótt. Þó er þetta ábyggileg ekki algilt, ég er varla nokkur sérfræðingur í þessum efnum.

Það er samt sem áður ljóst að þegar viðfangsefni kvikmynda er stríð þurfa kvikmyndagerðamenn virkilega að vanda sig. Stríð hafa alltaf mikil áhrif á þolendur þess. Því er auðvelda leiðin fyrir Hollívúdd framleiðendurna að búa til afþreyingarefni sem inniheldur mikinn hasar, "þunna" karaktera og einfalda uppbyggingu. Kvikmyndirnar sem endast eru þó þær sem innihalda mannlega faktorinn og sýna þessi óneitanlegu áhrif sem stríð hafa á þolendur þess og baráttu manna við hryllinginn sem fylgja þeim. Það er í raun bara á færi þeirra allra bestu að takast á við þetta verðuga efni.

Tuesday, April 1, 2008

Man Bites Dog

Við sáum kvikmyndina Man Bites Dog í kvikmyndatíma á mánudaginn. Myndin er belgísk og er frá árinu 1992.

Myndin er svokölluð "mokkjúmentarí" og fjallar um nokkra unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að gera heimildarmynd um raðmorðingja. Þeir fylgja morðingjanum eftir og hann spjallar við þá um allt á milli arkitektúrs og morðaðferða. Þeir fylgja honum einnig eftir þegar hann myrðir mann og annan. Í fyrstu eru þeir einungis að fylgjast með en kynnast honum smám saman betur og fara að aðstoða hann við voðaverk sín. Um leið fara þeir að drepast einn af öðrum en þó halda þeir áfram að taka upp myndina.

Myndin var á köflum fyndin en um leið afar óhugnanleg og ógeðsleg. Morðinginn er gjörsamlega siðblindur og vílar ekkert fyrir sér, enda leggst hann einna helst á eldra fólk í gamalmennablokkum. Þegar hann neyðist til að drepa ungan strák segist hann helst ekki drepa krakka en bara af því að það er ekki nógu hagkvæmt. Aftur á móti var oft fyndið að sjá kvikmyndagerðarmennina spjalla við hann og svara honum. Þeir eru afar óákveðnir og óöruggir með sig og virðast ekki þora að neita honum um neitt.

Hugmyndin að myndinni er góð og framkvæmd hennar tekst einnig vel upp. Kvikmyndina gerðu fjórir félagar úr kvikmyndagerðarskóla fyrir litla fjármuni og hún er svört og hvít. Það má segja að það fari myndinni vel þar sem það eykur á grófleika hennar og gefur henni óslípað útlit.

Svo er auðvitað hægt að detta í einhverja kvikmyndagreiningu og skilja myndina sem ádeilu á nútímasamfélagið og hversu geðveikislegt það getur orðið. Ég efa þó að það hafi legið fyrir félögunum og þeir frekar viljað gera mynd sem að væri frumleg og gengi fram af fólki. Þeim tókst það. Myndin minnti mig líka smávegis á þættina og bækurnar um Dexter en morðinginn í Man Bites Dog er þó margfalt grófari og siðblindari en hann.

Leikarinn Benoit Poelvoorde stendur sig vel í hlutverki morðingjans. Hann nær mjög vel þessum geðveika náunga sem er líka sjálfselskur og óþolandi í umgengni. Eftir byrjun myndarinnar vill maður sjá manninn steindauðan en svo vill maður líka sjá hversu langt hann getur gengið. Vegna lítilla fjármuna hjálpuðu fjölskylda og vinir til með kvikmyndina en til dæmis lék móðir Benoits mömmu hans í myndinni. Reyndar vissi hún ekki að Benoit léki morðingja í myndinni og það kom henni því á óvart þegar hann var allt í einu á bak við lás og slá í einu atriðanna.

