Á heildina litið fannst mér námskeiðið heppnast mjög vel. Siggi kom með blöndu af kvikmyndasögu og almennri gerð kvikmynda og svo fengum við auðvitað að spreyta okkur sjálfir líka í stuttmyndagerð. Mér fannst allir þessir þættir skemmtilegir, nema kannski síst aðferðafræðin í sambandi við handrit enda voru þessi fræði stundum á mörkunum að vera marktæk, eins og Siggi sagði sjálfur (Robert McKee, einhver?).
Einnig sá ég mikið af eldri myndum í þessu námskeiði sem ég hefði annars líklega ekki séð. Þar má nefna 8 1/2, The General og La Regle de Jeu. Auðvitað voru skoðanir manna á þessum myndum mismunandi en mér fannst flestar mjög áhugaverðar og ég er þeirrar skoðunar að maður þurfi alltaf að reyna að víkka sjóndeildarhringinn og horfa á eitthvað óhefðbundið og sögulega mikilvægt. Jafnvel þó að manni finnist ákveðin mynd ekkert sérstaklega skemmtileg er oft hægt að læra eitthvað af henni.
Mér fannst líka gott hvernig Siggi breytti um stefnu eftir jól og fór að sýna nýrri myndir. Þær gegndu ekkert endilega mikilvægum hlutverkum í kvikmyndasögunni en þetta voru myndir sem sýndu manni eitthvað sem maður hafði kannski ekkert endilega kynnst. Til dæmis þekkti ég lítið sem ekkert asískar myndir fyrir utan einhverjar myndir Kurosawa.
Mér fannst hápunktarnir í kvikmyndasýningunum vera myndirnar Sjöunda innsiglið (sem ég sá reyndar tvisvar með viku millibili vegna fyrirlestrar okkar Emils og Andrésar um Ingmar Bergman), Happy End og Devil's Backbone. Einhverjum finnst seinasta valið kannski eitthvað tæpt en mér finnst stíllinn hans Guillermo del Toro frábær og þessi töfraraunsæis fílingur frábær. Sjöunda innsiglið er náttúrlega tímalaust meistaraverk, svo maður dragi ekkert úr, og Happy End var líka góð. Ég meina, mynd sem gerist öll afturábak? Það er bara snilld.
Tæknilegu atriðin sem Siggi fór í í sambandi við klippingu mynda og uppbyggingu atriða voru mjög fræðandi. Þarna fékk maður að vita nokkur grunnatriði og þau hjálpuðu töluvert þegar við fórum að taka upp stuttmyndirnar. Það var líka gaman að fá að vita mörg þessara atriða og fatta að maður vissi í raun af þeim óafvitandi. Sum þeirra, eins og til að mynda að klippa á hreyfingu, eru svo oft notuð að maður er gjörsamlega vanur þeim. Í rauninni hefði maður ábyggilega gert það ósjálfrátt í stuttmyndinni án þess að okkur hefði verið kennt það sérstaklega. Maður hefði allavegana fattað það smám saman með því að prófa sig áfram.
Fyrirlestrarnir voru skemmtilegir og opnuðu fyrir manni ýmislegt varðandi merkilega leikstjóra og kvikmyndir. Minn hópur gerði fyrirlestra um Ingmar Bergman og Bollívúdd myndir. Sérstaklega fannst mér gaman að kynnast Bergman svona vel en ég hafði ekkert vitað um hann áður.
Blogghluti námskeiðisins hafði sína kosti og galla. Í rauninni er þetta auðveld leið fyrir nemendur til að næla sér í kennaraeinkunn en það er kannski aðallega útfærsla hugmyndarinnar sem mætti laga. Mér fannst ágætt fyrir jól að hafa þrjátíu færslur og einhvern lágmarksfjölda orða. Hins vegar launar það ekki þá sem leggja metnað í bloggið og skrifa langar og góðar færslur. Ég held því að stigagjöfin sé málið en í fyrstu var hún kannski heldur lág. Núna hefur reyndar Siggi gefið okkur aðeins meiri séns og er orðinn gjöfullri á stig. Ég hugsa að eins og stigagjöfin er núna sé rétta leiðin til að fara. Ef að menn vilja þá geta þeir farið þá leið að skrifa mörg blogg með færri orðum en einnig geta menn skrifað færri blogg og lengri og betri færslur. Svo er þetta líka algjörlega undir mönnum komið hvort þeir standi sig í blogginu eður ei. Ég hef til dæmis verið heldur latur eftir jól og fæ að súpa seyðið af því núna. Blogghugmyndin var því ágæt og í rauninni fær hún mann til að spá meira í myndunum sem maður horfir á. Ef maður ætlar sér að blogga um mynd þá reynir maður um leið að taka betur eftir myndinni og pæla í henni.
Stuttmyndamaraþonið var mjög skemmtilegt. Það gaf manni góða æfingu með myndavélina og allt sem fylgir því að taka upp. Það var líka frábær stemming að vera í hóp og taka upp stuttmynd. Ég hugsa að ég hafi líklega ekki gert neitt verkefni í MR sem var svona gaman að framkvæma. Svo er auðvitað gaman að eiga eitthvað eftir sig sem maður nennir að horfa á seinna. Þó að maður skrifi til dæmis íslenskuritgerð er afar ólíklegt að maður nenni að lesa hana nokkurn tímann aftur. Öðru máli gegnir um stuttmynd og ég hugsa að hún eigi eftir nokkur ár að minna mann vel á menntaskólaárin.
