Um helgina var ég fastur í Danmörku af því að fluginu mínu hafði seinkað um tíu tíma. Við höfðum ekkert að gera og skelltum okkur því í bíó á Charlie Wilson's War.
Myndin fjallar í örstuttu máli um það þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan og það ferli þegar Bandaríkjamenn seldu Afgönum vopn til að berjast við þá. Þetta varð til þess að sovéski herinn beið mikla hnekki og hrökklaðist úr landinu. Og maðurinn sem stóð á bak við þetta hét Charlie Wilson.
Leikstjóri myndarinnar er maður að nafni Mike Nichols. Ég, með mína "ógurlegu" þekkingu á leikstjórum, kannaðist ekki við hann en hann leikstýrði þó m.a. The Graduate frá '67 með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Í þessari grein er svo talað um hann sem "one of the greatest" svo að ég virðist virkilega vera að missa marks í þekkingu minni á leikstjórum. Á hinn bóginn er samt spurning hversu mikið mark sé takandi á þessari grein. (Var The Birdcage eitthvert meistaraverk?) En auðvitað hef ég ekkert vit á þessu þar sem ég kannaðist ekki einu sinni við manninn.
Hvað um það. Tom Hanks, Julia Roberts og Phillip Seymour Hoffman sjá um aðalhlutverkin í myndinni. Julia Roberts hefur alltaf farið í taugarnar á mér og í þessari mynd nær hún nýjum hæðum í einmitt því. Hún leikur forríka konu frá Texas og hreimurinn hennar er gjörsamlega hræðilegur og meira en lítið pirrandi. Auk þess finnst mér hún bara leika leiðinlega. Og vera leiðinleg.
En já, Tom Hanks er við sama heygarðshornið, mér fannst hann svona allt í lagi. Auðvitað kemur fyrir að hann fari í taugarnar á manni en hann var samt fínn í þessari.
Phillip Seymour Hoffman tekur hins vegar á því og stendur sig vel. Hann fær reyndar lang skemmtilegasta karakterinn líka, grískan njósnara frá CIA sem kallar ekkert ömmu sína. Ég þarf virkilega að fara að horfa á fleiri myndir með þessum leikara. Hann var sannarlega einn af björtustu punktunum við myndina.
Þá að myndinni sjálfri. Gaurinn sem Tom Hanks leikur, sjálfur Charlie Wilson, er þessi Denny Crane-týpa, veður í kvenmönnum og hefur ávallt viskí við höndina. Hann situr á Bandaríkjaþingi og forríka konan frá Texas, Julia Roberts, fær hann til þess að kíkja til Afganistan og reyna að stöðva Sovétmenn. Wilson hjólar í málið og fær aðstoð frá Seymour Hoffman.
Atburðarásin hélt mér mestallan tímann. Myndin er hröð og það virtist virka á mig, allavegana í þetta skiptið. Það var hins vegar eins og það vantaði herslumuninn, hún náði mér ekki algjörlega.
Eins og talað er um í greininni sem ég nefndi hér að ofan, þá virðist myndin eiga erfitt með að finna sinn eigin stíl. Til dæmis voru nokkur atriði í einhvers konar tölvuleikjastíl og ég get ekki sagt að það hafi virkað fyrir mitt leyti. Þá var myndað eins og þú sætir í þyrlu sem eyrir engu og skýtur allt sem fyrir verður á jörðu niðri. Þessi atriði voru vafalaust ætluð til að lýsa skelfingunni sem ríkti í Afganistan við innrás Sovétmanna. Hins vegar fannst mér atriðin ekki nógu vönduð og þau ekki í réttu samræmi við myndina. Einnig komu fyrir atriði í fréttamyndastíl sem hefðu getað virkað en út af tölvuleikjaatriðunum gekk dæmið ekki upp.
Ég óttaðist frá byrjun að myndin væri áróðursmynd fyrir bandaríska herinn og utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Að því leyti kom hún mér á óvart. Að vísu fjallar hún að miklu leyti um vopn og sölu þeirra en hún snertir einnig á því hvernig Bandaríkjamenn ætla sér að redda öllu en yfirgefa svo löndin í algjörri rúst. Myndin kom inn á þetta í lokin en hefði mátt gera meira af því. Auðvitað er þetta samt Hollywood mynd, við hverju ætlar maður að búast?
Allt í allt, ágætis mynd og alveg þess virði að horfa á hana. Allavegana ef flugvélinni þinni seinkar um tíu tíma og þú situr fastur í Kaupmannahöfn.
Sunday, February 17, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Ágætis færsla. 4 stig.
Endurskoðuð stigagjöf: 6 stig.
Post a Comment