Man bites dog hélt mér allan tímann. Atvik myndarinnar voru oft á tíðum fyndin vegna þess hversu absúrd þau voru en þar má nefna hin fjölmörgu skot af Benoit að rogast með líkpoka og henda ofan í vatnsfyllta námu eða sýki. Þó breyttist gamanið gjarnan í viðbjóð og óhuggulegheit og sum atriðin gengu gjörsamlega fram af manni. Í raun er þetta mynd sem gengur út á að sjokkera fólk og það ætlunarverk tekst henni. Það kemur mér líka ekkert á óvart að Quentin Tarantino skuli halda mjög upp á þessa mynd.

Sunday, March 30, 2008

Sliding Doors

Í sjónvarpinu á laugardaginn var sýnd myndin Sliding Doors frá árinu 1998. Ég kannaðist ekki við hana en Elfa hafði séð hana nokkrum sinnum og mæltist til þess að við horfðum á hana.

Þessi mynd skartar "sjálfri" Gwyneth Paltrow í aðalhlutverki ásamt Skotanum John Hannah. Ef þið kannist ekki við nafnið John Hannah, þá er þetta náunginn:


Hann er allt of emó á þessari mynd en hún verður að duga. Maðurinn verður kannski seint kallaður stórstjarna en hann átti sína tíma á tíunda áratugnum og talar ansi hreint massífa skosku. Hann var til dæmis í Four Weddings and a Funeral og lék þar skoska gæjann og stóð sig vel. Svo lék hann eitthvað aukahlutverk í Mummy myndunum en þær voru jú góðar á sínum tíma (í hvað, sjöunda bekk).

Allavegana, myndin gengur út á svona "hvað ef" pælingu. Við fáum að sjá hvernig líf Helenar þróast miðað við hvort að hún missir af lest eða ekki. Munurinn á þessum mismunandi leiðum sem líf Helenar þróast eftir er dramatískur en í öðru lífinu kemur hún að manninum sínum að halda framhjá en í hinu lífinu kemst hann upp með það. Voila, þarna er kominn þessi klassíski ástarþríhyrningur og um leið bresk rómantísk gamanmynd.

Það er ljóst að þessi "hvað ef" hugmynd býður upp á mikið en um leið er bæði erfitt að láta hana ganga upp og auðvelt að klúðra henni. Mér fannst framleiðendum þessarar myndar hins vegar takast vel upp. Oft á tíðum voru klippingarnar í myndinni afar flottar, þar sem klippt var á milli atvika sem gerast á sama stað en í "mismunandi lífi" ef svo má að orði komast. Afar hrifningarvert (impressive) á tíðum.

Einnig fannst mér handritið vel unnið í sambandi við tengsl á milli mismunandi lífa Helenar. Það var til dæmis oft á tíðum sem hún virtist eiga leið hjá sama stað í mismunandi lífi þrátt fyrir að vera stödd þar fyrir mismunandi ástæður. Þetta myndar ákveðin tengsl á milli "lífanna" og gefur myndinni um leið meiri heildarsvip. Til að mynda er hún í öðru lífinu út á báti að hvetja áfram í róðrarkeppni mann sem hún er nýbúin að hitta en svo er klippt viðstöðulaust á vítt skot af bátnum og þá sést hún rölta framhjá á árbakkanum með vinkonu sinni í hinu lífinu. Jæja þetta dæmi er kannski ögn langsótt en þegar þið sjáið þetta, þá virkar þetta vel (ég tékkaði á youtube en fann því miður ekki þetta atriði eða annað sem notaðist við þennan "tengsla-effekt").

Rómantíski parturinn af myndinni er líka ekki of mikill og myndin verður aldrei of væmin. "Gaman" hlutinn af myndinni er hins vegar ágætlega vænn og svo auðvitað "fílgúdd" hlutinn, en það má segja að hann spili stærsta hlutverkið.