Í seinni stuttmyndinni var klippitölvan komin og um leið færðist þetta á hærra stig en áður. Þar fékk ég að kynnast í fyrsta sinn því að klippa alvöru stuttmynd og uppgötvaði hversu fáránlega gaman það var. Reyndar dundaði ég mér einhvern tímann fyrir mörgum árum að búa til teiknimyndir í tölvu en það var nú bara eitthvað flipp. Minn hópur fékk svo sannarlega að kynnast erfiðleikunum sem geta fylgt því að taka upp. Það mætti kalla þetta okkar eldskírn í stuttmyndagerð. Fyrri helgina sem við tókum upp var nokkurra stiga frost og snjór. Við tókum upp á því að festa bílana okkar nokkrum sinnum og þegar við ætluðum að taka upp inniskot í kofa nokkrum kom í ljós að þar var engin kynding og því allt of kalt til að taka nokkuð upp. Við tókum reyndar upp einhver atriði en í samtölunum sást greinilega hvernig gufan steig upp af leikurunum þegar þeir töluðu. Handritið okkar var líka of gloppótt og við vissum ekki nógu skýrt hvert við vildum fara með þetta. Í staðinn hentum við því sem við höfðum tekið upp og tókum upp nýja stuttmynd frá grunni. Það tókst á einum degi en þar fengum við að kynnast því þegar tökur ganga virkilega vel og hratt fyrir sig. Stuttmyndahlutinn af námskeiðinu var í senn bæði fræðandi og skemmtilegur og þetta er hluti sem er algjörlega ómissandi í námskeiðinu.
Leikstjóraheimsóknirnar fannst mér vera punkturinn yfir i-ið. Þarna fengum við að kynnast mismunandi leikstjórum og mismunandi viðhorfum þeirra. Við fengum að skyggjast yfir í heim kvikmyndagerðar á Íslandi og það frá bæði fólki eins og Guðnýju Halldórsdóttur, sem er auðvitað reynslubolti, og mönnum eins og Ólafi "le Fleur", sem eru að koma ferskir inn í þetta. Og þessi heimur íslenskrar kvikmyndagerðar einkennist auðvitað af miklu basli og litlum fjármunum. Mér fannst þetta einn skemmtilegasti hluti námskeiðisins og frábærlega til fundið. Við gátum forvitnast um hvað sem við vildum, hvort sem það var í sambandi við myndirnar eða almennt um bransann á Íslandi. Það má segja að heimsóknirnar hafi bæði virkað sem hvatning og viðvörun, því þarna fékk maður að vita svart á hvítu hversu erfiður geiri þetta er á Íslandi en um leið hversu ótrúlega skemmtilegur og áhugaverður hann getur verið. Ég er reyndar enn þá í einhverjum pælingum um að halda áfram út í þennan bransa. Ég er ekki harðákveðinn í neinu framhaldi eftir MR og gæti vel hugsað mér að vinna við þennan bransa, hvort sem það sé sem hljóðmaður, dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi eða leikstjóri. Við sjáum bara til hvað gerist með það.
Gallar námskeiðisins eru ekki margir. Stundum meikaði maður varla að mæta eftir skóla á mánudögum að horfa á mynd en auðvitað lét maður sig hafa það langoftast. Og oftast sá ég nú ekki eftir því. Það er nú samt bara spurning um viljastyrk og engin ástæða til að breyta einhverju með þær, menn verða bara að sættast á einhverja tímasetningu. Mér fannst handritarausið hans McKees frekar vitlaust en Siggi sagði okkur líka að taka ekki of mikið mark á því. Það mætti kannski fara örlítið minna í það. Mér finnst að það hefði mátt fara aðeins meira í klippingu, því það er svo stór partur af kvikmyndaprósessinu. Svo hef ég víst verið að kvarta undan því hve mikið sé að gera í námskeiðinu. Þar er samt líklega um að kenna mér og mínu skipulagsleysi.
Allt í allt var kvikmyndagerð skemmtilegasta fagið sem ég hef farið í í MR. Það kynnti fyrir mér eitthvað annað og öðruvísi en mér hafði verið kennt fyrstu þrjú árin í MR. Það kom inn á eitthvað sem þú lærir almennt ekki í þessum skóla, eitthvað óhefðbundnara námsefni en stærðfræði og efnafræði. Þetta fag opnaði virkilega fyrir mér margt sem ég hefði annars ekki kynnst, bæði hvað varðar kvikmyndasöguna, áhugaverðar kvikmyndir og auðvitað sjálfa kvikmyndagerðina.
Þetta er búið að vera gaman!
Takk fyrir mig.
Wednesday, April 16, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fínir punktar. 8 stig.
Sammála því að ég hefði mátt taka meiri tíma og fara með markvissari hætti í klippinguna.
Takk fyrir veturinn.
Post a Comment