Í sjónvarpinu á laugardaginn var sýnd myndin Sliding Doors frá árinu 1998. Ég kannaðist ekki við hana en Elfa hafði séð hana nokkrum sinnum og mæltist til þess að við horfðum á hana.
Þessi mynd skartar "sjálfri" Gwyneth Paltrow í aðalhlutverki ásamt Skotanum John Hannah. Ef þið kannist ekki við nafnið John Hannah, þá er þetta náunginn:
Hann er allt of emó á þessari mynd en hún verður að duga. Maðurinn verður kannski seint kallaður stórstjarna en hann átti sína tíma á tíunda áratugnum og talar ansi hreint massífa skosku. Hann var til dæmis í Four Weddings and a Funeral og lék þar skoska gæjann og stóð sig vel. Svo lék hann eitthvað aukahlutverk í Mummy myndunum en þær voru jú góðar á sínum tíma (í hvað, sjöunda bekk).
Allavegana, myndin gengur út á svona "hvað ef" pælingu. Við fáum að sjá hvernig líf Helenar þróast miðað við hvort að hún missir af lest eða ekki. Munurinn á þessum mismunandi leiðum sem líf Helenar þróast eftir er dramatískur en í öðru lífinu kemur hún að manninum sínum að halda framhjá en í hinu lífinu kemst hann upp með það. Voila, þarna er kominn þessi klassíski ástarþríhyrningur og um leið bresk rómantísk gamanmynd.
Það er ljóst að þessi "hvað ef" hugmynd býður upp á mikið en um leið er bæði erfitt að láta hana ganga upp og auðvelt að klúðra henni. Mér fannst framleiðendum þessarar myndar hins vegar takast vel upp. Oft á tíðum voru klippingarnar í myndinni afar flottar, þar sem klippt var á milli atvika sem gerast á sama stað en í "mismunandi lífi" ef svo má að orði komast. Afar hrifningarvert (impressive) á tíðum.
Einnig fannst mér handritið vel unnið í sambandi við tengsl á milli mismunandi lífa Helenar. Það var til dæmis oft á tíðum sem hún virtist eiga leið hjá sama stað í mismunandi lífi þrátt fyrir að vera stödd þar fyrir mismunandi ástæður. Þetta myndar ákveðin tengsl á milli "lífanna" og gefur myndinni um leið meiri heildarsvip. Til að mynda er hún í öðru lífinu út á báti að hvetja áfram í róðrarkeppni mann sem hún er nýbúin að hitta en svo er klippt viðstöðulaust á vítt skot af bátnum og þá sést hún rölta framhjá á árbakkanum með vinkonu sinni í hinu lífinu. Jæja þetta dæmi er kannski ögn langsótt en þegar þið sjáið þetta, þá virkar þetta vel (ég tékkaði á youtube en fann því miður ekki þetta atriði eða annað sem notaðist við þennan "tengsla-effekt").
Rómantíski parturinn af myndinni er líka ekki of mikill og myndin verður aldrei of væmin. "Gaman" hlutinn af myndinni er hins vegar ágætlega vænn og svo auðvitað "fílgúdd" hlutinn, en það má segja að hann spili stærsta hlutverkið.
Ég hefði ekki haldið fyrir helgi að ég myndi nokkurn tímann segja að mér fyndist mynd með Gwyneth Paltrow bæði fyndin og skemmtileg. En það var þó raunin og kellan stendur sig bara ansi vel líka. Líklega eru þetta fordómar í mér, hún lék jú í Shakespeare in Love og vann óskarinn og hvaðeina. En svo minnir mig að hún hafi tekið upp á því að bresta þar í grát og það er nú of mikið fyrir hvern sem er. En eftir þessa mynd hefur hún hækkað í áliti hjá mér.
Þetta er auðvitað þegar öllu er á botninn hvolft rómantísk gamanmynd en hún er bresk og þær eru alltaf miklu skemmtilegri. Og áhorfanlegri. Þessi er ansi áhorfanleg, og inniheldur auk þess skoskan gæja, og ef að tilefni gefst til mæli ég með að hver sem er kíkji á hana. Og þar hafið þið það!
Sunday, March 30, 2008
Subscribe to:
Posts (Atom)