Ég hefði ekki haldið fyrir helgi að ég myndi nokkurn tímann segja að mér fyndist mynd með Gwyneth Paltrow bæði fyndin og skemmtileg. En það var þó raunin og kellan stendur sig bara ansi vel líka. Líklega eru þetta fordómar í mér, hún lék jú í Shakespeare in Love og vann óskarinn og hvaðeina. En svo minnir mig að hún hafi tekið upp á því að bresta þar í grát og það er nú of mikið fyrir hvern sem er. En eftir þessa mynd hefur hún hækkað í áliti hjá mér.

Þetta er auðvitað þegar öllu er á botninn hvolft rómantísk gamanmynd en hún er bresk og þær eru alltaf miklu skemmtilegri. Og áhorfanlegri. Þessi er ansi áhorfanleg, og inniheldur auk þess skoskan gæja, og ef að tilefni gefst til mæli ég með að hver sem er kíkji á hana. Og þar hafið þið það!

Tuesday, February 26, 2008

Brúðguminn

Ég horfði á Brúðgumann.
Hann var að gifta sig í Flatey og átti voða sæta konu.
Ég skildi samt ekki alveg af hverju hann var að kyssa aðra konu en konuna sína, má það?
Mér fannst hún mjög góð.

Kveðja,
Eyjólfur :D:D :) :*

Wednesday, February 20, 2008

Killer of Sheep

Killer of Sheep er kvikmynd frá árinu 1977. Hún var lokaverkefni leikstjórans Charles Burnett frá kvikmyndadeild Háskólans í Kaliforníu.

Kvikmyndin fjallar um svartan mann, Stan, og fjölskyldu hans í úthverfinu Watts í Los Angeles. Hann vinnur í sláturhúsi og er þaðan vissulega kominn titill myndarinnar. Hann þjáist af lífsleiða og þunglyndi vegna þess hversu einhæft líf hans er. Lífsbaráttan er hörð og reynir Stan með erfiðleikum að hefja sig upp úr fátæktinni en kona hans reynir um leið að endurvekja áhuga hans á lífinu og rífa hann upp úr þunglyndinu.


Í myndinni fylgjumst við með daglegu lífi fjölskyldunnar og fáum raunsæa mynd af því hvernig raunverulegt líf fátæks fólks var í úthverfum stórborga Bandaríkjanna. Það gerist alls ekki mikið í myndinni og á það vafalítið að lýsa tómleika og vonleysi fátækrahverfisins.

Burnett notaðist við áhugaleikara og í þessari mynd tókst það vel upp. Í raun voru kröfur til leikaranna í þessari mynd ekki miklar, lítið um samtöl og slíkt. En mér fannst leikurunum takast vel upp með að skapa stemmingu og almennt séð fannst mér þeir standa sig vel.

Ekki voru þó allir á eitt sáttir með þessa mynd. Margir töluðu um að hún hefðu bókstaflega ekki verið um neitt og að ekkert hefði gerst. Ég hugsa að allir geti viðurkennt að það er lítið sem beint "gerist" í myndinni. En hins vegar finnst mér hún samt sem áður um margt merkileg. Hún sýnir manni heim sem maður hefði annars aldrei kynnst og gefur manni hann svo að segja umbúðalaust. Fyrir utan það fannst mér t.d. myndatakan á tímum mjög flott og tónlistin passaði ótrúlega vel við myndina.

Talandi um tónlistina, þá ætlaði Burnett ekki aðeins að sýna brot úr lífi svarts fólks í úthverfunum, heldur átti tónlistin líka að spanna sögu svartrar tónlistar í Bandaríkjunum. Hann valdi ýmis stór nöfn úr tónlistarbransanum en um leið varð tónlistarrétturinn fyrir myndina óheyrilega dýr. Þó að Burnett hafi klárað myndina 1977 og skilað henni sem lokaverkefni það ár, kom myndin ekki í kvikmyndahús fyrr en árið 2007. Það var þá sem loksins tókst að safna nægu fé til að tryggja réttinn á tónlistinni fyrir myndina.

