Wednesday, October 17, 2007

Land of the dead

Ég sá myndina Land of the dead fyrir ári eða svo. Leikstjórinn er enginn annar en George Romero, sá sami og gerði fyrri Dawn of the dead myndina. Þessi mynd fæst sem sagt við uppvakninga og má kalla sjálfstætt framhald Dawn of the dead.

Jörðin er yfirfull af uppvakningum og það er aðeins ein borg óhult. Hún er á einhvers konar eyju og mikil örrygisgæsla gagnvart bæði afturgöngunum og íbúum fátækrahverfana í kring. Stjórnandi þessa litla ríkis er gjörspilltur og svífst einskis. Á einhverja daga fresti þarf mannfólkið hins vegar að sækja vistir í nærliggjandi bæji þar sem afturgöngurnar reika um. Í þessum ferðum notast fólkið við flugelda og standa þá hinir dauðu og stara á þá. Núna eru hins vegar afturgöngurnar farnar að hugsa. Þær láta ekki lengur glepjast af flugeldunum og þetta skapar mikla hættu fyrir mannfólkið. Svo fjallar myndin um uppgang hinna dauðu og innrás þeirra í borgina.

Persónusköpun þessarar myndar er skelfileg. Það mætti halda að leikstjórinn og handritshöfundarnir hefðu sankað saman mestu stereótípunum úr hasarmyndum samtímans og svo ýkt þær um helming. Það er bara skelfing að horfa upp á þetta. Leikurinn er á sama stigi og persónusköpunin.

Söguþráðurinn er líka ógurlega ómerkilegur og fyrirsjáanlegur. Öll uppbygging persóna í myndinni, það litla sem leikstjórinn reynir, fer forgörðum og gengur ekki upp. Það eru ekki einu sinni góðar brellur í þessari mynd. Í staðinn fyrir að finna fyrir spennu í spennuatriðunum gat maður ekki annað en hlegið.

Skelfileg mynd.

Monday, October 8, 2007

Maður án fortíðar


Í gær sá ég myndina Maður án fortíðar eftir finnska leikstjórann Aki Kaurismaki. Hún fjallar um mann sem kemur einn síns liðs til Helsinki með ferðatösku og sofnar á bekk í almenningsgarði sína fyrstu nótt. Um nóttina kemur gengi pönkara og ber hann til óbóta og stelur peningum hans. Þegar hann vaknar á spítala hefur hann tapað minninu og veit ekkert um bakgrunn sinn, ekki einu sinni nafn sitt. Hann þarf því að hefja nýtt líf á götum Helsinki, allslaus og minnislaus.

Eftir því sem ég kynntist aðalpersónu myndarinnar betur varð ég hrifnari af henni. Í hinum ýmsu atvikum sem maðurinn lendir í reynist hann alltaf úrræðagóður og tekur öllu með mikilli ró. Hann tapar aldrei kúlinu þrátt fyrir hrikalegar aðstæður sínar. Aðalleikarinn sýndi frábæran leik og hann minnti mig stundum á töffarann Morrissey, söngvara The Smiths:



Eitt af því sem gerði þessa mynd svo góða, voru samtölin í myndinni og undirliggjandi húmorinn í gegnum alla myndina. Samtöl persónanna voru fá og stuttaraleg en tókst þó að koma öllu fram sem fram átti að koma. Þau voru öll mjög "blátt áfram" og um leið kómísk. Í gegnum myndina lágu atvik og smáatriði sem kitluðu hláturtaugarnar. Einnig dúkkuðu upp nokkur söngatriði í myndinni. Það er auðvelt að gera slík atriði leiðigjörn en í myndinni voru þau einkar vel gerð og alls ekki leiðinleg.

Yfirbragur myndarinnar var frábær. Myndatakan var stundum afar retró, sem gaf myndinni skemmtilegan stíl. Það var líka mjög "hlý" litasamsetning í myndinni, rauði liturinn áberandi, öfugt við kalda litasamsetninguna sem er gjarnan í norrænum myndum og þá sérstaklega íslenskum. Manni fannst nánast eins og myndin væri staðsett á sjöunda áratugnum í borg í suðurríkjum Bandaríkjanna. Það hljómar ef til vill fáránlega en passaði mjög vel við fátækleikann sem einkenndi líf aðalpersónunnar.

Ég get ekki talið upp galla við þessa mynd. Mér fannst hún bæði vel leikin og skrifuð, ásamt því að vera einlæg og skemmtileg. Það eru eflaust einhverjir sem telja þetta ofmat en eins og alltaf eru skoðanir fólks ólíkar. Þessi mynd er nálægt því að rata á topp tíu hjá mér og ég mæli eindregið með henni.

Monday, October 1, 2007

Einkalíf okkar

Í gærkvöldi sá ég myndina Our Private Lives eftir kanadíska leikstjórann Denis Cote. Myndin er kanadísk og tekin upp þar en gerist nánast öll á búlgörsku. Hún fjallar um búlgarskt par sem kynnist á netinu og ákveður að hittast. Konan býður manninum til sín í sveitahús í Quebec í Kanada og þar byrja þau að kela og knúsast. En þau eru ekki lengi í paradís og það kemur í ljós að þau eiga ekki jafn vel saman og þau héldu.


Leikstjórinn var á staðnum og nefndi það fyrir myndina að hún væri í tveimur hlutum og ef okkur líkaði báðir jafn vel yrði hann mjög ánægður. Ég get því miður ekki sagt það. Margt í byrjun myndarinnar var ágætt. Í fyrstu virkuðu leikararnir ekki vel á mig en þau spjöruðu sig samt ágætlega og samband þeirra var trúanlegt. Myndatakan var mjög hreyfð og það, ásamt litayfirbragði myndarinnar gaf ákveðna stuttmynda-stemmingu. Það er þó mjótt á milli listrænna tilburða og tilgerðar og myndatakan var stundum nánast pirrandi. Myndin hefur ábyggilega ekki verið dýr í framleiðslu en það þarf ekki að vera ókostur. Ég efast þó um að meiri fjármunir hefðu bjargað þessari mynd.

Það sem leikstjórinn byggði upp í fyrri hlutanum var ágætt út af fyrir sig en því miður náði hann ekki að fylgja þessu eftir í seinni hluta myndarinnar. Það mætti halda að hann hafi bara gefist upp og ekki nennt þessu lengur. Sú spenna sem leikstjórinn hafði reynt að byggja upp var misheppnuð. Maður fékk það á tilfinninguna að leikstjórinn hefði ekki verið viss um hvers konar mynd hann ætlaði að gera, spennumynd eða eitthvað annað. Kannski ætlaði hann að fara ótroðnar slóðir en það hefur þá mistekist hjá honum.

Mér og félögum mínum fannst við aldrei fá neina niðurstöðu í myndina, öllu heldur fleiri spurningar. Það getur stundum virkað en í þessari virkaði það ekki. Það var ekki heil brú í lokaatriðinu, myndin endaði á dans konunnar við eitthvað verulega dæmigert reiflag. Mjög kjánalegt allt saman og tilgerðin var gjörsamlega vaðandi.

Eftir myndina átti leikstjórinn að svara spurningum. Við nenntum ekki að hlusta á það og gengum út. Frekar slök mynd fannst okkur, kannski lá eitthvað meira undir niðri sem við áttuðum okkur ekki á. Mæli ekkert sérstaklega með þessari.