Tuesday, April 1, 2008

Man Bites Dog

Við sáum kvikmyndina Man Bites Dog í kvikmyndatíma á mánudaginn. Myndin er belgísk og er frá árinu 1992.

Myndin er svokölluð "mokkjúmentarí" og fjallar um nokkra unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að gera heimildarmynd um raðmorðingja. Þeir fylgja morðingjanum eftir og hann spjallar við þá um allt á milli arkitektúrs og morðaðferða. Þeir fylgja honum einnig eftir þegar hann myrðir mann og annan. Í fyrstu eru þeir einungis að fylgjast með en kynnast honum smám saman betur og fara að aðstoða hann við voðaverk sín. Um leið fara þeir að drepast einn af öðrum en þó halda þeir áfram að taka upp myndina.

Myndin var á köflum fyndin en um leið afar óhugnanleg og ógeðsleg. Morðinginn er gjörsamlega siðblindur og vílar ekkert fyrir sér, enda leggst hann einna helst á eldra fólk í gamalmennablokkum. Þegar hann neyðist til að drepa ungan strák segist hann helst ekki drepa krakka en bara af því að það er ekki nógu hagkvæmt. Aftur á móti var oft fyndið að sjá kvikmyndagerðarmennina spjalla við hann og svara honum. Þeir eru afar óákveðnir og óöruggir með sig og virðast ekki þora að neita honum um neitt.

Hugmyndin að myndinni er góð og framkvæmd hennar tekst einnig vel upp. Kvikmyndina gerðu fjórir félagar úr kvikmyndagerðarskóla fyrir litla fjármuni og hún er svört og hvít. Það má segja að það fari myndinni vel þar sem það eykur á grófleika hennar og gefur henni óslípað útlit.

Svo er auðvitað hægt að detta í einhverja kvikmyndagreiningu og skilja myndina sem ádeilu á nútímasamfélagið og hversu geðveikislegt það getur orðið. Ég efa þó að það hafi legið fyrir félögunum og þeir frekar viljað gera mynd sem að væri frumleg og gengi fram af fólki. Þeim tókst það. Myndin minnti mig líka smávegis á þættina og bækurnar um Dexter en morðinginn í Man Bites Dog er þó margfalt grófari og siðblindari en hann.

Leikarinn Benoit Poelvoorde stendur sig vel í hlutverki morðingjans. Hann nær mjög vel þessum geðveika náunga sem er líka sjálfselskur og óþolandi í umgengni. Eftir byrjun myndarinnar vill maður sjá manninn steindauðan en svo vill maður líka sjá hversu langt hann getur gengið. Vegna lítilla fjármuna hjálpuðu fjölskylda og vinir til með kvikmyndina en til dæmis lék móðir Benoits mömmu hans í myndinni. Reyndar vissi hún ekki að Benoit léki morðingja í myndinni og það kom henni því á óvart þegar hann var allt í einu á bak við lás og slá í einu atriðanna.

Man bites dog hélt mér allan tímann. Atvik myndarinnar voru oft á tíðum fyndin vegna þess hversu absúrd þau voru en þar má nefna hin fjölmörgu skot af Benoit að rogast með líkpoka og henda ofan í vatnsfyllta námu eða sýki. Þó breyttist gamanið gjarnan í viðbjóð og óhuggulegheit og sum atriðin gengu gjörsamlega fram af manni. Í raun er þetta mynd sem gengur út á að sjokkera fólk og það ætlunarverk tekst henni. Það kemur mér líka ekkert á óvart að Quentin Tarantino skuli halda mjög upp á þessa mynd.

2 comments:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 5 stig.

Siggi Palli said...

Þú ert þá kominn með 36½ stig á vorönn.