Myndin er geymd sérstaklega í Bókasafni þingsins í Bandaríkjunum vegna menningarlegs gildis hennar. Það hlýtur að segja okkur eitthvað, og þó að Killer of Sheep sé svolítið erfið að kyngja er það margt sem gerir hana góða og merkilega kvikmynd.

Sunday, February 17, 2008

Charlie Wilson's War

Um helgina var ég fastur í Danmörku af því að fluginu mínu hafði seinkað um tíu tíma. Við höfðum ekkert að gera og skelltum okkur því í bíó á Charlie Wilson's War.

Myndin fjallar í örstuttu máli um það þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan og það ferli þegar Bandaríkjamenn seldu Afgönum vopn til að berjast við þá. Þetta varð til þess að sovéski herinn beið mikla hnekki og hrökklaðist úr landinu. Og maðurinn sem stóð á bak við þetta hét Charlie Wilson.

Leikstjóri myndarinnar er maður að nafni Mike Nichols. Ég, með mína "ógurlegu" þekkingu á leikstjórum, kannaðist ekki við hann en hann leikstýrði þó m.a. The Graduate frá '67 með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Í þessari grein er svo talað um hann sem "one of the greatest" svo að ég virðist virkilega vera að missa marks í þekkingu minni á leikstjórum. Á hinn bóginn er samt spurning hversu mikið mark sé takandi á þessari grein. (Var The Birdcage eitthvert meistaraverk?) En auðvitað hef ég ekkert vit á þessu þar sem ég kannaðist ekki einu sinni við manninn.

Hvað um það. Tom Hanks, Julia Roberts og Phillip Seymour Hoffman sjá um aðalhlutverkin í myndinni. Julia Roberts hefur alltaf farið í taugarnar á mér og í þessari mynd nær hún nýjum hæðum í einmitt því. Hún leikur forríka konu frá Texas og hreimurinn hennar er gjörsamlega hræðilegur og meira en lítið pirrandi. Auk þess finnst mér hún bara leika leiðinlega. Og vera leiðinleg.

En já, Tom Hanks er við sama heygarðshornið, mér fannst hann svona allt í lagi. Auðvitað kemur fyrir að hann fari í taugarnar á manni en hann var samt fínn í þessari.

Phillip Seymour Hoffman tekur hins vegar á því og stendur sig vel. Hann fær reyndar lang skemmtilegasta karakterinn líka, grískan njósnara frá CIA sem kallar ekkert ömmu sína. Ég þarf virkilega að fara að horfa á fleiri myndir með þessum leikara. Hann var sannarlega einn af björtustu punktunum við myndina.


Þá að myndinni sjálfri. Gaurinn sem Tom Hanks leikur, sjálfur Charlie Wilson, er þessi Denny Crane-týpa, veður í kvenmönnum og hefur ávallt viskí við höndina. Hann situr á Bandaríkjaþingi og forríka konan frá Texas, Julia Roberts, fær hann til þess að kíkja til Afganistan og reyna að stöðva Sovétmenn. Wilson hjólar í málið og fær aðstoð frá Seymour Hoffman.

Atburðarásin hélt mér mestallan tímann. Myndin er hröð og það virtist virka á mig, allavegana í þetta skiptið. Það var hins vegar eins og það vantaði herslumuninn, hún náði mér ekki algjörlega.

Eins og talað er um í greininni sem ég nefndi hér að ofan, þá virðist myndin eiga erfitt með að finna sinn eigin stíl. Til dæmis voru nokkur atriði í einhvers konar tölvuleikjastíl og ég get ekki sagt að það hafi virkað fyrir mitt leyti. Þá var myndað eins og þú sætir í þyrlu sem eyrir engu og skýtur allt sem fyrir verður á jörðu niðri. Þessi atriði voru vafalaust ætluð til að lýsa skelfingunni sem ríkti í Afganistan við innrás Sovétmanna. Hins vegar fannst mér atriðin ekki nógu vönduð og þau ekki í réttu samræmi við myndina. Einnig komu fyrir atriði í fréttamyndastíl sem hefðu getað virkað en út af tölvuleikjaatriðunum gekk dæmið ekki upp.

Ég óttaðist frá byrjun að myndin væri áróðursmynd fyrir bandaríska herinn og utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Að því leyti kom hún mér á óvart. Að vísu fjallar hún að miklu leyti um vopn og sölu þeirra en hún snertir einnig á því hvernig Bandaríkjamenn ætla sér að redda öllu en yfirgefa svo löndin í algjörri rúst. Myndin kom inn á þetta í lokin en hefði mátt gera meira af því. Auðvitað er þetta samt Hollywood mynd, við hverju ætlar maður að búast?

Allt í allt, ágætis mynd og alveg þess virði að horfa á hana. Allavegana ef flugvélinni þinni seinkar um tíu tíma og þú situr fastur í Kaupmannahöfn.

Monday, January 7, 2008

Charlie's Angels: Full Throttle

Þegar ég var að læra undir eðlisfræðipróf um daginn var þessi mynd í sjónvarpinu. Einhverja hluta vegna var kveikt á sjónvarpinu og ég varð vitni að þessu.

Svona rétt til að byrja með, hvernig ætlast leikstjóri sem kallar sig "McG" til þess að einhver taki sig alvarlega? Og hvaða aula datt í hug að láta þennan mann leikstýra einu né nokkru? Það er erfitt að láta sér detta í hug aðra ástæðu en þá að hann sé annað hvort sonur framleiðanda myndarinnar eða þá elskhugi hans. Auk þess minnir hann mig í útliti helst á fáránlega emó gaurinn í Linkin Park. Ég myndi ekki kalla það hrós:


Myndin gekk í raun og veru út á það að láta aðalleikonurnar klæðast sem efnisminnstum fötum og fela þannig slæm gæði myndarinnar. Þetta gerir myndina skelfilega lágkúrulega og grefur undan bæði myndinni sjálfri og leikurum myndarinnar.

Framleiðendur myndarinnar hafa reyndar séð að bikíní-trikkið myndi líklega ekki duga og ákváðu því að reyna að skella inn einhvers konar "tæknibrellum" í myndina. Þessar "frábæru" brellur eru í raun slow motion atriði sem ganga út á það að láta aðalleikkonurnar koma sér úr erfiðum aðstæðum með því að vinna gegn öllum helstu lögmálum eðlisfræðinnar. Þessi atriði eru ótrúlega kjánaleg og afar þreytandi að horfa á. Stundum virðast þær reyna að apa eftir Matrix-brellunum en það er löngu orðið þreytt og að auki illa gert í þessari mynd.

Þá er röðin komin að leikhóp myndarinnar. John Cleese virðist algjörlega búnað selja út en hann á lítið hlutverk í þessari mynd. Þetta er grátlegt hlutverk fyrir mann með hans bakgrunn, alveg ótrúlega þunnt og lélegt. Cameron Dias, Drew Barrymore og Lucy Liu "leika" Englana hans Charlies og eru auðvitað slæmar. Þær framkvæma þó leiksigur samanborið við Demi Moore en hún leikur einhvers konar illmenni í myndinni og er herfileg.

Ekki er þó víst að þetta sé allt saman við leikarana að sakast eða hvort að handritinu sé um að kenna. Allar persónur myndarinnar eru næfurþunnar og típískar að flestu leiti. Myndin er að miklu leiti samhengislaus og endar á einhvern leiðinlegan og dæmigerðan hátt sem mér hefur lukkulega tekist að gleyma.

Ástæðan fyrir því að ég fylgdist með þessari mynd eftir að hafa séð nokkrar mínútur af henni var til þess að athuga hversu slæm hún gæti orðið. Niðurstaðan er að þessi mynd er rusl sem ætti að banna. Framleiðendur þessarar myndar ættu að skammast sín.